Ofnbakað eggaldin með tómötum og osti


IMG_9744

Dásamlega löng og notaleg helgi er að lokum komin. Hápunktur helgarinnar var að sjálfsögðu Euorvision keppnin þar sem Eyþór og félagar voru okkur til mikils sóma! 🙂 Við fengum matargesti og hér var Eurovision veðmál tekið mjög alvarlega. Keppt var í yngri og eldri flokki þar sem yngri flokkurinn keppti um sælgætispott en sá eldri keppti um léttvínspott!

IMG_9747

Eftirsóttur pottur! 

IMG_9750

Hluti af hópnum, allir spenntir og tilbúnir með listann (börnin mín urðu auðvitað að gretta sig framan í myndavélina)!

IMG_9752

Smá vínsopi til að kynda undir keppnisskapið!

IMG_9787

Katla var alveg með’etta og vann nammipottinn! 

IMG_9795

Sigurjón var ekki bara með topplistann á hreinu heldur giskaði hann líka rétt á í hvaða sæti Ísland myndi lenda! Ég læt hann velja lottó-tölurnar mínar næst! 🙂

Hluti af gestunum er á LKL mataræði, eða lágkolvetnis lífsstíl. Mér fannst spennandi að finna matrétti sem pössuðu inn þetta mataræði. Í aðalrétt var ég með grillaða sirloin nautasteik, beint af býli, dásamlega gott og meyrt. Meðlætið var bearnaise sósa, sveppasósa, falskt kartöflusalat (með kúrbít), ferskt salat, ofnbakað eggaldin með tómötum og osti auk kartaflna fyrir ekki LKL-ista! Í eftirrétt var súkkulaðifrauð sem passar fyrir LKL. Snakkið var grænmeti og ídýfa, saltaðar Macadamia hnetur en þær hafa lágt kolvetnisinnihald (fást í Kosti), heimatilbúið snakk úr parmesan osti og fleira. Uppskriftirnar af öllum framantöldu munu koma inn á síðuna næstu daga. Ég ætla að byrja á ofnbökuðu eggaldin með tómötum og osti. Frábærlega einfalt og gott meðlæti sem hentar fyrir alla, hvort sem þeir eru á LKL eða ekki! 🙂 Minnir dálítið á þetta meðlæti sem er dásamlega gott líka.

Uppskrift:

  • 2 eggaldin, skorin langsum í skífur
  • 1 tsk salt
  • 2-3 msk olífuolía
  • 4 þroskaðir tómatar, saxaðir smátt
  • 1 knippi sléttblaða steinselja, söxuð smátt
  • 1-2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • rifinn mozzarellaostur, ca 60 g
  • salt og nýmalaður svartur pipar

IMG_9713

Ofn hitaður í 200 gráður, undir- og yfirhita. Eggaldinskífurnar eru lagðar á bretti og saltinu dreift yfir þær. Það er látið liggja á í ca. 10 mínútur til að draga úr beiskjunni í eggaldinu. Þá er vökvinn sem myndast hefur á yfirborðinu, ásamt saltinu, þerraður með eldhúsrúllublöðum. Eggaldin skífurnar eru því næst steiktar upp úr olíu á pönnu þar til þær eru mjúkar. Svo eru þær lagðar í eldfast mót, helst sem minnst ofan á hvor aðra.  Tómatarnir eru steiktir á pönnu í olífuolíu, steinselju og hvítlauk bætt við og leyft að malla um stund. Þá er rifna ostinum bætt út í tómatblönduna og blandað saman þar til osturinn er bráðnaður. Pannan er þá tekin af hellunni og kryddað með salti og pipar. Blöndunni er svo dreift yfir eggaldinið og bakað í miðjum ofni við 200 gráður í ca. 15 mínútur.

IMG_9728

Grillað lambafille með Hasselback kartöflum, grilluðu grænmeti og sveppasósu


Við erum nýkomin úr bústaðarferð og þar var ansi mikið gott sett á grillið eins og sést á uppskriftunum undanfarna daga! 🙂 Eitt kvöldið grilluðum við lambafille (úr versluninni Til sjávar og sveita). Ég kryddaði það bara vel með nýmöldum pipar og prófaði að salta það eftir grillun á meðan það jafnaði sig með reyktu maldon salti en það kom vel út.

 Fyrr um daginn höfðum við heimsótt garðyrkjustöðina Engi á Laugarási. Þar var býsna margt girnilegt og eftir að hafa prófað völundarhúsið og skoðað gróðurhúsin heldum við aftur í bústaðinn með tvo fulla poka af grænmeti og kryddjurtum. Við komum svo aftur við þar á leiðinni heim úr bústaðnum nokkrum dögum seinna og keyptum fleiri kryddjurtir!

 Í grænmetisgrindina þetta kvöldið lenti því margt gott grænmeti. Það var kúrbítur, sveppir, paprika, brokkolí og svo glænýtt chili frá Engi! Það þarf að fræhreinsa það vel og gæta þess að það sé vel grillað svo það verði ekki of sterkt. Grænmetisgrindin sem ég nota er frá Weber, frábær til að grilla grænmeti í og mikið notuð á heimilinu. Satt best að segja þá flytum við hálft eldhúsið með okkur þegar við förum í bústað! Það eru teknir með grillaukahlutir, espressovélin, blenderinn, soda stream til að búa til sódavatn og svo hálfur búrskápurinn svo hægt sé að elda og baka! 🙂

 Auk grillaðs grænmetis bjó ég til ferskt salat úr blönduðu salati, klettasalati og spínati ásamt kokteiltómötum, hunangsmelónu og fetaosti. Einnig gerði ég Hasselback kartöflur sem eru mjög vinsælar á heimilinu! Uppskrift af þeim er ég með hér.

Með kjötinu bjó ég til sveppasósu. Það er líka gott að nota heimatilbúna bearnaise sósu og uppskrift af henni er ég með hér.

Sveppasósa

  • 1/2 rauðlaukur
  • 2 hvítlauksrif
  • smjör
  • nokkrir sveppir
  • 2 tsk. nautakraftur
  • 1/2 piparostur
  • 3 msk. rjómaostur
  • 4 dl. rjómi (eða matreiðslurjómi)
  • 2 tsk. rifsberjahlaup
  • 2 tsk. soyjasósa
  • sósujafnari
  • salt og pipar

Laukur og hvítlaukur saxað smátt, sveppir sneiddir og allt steikt í potti upp úr smjöri. Nautakrafti bætt við. Hiti lækkaður aðeins og piparosti og rjómaosti bætt út og látið bráðna. Rjóma bætt út í ásamt rifsberjahlaupi og soyjasósu og suðan látin koma upp. Sósujafnara bætt út og sósan látin malla á vægum hita þar til að hún þykknar (sósulit bætt út í til að fá dekkri lit). Sósan smökkuð til með kryddi, rifsberjahlaupi, sojasósu og/eða nautakrafti.