Grillað lambafille með sveppasósu og kryddkartöflum með sesamfræjum


Helgin leið hratt eins og reyndar allir dagar um þessar mundir. Ég hlakka ekkert lítið til þegar ég verð búin með meistararitgerðina mína! Hún hangir yfir mér eins og mara alla daga. Það verður lítill munur á virkum dögum og helgum þegar svona verkefni bíður stöðugt eftir manni í tölvunni og mér finnst ég alltaf vera að svíkjast um ef ég geri eitthvað annað en að skrifa. Fyrir utan það að hafa skrifað meira og minna alla helgina þá voru hápunktar helgarinnar þrír, þegar ég bakaði þessa dásamlegu banana-súkkulaðiköku. Namm, ég þarf að halda aftur að mér að baka hana ekki alveg strax aftur! Á laugardagskvöldinu gisti Jóhanna Inga hjá vinkonu sinni og við hjónin skruppum í bíó á James Bond og tókum Vilhjálm með okkur. Ég hefði aldrei nennt að fara á frumsýningarhelgi ef ekki væri fyrir Kringlubíó þar sem hægt er að kaupa miða í númeruð sæti. Ég skil ekki af hverju það eru ekki númeruð sæti í öllum bíóhúsum þannig að maður þurfi ekki að lenda í troðning og látum eins og oft vill verða. Mér finnst vera til lítils að kaupa bíómiða fyrirfram á netinu ef maður þarf svo hvort sem er að mæta snemma og troðast áfram til að ná sæmilegum sætum. Ok, Svíinn í mér hefur lokið máli sínu um þetta málefni! 🙂 Jú annars, eitt enn, myndin var mjög góð! Þriðji hápunkturinn var svo heimsókn til ömmu og afa sem var orðið alltof langt síðan að við höfðum hitt. Reyndar má nú kalla sunnudagsmatinn fjórða hápunktinn! Grillað lamabafille með góðu meðlæti. En gott grillað lamba- eða nautakjöt er í algjöru uppáhaldi hjá mér.

Uppskrift:

 • Lambafille
 • olía
 • rósmarín
 • timjan
 • salt
 • pipar
 • hvítlauksrif, pressuð

Kryddi, hvítlauk og olíunni blandað saman, lambafille velt upp blöndunni, pakkað þétt í plastfilmu og látið bíða í nokkrar klukkustundir í ísskáp. Kjötið svo tekið út og látið ná stofuhita áður en það er grillað. Yfirgrillarinn sá um að grilla kjötið en mér skilst að hann grilli það við fremur háan hita í ca. 6-7 mínútur með fituhliðina niður, 3-4 mínútur á hinni hliðinni. Þetta fer þó auðvitað eftir þykkt bitanna. Það er þykk fiturönd á kjötinu, það þarf því að fylgjast vel með kjötinu og færa það til við þörfum svo það brenni ekki.

Sveppasósa

 • smjör
 • 200 gr sveppir
 • 2-3 tsk nautakraftur
 • 1 piparostur
 • 4 dl matreiðslurjómi
 • 2 dl mjólk
 • 2 tsk rifsberjahlaup
 • 1 msk soyjasósa
 • sósujafnari
 • salt og pipar

Sveppir sneiddir og þeir steiktir í potti upp úr smjöri. Nautakrafti bætt við. Hiti lækkaður aðeins og piparosti bætt út og hann látin bráðna. Rjóma og mjólk bætt út í ásamt rifsberjahlaupi og soyjasósu og suðan látin koma upp. Sósujafnara bætt út og sósan látin malla á vægum hita þar til að hún þykknar (sósulit bætt út í ef maður vill fá dekkri lit). Sósan smökkuð til með kryddi, rifsberjahlaupi, sojasósu og/eða nautakrafti.

Kryddkartöflur með sesamfræjum

 • 1 kíló kartöflur
 • 1 1/2 msk sesamfræ
 • 2 hvítlauksrif
 • 2 msk olía
 • 1 tsk cumin
 • 2 tsk kóríander krydd (ég notaði líka ferskt)
 • 1 tsk grófmalaður svartur pipar
 • 1/4-1/2 tsk cayenne pipar
 • 1 tsk salt
 • 1 msk sítrónusafi

Kartöflurnar soðnar og afhýddar. Sesamfræin þurrristuð á pönnu þar til þau fá lit, þá eru þau lögð til hliðar. Hvítlaukurinn saxaður smátt. Olía hituð á pönnu og cumin ásamt hvítlauk bætt út á pönnuna þar til það hefur fengið lit en má ekki brenna. Kartöflunum bætt út á pönnuna og steikt, hrært í varlega öðru hvoru. Kryddað með kóríander, pipar, cayenne pipar, salti og sítrónusafa. Sesamfræunum bætt við og allt steikt nokkrar mínútur í viðbót, hrært í varlega öðru hvoru.

Salat með lambafille og piparrótarsósu


Nú eru loksins allir í fjölskyldunni komnir heim eftir ævintýri sumarsins. Alexander var í löngu og skemmtilegu ferðalagi um Japan en Ósk var á Krít og í Stokkhólmi. Báðum systkinunum langaði í eitthvað sérstaklega gott í kvöldmatinn eftir langa fjarveru. Mest langaði Alexander í gott kjöt enda búinn að lifa á hrísgrjónum, sushi og innmat (Japanir eru víst voða hrifnir af lifrum, hjörtum, görnum, nýrum og öðru slíku góðgæti!) síðastliðinn mánuð. Ég er búin að hugsa lengi um að gera einhvern góðan rétt úr lambalundum eða lambafille og nú var komið gott tækifæri til að láta verða úr því. Ég dró fram nokkur ,,Bestu uppskriftir Gestgjafans“ blöð en þau eru í uppáhaldi hjá mér! Til dæmis nota ég blaðið frá 2003 afar mikið, þar eru margar mjög góðar uppskriftir. Þessa uppskrift fann ég hins vegar í blaðinu frá 2009.

Að vanda fylgdi ég nú ekki uppskriftinni út í ystu æsar. Ég notaði minna af balsamik edik og olíu en uppgefið var og útbjó í staðinn piparrótarsósu til að bera fram með réttinum. Hér í fjölskyldunni eru sósur flokkaðar með drykkjarföngum og því ekkert sérstaklega vinsælt að bera fram kjöt án vænnar sósuslettu! Ég notaði líka ristaðar kasjúhnetur í stað furuhneta en ég er eiginlega alveg hætt að nota furuhnetur. Ég hef nefnilega tvisvar lent í ,,pine mouth syndrome“ sem er afar hvimleitt að lenda í. Það lýsir sér þannig að einum degi eftir að hafa borðað furuhnetur finnur maður málkennt, vont bragð í munni af öllum mat, drykk og meira að segja tannkreminu! Þetta getur varað í allt að fjórar vikur. Ég lagðist í rannsóknarvinnu um þetta vandamál og komst að því að það er algengt. Það er ekki enn búið að finna ástæðuna en samkvæmt rannsóknum matvælastofnun Svíþjóðar virðist þetta tengjast uppskerubresti á furuhnetum í Asíu. Þá fóru ræktendur að notast við aðra tegund af furuhnetum sem geta haft þessi áhrif. Ég vil ekki taka áhættuna að lenda í þessu aftur og nota því varla furuhnetur lengur! Ég breytti tvennu til viðbótar í uppskriftinni, ég notaði klettasalat til viðbótar við spínatið og lambasalatið. Að auki notaði ég grillaðar paprikur frá Sacla í stað bakaðra tómata. Þetta heppnaðist býsna vel og öllum fannst rétturinn ljúffengur!

Uppskrift f. 3-4

 • 2 lambafille eða lambaprime
 • 2 msk olía
 • salt og pipar

Penslið lambið með olíunni. Grillið á útigrilli ca. 5-7 mínútur á hvorri hlið. Mikilvægt er að fylgjast vel með kjötinu þannig að það verði ekki ofgrillað. Það þarf einnig að hafa í huga að kjötið heldur áfram að steikjast í eigin hita eftir að það er tekið af grillinu. Þegar kjötið er tekið af grillinu er það saltað og piprað og leyft að jafna sig áður en það er skorið. Eldun í ofni: Hitið ofninn í 175 gráður. Penslið lambið með olíunni og steikið á pönnu þar til það er brúnað á öllum hliðum. Setjið í ofninn í 10 mínútur. Saltið og piprið.

 • 2 eggaldin
 • 2-3 msk olía
 • 1 tsk salt
 • 200 gr lambasalat
 • 150 gr ferskt spínat
 • 1 krukka bakaðir tómatar frá Sacla (Oven Rosted Tomatoes) eða grilluð paprika (Char-Grilled Capsicum)
 • 2-3 msk furuhnetur, ristaðar (eða kasjúhnetur)
 • 2-3 msk basilika, smátt söxuð
 • 6 msk góð ólifuolía
 • 2 msk hindberja- eða balsamedik

Skerið eggaldin í ca 2 cm þykkar sneiðar og steikið í olíunni eða grillið þar til þær eru vel brúnaðar, saltið. Leggið lambasalat og spínat á fat. Skerið eggaldin í minni bita og raðið ofan á. Skerið lambafille í sneiðar og raðið þar ofan á. Dreifið tómötum (eða papriku), furuhnetum og basiliku yfir. Blandið saman olíu og hindberjaediki og dreifið yfir salatið. Saltið og piprið með nýmöldum pipar.

Í piparrótarsósuna er notað piparrótarmauk. Það er yfirleitt að finna hjá kryddunum í verslunum og lítur svona út:

Piparrótarsósa: 

 • 1 dós sýrður rjómi
 • 3 msk majónes
 • 1 pakki piparrótarmauk
 • 1 msk sítrónusafi
 • 1 msk hunang
 • 1 tsk salt

Grillað lambafille með Hasselback kartöflum, grilluðu grænmeti og sveppasósu


Við erum nýkomin úr bústaðarferð og þar var ansi mikið gott sett á grillið eins og sést á uppskriftunum undanfarna daga! 🙂 Eitt kvöldið grilluðum við lambafille (úr versluninni Til sjávar og sveita). Ég kryddaði það bara vel með nýmöldum pipar og prófaði að salta það eftir grillun á meðan það jafnaði sig með reyktu maldon salti en það kom vel út.

 Fyrr um daginn höfðum við heimsótt garðyrkjustöðina Engi á Laugarási. Þar var býsna margt girnilegt og eftir að hafa prófað völundarhúsið og skoðað gróðurhúsin heldum við aftur í bústaðinn með tvo fulla poka af grænmeti og kryddjurtum. Við komum svo aftur við þar á leiðinni heim úr bústaðnum nokkrum dögum seinna og keyptum fleiri kryddjurtir!

 Í grænmetisgrindina þetta kvöldið lenti því margt gott grænmeti. Það var kúrbítur, sveppir, paprika, brokkolí og svo glænýtt chili frá Engi! Það þarf að fræhreinsa það vel og gæta þess að það sé vel grillað svo það verði ekki of sterkt. Grænmetisgrindin sem ég nota er frá Weber, frábær til að grilla grænmeti í og mikið notuð á heimilinu. Satt best að segja þá flytum við hálft eldhúsið með okkur þegar við förum í bústað! Það eru teknir með grillaukahlutir, espressovélin, blenderinn, soda stream til að búa til sódavatn og svo hálfur búrskápurinn svo hægt sé að elda og baka! 🙂

 Auk grillaðs grænmetis bjó ég til ferskt salat úr blönduðu salati, klettasalati og spínati ásamt kokteiltómötum, hunangsmelónu og fetaosti. Einnig gerði ég Hasselback kartöflur sem eru mjög vinsælar á heimilinu! Uppskrift af þeim er ég með hér.

Með kjötinu bjó ég til sveppasósu. Það er líka gott að nota heimatilbúna bearnaise sósu og uppskrift af henni er ég með hér.

Sveppasósa

 • 1/2 rauðlaukur
 • 2 hvítlauksrif
 • smjör
 • nokkrir sveppir
 • 2 tsk. nautakraftur
 • 1/2 piparostur
 • 3 msk. rjómaostur
 • 4 dl. rjómi (eða matreiðslurjómi)
 • 2 tsk. rifsberjahlaup
 • 2 tsk. soyjasósa
 • sósujafnari
 • salt og pipar

Laukur og hvítlaukur saxað smátt, sveppir sneiddir og allt steikt í potti upp úr smjöri. Nautakrafti bætt við. Hiti lækkaður aðeins og piparosti og rjómaosti bætt út og látið bráðna. Rjóma bætt út í ásamt rifsberjahlaupi og soyjasósu og suðan látin koma upp. Sósujafnara bætt út og sósan látin malla á vægum hita þar til að hún þykknar (sósulit bætt út í til að fá dekkri lit). Sósan smökkuð til með kryddi, rifsberjahlaupi, sojasósu og/eða nautakrafti.