Grillað lambafille með Hasselback kartöflum, grilluðu grænmeti og sveppasósu


Við erum nýkomin úr bústaðarferð og þar var ansi mikið gott sett á grillið eins og sést á uppskriftunum undanfarna daga! 🙂 Eitt kvöldið grilluðum við lambafille (úr versluninni Til sjávar og sveita). Ég kryddaði það bara vel með nýmöldum pipar og prófaði að salta það eftir grillun á meðan það jafnaði sig með reyktu maldon salti en það kom vel út.

 Fyrr um daginn höfðum við heimsótt garðyrkjustöðina Engi á Laugarási. Þar var býsna margt girnilegt og eftir að hafa prófað völundarhúsið og skoðað gróðurhúsin heldum við aftur í bústaðinn með tvo fulla poka af grænmeti og kryddjurtum. Við komum svo aftur við þar á leiðinni heim úr bústaðnum nokkrum dögum seinna og keyptum fleiri kryddjurtir!

 Í grænmetisgrindina þetta kvöldið lenti því margt gott grænmeti. Það var kúrbítur, sveppir, paprika, brokkolí og svo glænýtt chili frá Engi! Það þarf að fræhreinsa það vel og gæta þess að það sé vel grillað svo það verði ekki of sterkt. Grænmetisgrindin sem ég nota er frá Weber, frábær til að grilla grænmeti í og mikið notuð á heimilinu. Satt best að segja þá flytum við hálft eldhúsið með okkur þegar við förum í bústað! Það eru teknir með grillaukahlutir, espressovélin, blenderinn, soda stream til að búa til sódavatn og svo hálfur búrskápurinn svo hægt sé að elda og baka! 🙂

 Auk grillaðs grænmetis bjó ég til ferskt salat úr blönduðu salati, klettasalati og spínati ásamt kokteiltómötum, hunangsmelónu og fetaosti. Einnig gerði ég Hasselback kartöflur sem eru mjög vinsælar á heimilinu! Uppskrift af þeim er ég með hér.

Með kjötinu bjó ég til sveppasósu. Það er líka gott að nota heimatilbúna bearnaise sósu og uppskrift af henni er ég með hér.

Sveppasósa

  • 1/2 rauðlaukur
  • 2 hvítlauksrif
  • smjör
  • nokkrir sveppir
  • 2 tsk. nautakraftur
  • 1/2 piparostur
  • 3 msk. rjómaostur
  • 4 dl. rjómi (eða matreiðslurjómi)
  • 2 tsk. rifsberjahlaup
  • 2 tsk. soyjasósa
  • sósujafnari
  • salt og pipar

Laukur og hvítlaukur saxað smátt, sveppir sneiddir og allt steikt í potti upp úr smjöri. Nautakrafti bætt við. Hiti lækkaður aðeins og piparosti og rjómaosti bætt út og látið bráðna. Rjóma bætt út í ásamt rifsberjahlaupi og soyjasósu og suðan látin koma upp. Sósujafnara bætt út og sósan látin malla á vægum hita þar til að hún þykknar (sósulit bætt út í til að fá dekkri lit). Sósan smökkuð til með kryddi, rifsberjahlaupi, sojasósu og/eða nautakrafti.

Chilikartöflur með papriku


Þessar chili-papriku kartöflur passa ákaflega vel með grillmat. Ég vil oft festast í þeirri gildru að hafa alltaf sama meðlætið með grillmat og reyni því meðvitað að prufa reglulega eitthvað nýtt. Þetta er meðlæti sem ég mun örugglega gera aftur og reglulega, ofsalega gott!

Uppskrift:

  • 2 rauðar paprikur sneiddar gróft
  • 600 gr. kartöflur
  • 2 hvítlauksgeirar, hakkaðir fínt
  • 2-3 msk ólífuolía
  • 1 tsk. Sambal Oelek
  • 1 tsk. paprikuduft
  • maldon salt og nýmalaður pipar

Aðferð:

Bakarofn hitaður í 220 gráður. Kartöflur skrældar eða þvegnar og því næst skornar í helminga (eða báta ef þær eru mjög stórar) og lagðar í eldfast mót með paprikunni. Sambal oelek, ólífuolíu og hvítlauk hrært saman og dreift yfir. Kryddað með salti og pipar og smá skvettu af ólífuolíu helt helt yfir. Hitað í ofni í ca. 30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru tilbúnar.

Þessar kartöflur er svolítið sterkar en samt mátulegar finnst mér allavega! 🙂 Afar góðar með öllum grillmat, hvort sem um er að ræða dökkt eða ljóst kjöt.

Hasselback kartöflur


Hasselback kartöflur eru upprunnar frá Stokkhólmi þar sem þær voru fyrst bornar á borð á samnefndum veitingastað. Það eru til nokkrar uppskriftir af þessum kartöflum. Í viðbót við það sem ég geri hér að neðan bæta sumir við brauðmylsnu og parmesan osti eða bara hinu síðarnefnda. Mér finnst hins vegar einfalda uppskriftin langbest, með bara smjöri og salti. Hasselback kartöflur er einfalt að útbúa og þær eru afar gómsætar. Ég á sérstakt bretti til að skera þær á sem fæst meðal annars í Kokku en látið ekki stoppa ykkur þó þið eigið ekki slíkt bretti. Það er hægt að notast við sleif, stóra skeið eða til dæmis undirskál sem hjálpartæki svo ekki sé skorið of djúpt í kartöflurnar.

Uppskrift:

  • 8 stórar kartöflur
  • 50 gr. smjör + 25 gr. bætt við þegar kartöflurnar eru í ofninum
  • 2 msk. ólívuolía
  • Maldon salt.

Hitið bakarofn í 220 gráður. Kartöflur þvegnar eða skrældar (ég mæli með að hafa hýðið á, mikið betra!) Raufar skornar í kartöflurnar með nokkra millimetra millibili. Skera skal djúpt niður en þó ekki þannig að kartaflan detti í sundur. Smjör og olía brædd saman í potti. Kartöflum raðað í ofnskúffu og smjörinu og olíunni hellt yfir kartöflurnar. Snúið kartöflunum nokkrum sinnum og veltið þeim þannig vel upp úr smjörinu. Stráið Maldon salti yfir kartöflurnar. Setjið í ofn og bakið í ca. 50 – 60 mínútur, fer eftir stærð kartaflanna, eða þar til þær eru gullinbrúnar. Þegar bökunartímin er rúmlega hálfnaður hafa kartöflurnar opnað sig aðeins og þá er gott að bæta við smá smjörklípu ofan á hverja kartöflu.