Sætar kartöflur með jurtasalti og blóðbergssírópi


IMG_4803*Í samstarfi við Urtu*

Í vor vann ég nokkrar uppskriftir fyrir fyrirtækið Urtu Islandica. Þau eru gera ákaflega spennandi hluti! Þau nota íslenskar jurtir og ber til að framleiða meðal annars salt, síróp og te. Ég hvet ykkur til að kíkja til þeirra í fallega húsið þeirra í Hafnarfirði, Gömlu matarbúðina við Austurgötu, og skoða þetta skemmtilega fjölskyldufyrirtæki og framleiðsluna þeirra. Vörurnar fást að auki í Hagkaup í Kringlunni.

IMG_4811

Ég hreinlega elska sætar kartöflur! Ég fæ ekki nóg af þeim en því miður eru börnin ekki eins hrifin, elsta dóttirin segist hafa borðað yfir sig af þeim og gefur þar með í skyn að móðirin hafi boðið aðeins of oft upp á sætar kartöflur sem meðlæti í gegnum tíðina .. sem ég bara skil ekki! 😉 Ég gæti nefnilega grínlaust borðað sætar kartöflur í hvert mál. Mér finnst mikilvægt að leyfa sætu kartöflunum að njóta sín í einfaldleika sínum þegar þær eru matreiddar og hér bjó ég til uppskrift þar sem mér finnst sætu kartöflurnar njóta sín fullkomlega. Ég notaði þær með ljúffengum fiskrétti (uppskrift kemur á bloggið innan skamms) og fannst þessi réttur algjört hnossgæti. Það væri örugglega dásamlega gott líka að nota þær með t.d. kjúklingi eða grillmat.

IMG_4775

Uppskrift:

  • 900 g sætar kartöflur, flysjaðar og skornar bita
  • 3 msk ólífuolía
  • svartur pipar
  • ca. 30 ml blóðbergssíróp
  • 100 g pekanhnetur
  • öræfa jurtasalt
  • fersk steinselja

Ofn hitaður í 210 gráður við undir- og yfirhita. Ólífuolíu, svörtum pipar og blóðbergssírópi blandað saman og dreift á ofnplötu klædda bökunarpappír. Bakað við 210 gráður í 25-30 mínútur. Þá eru sætu kartöflurnar teknar úr ofninum, pekan hnetunum blandað saman við þær ásamt öræfa jurtasalti og ferskri steinselju.

IMG_4791

Grillaður lax með sætum kartöflum og tzatziki-engifer sósu


Lax er vinsæll hjá næstum því öllum í fjölskyldunni. Yngsti fjölskyldumeðlimurinn er þó ekki hrifin! Henni finnst almennt fiskur ekki góður og hefur meira að segja reynt að fá móður sína til að boða til fundar með kennurum sínum til þess að segja þeim að hún eigi barasta alls ekki borða fisk í skólanum! 🙂 En varðandi laxinn, oftast ofnbaka ég laxinn eða grilla á útigrili á álbakka. Það eru til allskonar góðar mareneringar og sósur til að elda laxinn í en mér finnst hann eiginlega bestur ,,hreinn”, það er bara með kryddi.

Grillaður lax

Laxaflak lagt á álbakka, kryddað með sítrónupipar, nýmöluðum pipar og maldon salti ásamt steinselju og grillaður á útigrilli.

Sætar kartöflur með tómötum og klettasalati

Bakarofn hitaður í 210 gráður. Sætar kartöflur skornar í teninga og lagðar í ofnskúffu. Dálítið af ólívuolíu skvett yfir ásamt salti, pipar, rósmarin, basiliku og oregano. Sett inn í ofn í 20 mínútur. Þá eru kokteiltómatar skornir í helminga og þeim bætt við sætu kartöflurnar, blandað saman við og hitað í 10 mínútur í viðbót eða þar til sætu kartöflurnar eru tilbúnar. Sett í skál og klettasalati bætt við.

Ég er engin sérfræðingur þegar kemur að ólífuolíum. En um daginn áskotnaðist eignmanninum gjafakarfa með ýmisskonar matvælum. Í henni leyndist meðal annars  Tenuta A Deo ólífuolía. Hún er framleidd á ólífubúgarði í Lucca hæðum Tuscana héraðs á Ítaliu. Þangað flutti íslensk fjölskylda árið 2008, keypti þennan búgarð og framleiðir nú áðurnefnda A Deo ólífuolíu. Á pakkningunni stendur:  ,,Margir telja Lucca hérað besta ólífuhérað heims. Olían er bragðmikil en þó létt, auðþekkjanleg af blómaangan og ávaxtakeim með örlítili beiskju í undirtón.“ Ég bragðaði á þessari ólífuolíu eintómri (sem maður gerir kannski ekki mikið af svona almennt! ) og vá hvað hún er ljúffeng! Mig dreymir um að fara í matar- vín og menningarferð til Tuscana! Þessi íslensku ólífubændur leigja út þetta hús, það væri nú ekki slæmt að dvelja þar! 🙂 A Deo ólífuolían fæst í Hagkaup, Fjarðarkaup, mörgum sérvöruverslunum og kjötbúðum.

Ferskt salat

Blandað salat, hunangsmelóna, tómatar, rauð paprika og fetaostur.

Tzatziki-engifersósa

Uppskriftina er að finna hér.

Grilluð sirloin nautasteik með piparsósu


Á afmælisdaginn óskaði eiginmaðurinn sér nautasteikur með piparsósu sem hann auðvitað fékk! Fyrir valinu urðu vænir sirloin bitar úr versluninni ,,Til sjávar og sveita“ í Ögurhvarfi. Kjötið var marinerað í pipar/papriku marerningu og grillað á útigrilli. Meðlætið var: Grillað grænmeti (gulrætur, zuccini, sveppir og paprika) sem var saltað og piprað og aðeins skvett á það ólivuolíu. Að grillun lokinni bætti ég út í kokteiltómötum, rifnum Parmesan osti, ferski basiliku og steinselju.

Ofnsteiktar sætar kartöflur með olivuolíu, ferskri basiliku, steinselju og oreganó ásamt Maldon salti og nýmöluðum pipar.

Piparsósa:

  • 400 ml. nautasoð (helst heimatilbúið, líka hægt að panta það í kjötverslunum en einnig hægt að nota tilbúinn ,,Tasty pipar sósugrunnur“.
  • 1.5 dl. rjómi
  • 1 tsk. koníak
  • 1-2 tsk. piparkorn (ég nota blönduð piparkorn, svört, græn og rósapipar, grófmöluð og heil)
  • 1 msk. rifsberjahlaup
  • 1 tsk. soyasósa

Nautasoð sett í pott ásamt soyasósu og koníaki og piparkornum og suðan látin koma upp, hrært í á meðan. Þessu leyft að sjóða í nokkrar mínútur. Bætið við rjóma, rifsberjahlaupi og leyfið sósunni að malla á lágum hita í dágóðan tíma. Ef sósan er of þykk, bætið við meiri rjóma, ef hún er of þunn, þykkið með sósujafnara. Ferskt salat: salatblöð, spínat, klettasalat, kokteiltómatar, gúrka, mango, avokado  og fetaostur.

Það eru fleiri góðar sósur sem passa vel með nautakjöti. Hér er ég með uppskrift af ljúffengri heimagerðri bearnaise sósu. Svo er hér uppskrift af góðri sveppasósu.

Kjötið var afar meyrt og gott og allir sáttir við afmælismatinn, ekki síst eiginmaðurinn! 🙂 Jóhanna Inga fékk sér forrétt! Hún er á matreiðslunámskeiði þessa vikuna hjá matreiðslukennaranum í Laugarnesskóla. Fyrsta daginn eldaði hún tómatsúpu, bakaði brauðbollur og útbjó ís! Hún var býsna sátt við þetta námskeið! Best fannst henni að þau fengu að gera allt sjálf, brjóta eggin, hræra í heitum pottum, skera niður lauk og svo framvegis. Mín reynsla er að krakkar geta eiginlega gert flest í matargerð mjög snemma. Jóhanna hefur til dæmis bakað sjálf undir leiðsögn frá því að hún var 4-5 ára, brotið eggin, mælt hráefni, hrært og saxað. En allavega, þá fékk hún sér tómatsúpu og brauð í forrétt og allir fengu að smakka, afar ljúffengt hjá henni! 🙂

Varðandi afmælistertuna, ef einhver ætlar að prófa hana þá er hún margfalt betri daginn eftir þegar hún hefur fengið að brjóta sig svolítið ….. það get ég vitnað um (tékkaði sko nokkrum sinnum á því! ;)) Endilega bakið hana því daginn áður en hún er borin fram!