Grillað lambafille með Hasselback kartöflum, grilluðu grænmeti og sveppasósu


Við erum nýkomin úr bústaðarferð og þar var ansi mikið gott sett á grillið eins og sést á uppskriftunum undanfarna daga! 🙂 Eitt kvöldið grilluðum við lambafille (úr versluninni Til sjávar og sveita). Ég kryddaði það bara vel með nýmöldum pipar og prófaði að salta það eftir grillun á meðan það jafnaði sig með reyktu maldon salti en það kom vel út.

 Fyrr um daginn höfðum við heimsótt garðyrkjustöðina Engi á Laugarási. Þar var býsna margt girnilegt og eftir að hafa prófað völundarhúsið og skoðað gróðurhúsin heldum við aftur í bústaðinn með tvo fulla poka af grænmeti og kryddjurtum. Við komum svo aftur við þar á leiðinni heim úr bústaðnum nokkrum dögum seinna og keyptum fleiri kryddjurtir!

 Í grænmetisgrindina þetta kvöldið lenti því margt gott grænmeti. Það var kúrbítur, sveppir, paprika, brokkolí og svo glænýtt chili frá Engi! Það þarf að fræhreinsa það vel og gæta þess að það sé vel grillað svo það verði ekki of sterkt. Grænmetisgrindin sem ég nota er frá Weber, frábær til að grilla grænmeti í og mikið notuð á heimilinu. Satt best að segja þá flytum við hálft eldhúsið með okkur þegar við förum í bústað! Það eru teknir með grillaukahlutir, espressovélin, blenderinn, soda stream til að búa til sódavatn og svo hálfur búrskápurinn svo hægt sé að elda og baka! 🙂

 Auk grillaðs grænmetis bjó ég til ferskt salat úr blönduðu salati, klettasalati og spínati ásamt kokteiltómötum, hunangsmelónu og fetaosti. Einnig gerði ég Hasselback kartöflur sem eru mjög vinsælar á heimilinu! Uppskrift af þeim er ég með hér.

Með kjötinu bjó ég til sveppasósu. Það er líka gott að nota heimatilbúna bearnaise sósu og uppskrift af henni er ég með hér.

Sveppasósa

  • 1/2 rauðlaukur
  • 2 hvítlauksrif
  • smjör
  • nokkrir sveppir
  • 2 tsk. nautakraftur
  • 1/2 piparostur
  • 3 msk. rjómaostur
  • 4 dl. rjómi (eða matreiðslurjómi)
  • 2 tsk. rifsberjahlaup
  • 2 tsk. soyjasósa
  • sósujafnari
  • salt og pipar

Laukur og hvítlaukur saxað smátt, sveppir sneiddir og allt steikt í potti upp úr smjöri. Nautakrafti bætt við. Hiti lækkaður aðeins og piparosti og rjómaosti bætt út og látið bráðna. Rjóma bætt út í ásamt rifsberjahlaupi og soyjasósu og suðan látin koma upp. Sósujafnara bætt út og sósan látin malla á vægum hita þar til að hún þykknar (sósulit bætt út í til að fá dekkri lit). Sósan smökkuð til með kryddi, rifsberjahlaupi, sojasósu og/eða nautakrafti.

Grillaður lax með sætum kartöflum og tzatziki-engifer sósu


Lax er vinsæll hjá næstum því öllum í fjölskyldunni. Yngsti fjölskyldumeðlimurinn er þó ekki hrifin! Henni finnst almennt fiskur ekki góður og hefur meira að segja reynt að fá móður sína til að boða til fundar með kennurum sínum til þess að segja þeim að hún eigi barasta alls ekki borða fisk í skólanum! 🙂 En varðandi laxinn, oftast ofnbaka ég laxinn eða grilla á útigrili á álbakka. Það eru til allskonar góðar mareneringar og sósur til að elda laxinn í en mér finnst hann eiginlega bestur ,,hreinn”, það er bara með kryddi.

Grillaður lax

Laxaflak lagt á álbakka, kryddað með sítrónupipar, nýmöluðum pipar og maldon salti ásamt steinselju og grillaður á útigrilli.

Sætar kartöflur með tómötum og klettasalati

Bakarofn hitaður í 210 gráður. Sætar kartöflur skornar í teninga og lagðar í ofnskúffu. Dálítið af ólívuolíu skvett yfir ásamt salti, pipar, rósmarin, basiliku og oregano. Sett inn í ofn í 20 mínútur. Þá eru kokteiltómatar skornir í helminga og þeim bætt við sætu kartöflurnar, blandað saman við og hitað í 10 mínútur í viðbót eða þar til sætu kartöflurnar eru tilbúnar. Sett í skál og klettasalati bætt við.

Ég er engin sérfræðingur þegar kemur að ólífuolíum. En um daginn áskotnaðist eignmanninum gjafakarfa með ýmisskonar matvælum. Í henni leyndist meðal annars  Tenuta A Deo ólífuolía. Hún er framleidd á ólífubúgarði í Lucca hæðum Tuscana héraðs á Ítaliu. Þangað flutti íslensk fjölskylda árið 2008, keypti þennan búgarð og framleiðir nú áðurnefnda A Deo ólífuolíu. Á pakkningunni stendur:  ,,Margir telja Lucca hérað besta ólífuhérað heims. Olían er bragðmikil en þó létt, auðþekkjanleg af blómaangan og ávaxtakeim með örlítili beiskju í undirtón.“ Ég bragðaði á þessari ólífuolíu eintómri (sem maður gerir kannski ekki mikið af svona almennt! ) og vá hvað hún er ljúffeng! Mig dreymir um að fara í matar- vín og menningarferð til Tuscana! Þessi íslensku ólífubændur leigja út þetta hús, það væri nú ekki slæmt að dvelja þar! 🙂 A Deo ólífuolían fæst í Hagkaup, Fjarðarkaup, mörgum sérvöruverslunum og kjötbúðum.

Ferskt salat

Blandað salat, hunangsmelóna, tómatar, rauð paprika og fetaostur.

Tzatziki-engifersósa

Uppskriftina er að finna hér.

Grænmetisræktun og nýr pallur


Grænmetisræktunin er komin ágætlega af stað hjá mér. Reyndar setti ég niður grænmetið aðeins seinna en venjulega vegna framkvæmda en við fengum nýjan og stærri pall. Pallurinn sem var fyrir var orðin lúin og svo var hann ansi lítill. Nýji pallurinn er stærri og rúmbetri en það besta er að hann er úr viðhaldsfríu plastefni. Það þarf því ekkert að bera á hann, pússa né annað slíkt, bara spúla hann við þörfum! 🙂

Fyrir:

Eftir:

Í ár setti ég niður allskonar forræktað salat og svo sáði ég fyrir fullt af spínati og klettasalati. Síðastliðin ár hef ég prófað mig áfram með allskonar grænmetisræktun. Ég sáði fyrir gulrótum nokkrum sinnum en er hætt því. Sama hvaða tegund ég notaði þá urðu þær svo litlar. Svo hef ég reyndar ekki mikla þolinmæði í  ræktun sem þarf að bíða fram á haust eftir uppskeru! 🙂 Mér hefur reynst langbest að kaupa forræktað salat, það kemur fljótt til og hægt að byrja nota það strax í júní. Ég nota spínat og klettasalat mikið í matargerð en það sprettur eins og arfi! Þess vegna sái ég miklu af því og bæti svo við sáninguna þegar líður á sumarið og elsta uppskeran fer að vaxa úr sér og blómstra.

Ég hef alltaf notað dúk yfir grænmetisbeðið fyrsta mánuðinn en í ár ákvað ég að prófa að sleppa því, mig langar að athuga hvort það muni einhverju.

Klettasalatið og spínatið er komið stutt á veg en það vex samt afar hratt, það eru bara tæpar tvær vikur síðan ég sáði fyrir því.

Á hverju sumri hefst bjórveisla í grænmetisbeðinu í byrjun júlí! Þá koma nefnilega oft sniglar í beðið. Þeir sækja mikið í salatið en fara hvorki í spínatið né klettasalatið. Það er hægt að útbúa bjórgildrur til að veiða þá. En mér finnst hreinlega best að fara út á kvöldin og tína þá! Mér hefur tekist að hafa stjórn á þessum óboðnu gestum hingað til, þeir hafa ekki náð að skemma salatið fyrir mér!

Varðandi kryddjurtir þá hef ég eins og áður sagði litla þolinmæði! Ég er löngu hætt að sá fyrir kryddjurtum (nema fyrir myntu, steinselju og graslauk sem spretta afar vel útivið). Langbest reynist mér að kaupa tilbúnar kryddjurtir og umpotta þeim. Þá spretta þær vel og duga lengi. Fljótlega á ég leið um Biskupstungur og ætla þá að koma við í Laugarási á garðyrkjustöðinni Engi. En þeir eru með lífrænan markað og selja þar meðal annars ótal tegundir kryddjurta. Markmiðið er að koma heim með ýmiskonar ilmandi kryddjurtir, umpotta þeim og halda þeim á lífi í sumar! 🙂