Kartöflur á 10 vegu


Um daginn ákváðum við nokkrir matarbloggarar að hittast og fara út að borða saman. Auk mín var það Albert hjá Albert eldar, Berglind hjá Gulur, rauður, grænn og salt, Ragnar Freyr hjá Læknirinn í eldhúsinu, Svava hjá Ljúfmeti, Thelma hjá Freistingar Thelmu og Eva Laufey hjá EvaLaufeyKjaran. Þið getið rétt ímyndað ykkur valkvíðann þegar sjö matarbloggarar ætla að ákveða veitingastað, matur skiptir okkur nefnilega frekar miklu máli! 🙂 Fljótlega kom MAT BAR upp í umræðunni, nýr veitingastaður sem hefur bæst við nýkomnu veitingahúsaflóruna á Hverfisgötu. Albert hafði farið þangað áður, en hann er duglegur að taka út veitingahús bæjarins. Þegar hann sagði okkur að þessi veitingastaður hefði strax farið upp í topp þrjú sætin í hans bókum þá gátum við ekki beðið eftir að prófa! Það er skemmst frá því að segja að við áttum frábæra kvöldstund saman. Það er æðisleg stemmning á Matbar, staðurinn sérstaklega vel heppnaður í hönnun en það allra mikilvægasta, maturinn stórkostlegur! Hér er hægt að lesa nánari úttekt hjá Alberti um þennan frábæra stað. Það er svo skemmtilegt hvernig Hverfisgatan er að verða ein mest spennandi og besta veitingahúsagata borgarinnar, ekki hefði mann grunað það fyrir nokkrum árum! 🙂 Næst á dagskrá hjá hópnum er að hittast seinna í vor í eldhúsi læknisins, honum Ragnari Frey, og elda saman. Það verður eitthvað! 🙂

Desktop

Recently Updated

Frábær matur í yndislegum félagsskap!

Hér að neðan hef ég tekið saman 10 góðar kartöfluuppskriftir. Ég elska kartöflur og finnst alltaf gaman að breyta til í matreiðslunni á þeim. Manni hættir oft til að festast í sama meðlætinu og matreiða það á sama hátt. Hér eru tíu tillögur að gómsætum kartöflum sem gætu  sæmt sér vel með hátíðarmatnum um páskana sem færast óðfluga nær! 🙂

Krumpaðar kartöflur

krumpaðar 

 Uppskrift:

  • 60 gr. smjör
  • 1 kg kartöflur
  • maldon salt
  • nýmalaður svartur pipar.

Þvoið kartöflurnar vel með hýðinu á. Hitið smjörið í potti. Látið kartöflurnar út í og steikið í nokkrar mínútur, gætið þess að hafa hitann ekki of háan. Kryddið með salti og pipar. Lækkið hitann og látið steikjast áfram í um það bil 40 mín undir loki (fer eftir stærð og fjölda), hristið pottinn vel öðru hverju.

Kartöflur í kryddi

 kryddaðar

 Uppskrift:

  • 1 kg kartöflur
  • 40 g furuhnetur
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 búnt basilika
  • 1 búnt steinselja
  • 1 tsk. salt
  • 2 msk ólífuolía

Sjóðið kartöflurnar í saltvatni í 20 mín og sigtið síðan. Setjið hnetur, krydd og olíu í matvinnsluvél og maukið. Blandið svo saman heitar kartöflurnar. Einnig má blanda saman við brytjaðar kartöflur og baka í ofni í 45 mín.

  

Parmesanristaðar kartöflur

 parmesan

 Uppskrift:

  • 700 g kartöflur
  • 3 msk ólífuolía
  • 60 g ferskur parmesan, rifinn fínt
  • ca 1 1/2 tsk maldon salt
  • grófmalaður svartur pipar
  • 1 tsk paprikukrydd

Ofn hitaður í 220 gráður við undir- og yfirhita. Kartöflurnar þvegnar vel og skornar í bita á þennan hátt (mér finnst best að hafa hýðið með). Parmesan osti og kryddi blandað saman. Kartöflunum er velt upp úr olíunni og svo blandað vel saman við parmesanblönduna. Kartöflunum er síðan raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír, dreift vel úr þeim. Bakað í ofni í 30-40 mínútur, mikilvægt er að snúa við kartöflunum 2-3svar á meðan þær eru í ofninum. 

Hasselback kartöflur

hasselback

 Uppskrift:

  • 8 stórar kartöflur
  • 50 gr. smjör + 25 gr. bætt við þegar kartöflurnar eru í ofninum
  • 2 msk. ólífuolía
  • Maldon salt.

Hitið bakarofn í 220 gráður. Kartöflur þvegnar eða skrældar (ég mæli með að hafa hýðið á, mikið betra!) Raufar skornar í kartöflurnar með nokkra millimetra millibili. Skera skal djúpt niður en þó ekki þannig að kartaflan detti í sundur. Smjör og olía brædd saman í potti. Kartöflum raðað í ofnskúffu og smjörinu og olíunni hellt yfir kartöflurnar. Snúið kartöflunum nokkrum sinnum og veltið þeim þannig vel upp úr smjörinu. Stráið Maldon salti yfir kartöflurnar. Setjið í ofn og bakið í ca. 50 – 60 mínútur, fer eftir stærð kartaflanna, eða þar til þær eru gullinbrúnar. Þegar bökunartímin er rúmlega hálfnaður hafa kartöflurnar opnað sig aðeins og þá er gott að bæta við smá smjörklípu ofan á hverja kartöflu.

Chili kartöflur með papriku

 papriku

 Uppskrift:

  • 2 rauðar paprikur sneiddar gróft
  • 600 gr. kartöflur
  • 2 hvítlauksgeirar, hakkaðir fínt
  • 2-3 msk ólífuolía
  • 1 tsk. Sambal Oelek (chilimauk)
  • 1 tsk. paprikuduft
  • maldon salt og nýmalaður pipar

Bakarofn hitaður í 220 gráður. Kartöflur skrældar eða þvegnar og því næst skornar í helminga (eða báta ef þær eru mjög stórar) og lagðar í eldfast mót með paprikunni. Sambal oelek, ólífuolíu og hvítlauk hrært saman og dreift yfir. Kryddað með salti og pipar og smá skvettu af ólífuolíu helt helt yfir. Hitað í ofni í ca. 30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru tilbúnar.

 

Brúnaðar kartöflur

 brúnaðar

Uppskrift:

  • 35 gr smjör
  • 100 gr sykur
  • 0,25 dl rjómi
  • 1 kíló kartöflur

Kartöflur soðnar og afhýddar. Smjör og sykur hitað á pönnu þar til blandan hefur bráðnað og dökknað þá er kartöflunum bætt út í. Rjómanum bætt við og kartöflunum vellt upp úr bráðinni á fremur háum hita þar til þær eru allar sykurhúðaðar jafnt. 

 

Kartöflugratín f. 8-10

gratíngratíngratín1

 Uppskrift:

  • ca 1,5 kíló kartöflur
  • 4 dl rjómi
  • 4 dl mjólk
  • hálfur rauðlaukur, skorin í strimla
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1 grænmetisteningur
  • Töfrakrydd, salt og pipar
  • rifinn ostur

Kartöflurnar skolaðar vel (gott að hafa hýðið á) og svo skornar í skífur, sumir vilja hafa þær næfurþunnar, mér finnst best að hafa þær ca 1 cm á þykkt. Hvítlaukur og laukur skorinn niður. Mjólk og rjómi settur í stóran pott ásamt hvítlauk, lauk, grænmetisteningi og kryddi. Ég nota Töfrakrydd frá pottagöldrum, það er góð kryddjurtablanda með cheddar osti sem hentar vel en það er hægt að nota hvaða krydd sem hugurinn girnist. Sjóðið við vægan hita í 15-20 mínútur (fer svolítið eftir þykkt kartaflanna), eða þar til þær eru orðnar vel mjúkar. Hellið kartöflublöndunni í eldfast mót, dreifið rifnum osti yfir og hitið í ofni við 200 gráður í 20-25 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og orðin gullinbrúnn.

 

Kartöflustappa með beikoni

stappa

Uppskrift:

  • 1 kg kartöflur
  • 200 g beikon
  • 3 dl matreiðslurjómi eða nýmjólk
  • 50 g smjör
  • salt og pipar

Kartöflurnar eru soðnar, flysjaðar, settar í pott og stappaðar vel. Beikonið er skorið í litla bita og steikt þar til það er stökkt.  Við vægan hita er smjöri, rjóma (eða mjólk) hrært saman við stöppuna ásamt 200 g af steiktum beikonbitum. Kryddað með salti og pipar.

 

Ofnbakaðar kryddjurtakartöflur

ofnbakaðarofnbakaðar1 

Uppskrift:

  • 1 kíló meðalstórar kartöflur (af svipaðri stærð)
  • 1 msk ólífuolía
  • 1 msk smjör
  • 15 g fersk basilika
  • 15 g fersk flatblaða steinselja
  • maldon salt og nýmalaður pipar

Ofn hitaður í 220 gráður við undir- og yfirhita. Kartöflurnar eru þvegnar, þerraðar og skornar í tvennt. Þá er þeim velt upp úr ólífuolíu, salti og pipar. Ofnplata smurð með smjöri og kartöflunum raðað á plötuna með skornu hliðina niður. Því næst eru þær hitaðar í ofni í 25-30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar í gegn og hafa tekið góðan lit. Á meðan er basilika og steinselja söxuð smátt og sett í skál ásamt 1 matskeið af smjöri. Þegar kartöflurnar koma úr ofninum eru þær strax settar í skálina og blandað vel saman við smjörið og kryddjurtirnar. Kryddað með salti og pipar eftir smekk.

  

Steiktar kartöfluskífur:

skífur 

Uppskrift:

  • kartöflur
  • smjör og ólífuolía
  • salt & pipar
  • annað krydd (t.d. rósmarín, timjan)

Kartöflurnar þvegnar vel (ekki afhýddar) og skornar í fremur þykkar skífur. Skífurnar eru forsoðnar í nokkrar mínútur og vatnið látið renna vel af skífunum. Smjörið og ólífuolían hituð á pönnu og kartöflurnar steiktar upp úr kryddinu og olíunni við meðalhita og þeim snúið oft þar til allar skífurnar eru steiktar í gegn.

Parmesanristaðar kartöflur


Parmesanristaðar kartöflur

Þetta er svo spennandi tími árs því nú er gósentíð í bókaútgáfu, þegar allar bækurnar koma út fyrir jólin. Þar sem ég starfa á skólabókasafni þá eiga barna- og unglingabækurnar hug minn allan. Ég nota hvert tækifæri til þess að koma við í bókabúð og skoða nýútkomnar bækur. Fyrir utan innihaldið þá skoða ég bækurnar kannski svolítið á annan hátt en aðrir. Til dæmis spái ég í leturgerðina sem er ákaflega mikilvæg í barnabókum. Ég skoða líka myndirnar, til dæmis eru forsíðumyndirnar á barnabókum ótrúlega mikilvægar. Krakkarnir „mínir“ sneiða til að mynda ítrekað framhjá ákveðnum bókaflokki sem er mjög skemmtilegur en með afar óspennandi myndum á forsíðunum. Að auki skoða ég uppsetningu, hvernig bækurnar eru innbundnar og margt annað. Ég horfi líka alltaf á höfundanafnið og út frá því raða ég í huganum viðkomandi bók í rétta hillu á bókasafninu mínu, svona til að átta mig á hvar hún muni eiga heima – pínu nördalegt, ég veit! 🙂 Þó svo að barnabækurnar eigi hug minn allan þá fylgja uppskriftabækurnar þar fast á eftir. Í ár virðist vera ár matarbloggara þegar kemur að útgáfu matreiðslubóka. Um daginn minntist ég einmitt á bókina hans Steingríms sem rekur matarvefinn Vínótek, vissulega ekki beint matreiðslubók en afar fróðleg og falleg bók um vín. Nanna Rögnvaldsdóttir, matarbloggari með meiru, var að gefa út matreiðslubók með kjúklingauppskriftum og von er á matreiðslubók eftir Evu Laufeyju Kjaran.

Í dag var svo útgáfufagnaður fyrir matreiðslubók Ragnars Freys, læknisins í eldhúsinu. Ég held að það sé hægt að fullyrða að hann sé einn af fyrstu íslensku matarbloggurunum (ásamt Nönnu Rögnvalds) en hann byrjaði að blogga fyrir sjö árum. Mér áskotnaðist nýútkomna bókin hans, Læknirinn í eldhúsinu – tími til að njóta.

IMG_1023

Hún er tæplega 500 síður og ákaflega fallega innbundin, augnayndi fyrir uppskriftabókahilluna og happdrættisvinningur fyrir bragðlaukana! 😉 Þetta er svo mikill doðrantur að ég hef ekki enn lesið í gegnum hana alla en vá hvað mér líst vel á þessa bók! Ótrúlega girnilegar og spennandi uppskriftir. Ragnar segir sjálfur í formálanum að honum hafi verið legið á hálsi að vera stundum með of flóknar uppskriftir á blogginu. Matreiðslubókin hins vegar er með afar aðgengilegum og einföldum uppskriftum. Að hverri uppskrift er stuttur inngangur, líkt og á blogginu, sem er gaman að lesa. Oft og tíðum finnst mér galli á uppskriftabókum að í þeim eru bara örfáar uppskriftir sem mann langar til að prófa. Eftir að hafa flett í gegnum lungann af bókinni hans Ragnars þá verð ég að segja að þetta vandamál á ekki við um hans bók, mig langar að prófa hverju einustu uppskrift! 🙂 Ég get sannarlega mælt með þessari bók í jólapakkann og óskar Ragnari Frey innilega til hamingju með þetta stórvirki!

IMG_1030

Uppskriftin sem ég skrái hins vegar hérna á bloggið mitt í dag er að dásamlega góðum parmesan kartöflum sem passa sem meðlæti með flestu. Ég var búin að sjá þessa uppskrift í nokkrum útgáfum á mörgum erlendum bloggum og varð að prófa. Við urðum ekki fyrir vonbrigðum, þetta er frábær uppskrift.

Uppskrift:

  • 700 g kartöflur
  • 3 msk ólífuolía
  • 60 g ferskur parmesan, rifinn fínt (eða keyptur rifinn í pokum)
  • ca 1 1/2 tsk maldon salt
  • grófmalaður svartur pipar
  • 1 tsk paprikukrydd

Ofn hitaður í 220 gráður við undir- og yfirhita. Kartöflurnar þvegnar vel og skornar í bita á þennan hátt (mér finnst best að hafa hýðið með).

IMG_0597

Parmesan osti og kryddi blandað saman. Kartöflunum er velt upp úr olíunni og svo blandað vel saman við parmesanblönduna. Kartöflunum er síðan raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír, dreift vel úr þeim. Bakað í ofni í 30-40 mínútur, mikilvægt er að snúa við kartöflunum 2-3svar á meðan þær eru í ofninum.

IMG_0650

Grillað lambafille með sveppasósu og kryddkartöflum með sesamfræjum


Helgin leið hratt eins og reyndar allir dagar um þessar mundir. Ég hlakka ekkert lítið til þegar ég verð búin með meistararitgerðina mína! Hún hangir yfir mér eins og mara alla daga. Það verður lítill munur á virkum dögum og helgum þegar svona verkefni bíður stöðugt eftir manni í tölvunni og mér finnst ég alltaf vera að svíkjast um ef ég geri eitthvað annað en að skrifa. Fyrir utan það að hafa skrifað meira og minna alla helgina þá voru hápunktar helgarinnar þrír, þegar ég bakaði þessa dásamlegu banana-súkkulaðiköku. Namm, ég þarf að halda aftur að mér að baka hana ekki alveg strax aftur! Á laugardagskvöldinu gisti Jóhanna Inga hjá vinkonu sinni og við hjónin skruppum í bíó á James Bond og tókum Vilhjálm með okkur. Ég hefði aldrei nennt að fara á frumsýningarhelgi ef ekki væri fyrir Kringlubíó þar sem hægt er að kaupa miða í númeruð sæti. Ég skil ekki af hverju það eru ekki númeruð sæti í öllum bíóhúsum þannig að maður þurfi ekki að lenda í troðning og látum eins og oft vill verða. Mér finnst vera til lítils að kaupa bíómiða fyrirfram á netinu ef maður þarf svo hvort sem er að mæta snemma og troðast áfram til að ná sæmilegum sætum. Ok, Svíinn í mér hefur lokið máli sínu um þetta málefni! 🙂 Jú annars, eitt enn, myndin var mjög góð! Þriðji hápunkturinn var svo heimsókn til ömmu og afa sem var orðið alltof langt síðan að við höfðum hitt. Reyndar má nú kalla sunnudagsmatinn fjórða hápunktinn! Grillað lamabafille með góðu meðlæti. En gott grillað lamba- eða nautakjöt er í algjöru uppáhaldi hjá mér.

Uppskrift:

  • Lambafille
  • olía
  • rósmarín
  • timjan
  • salt
  • pipar
  • hvítlauksrif, pressuð

Kryddi, hvítlauk og olíunni blandað saman, lambafille velt upp blöndunni, pakkað þétt í plastfilmu og látið bíða í nokkrar klukkustundir í ísskáp. Kjötið svo tekið út og látið ná stofuhita áður en það er grillað. Yfirgrillarinn sá um að grilla kjötið en mér skilst að hann grilli það við fremur háan hita í ca. 6-7 mínútur með fituhliðina niður, 3-4 mínútur á hinni hliðinni. Þetta fer þó auðvitað eftir þykkt bitanna. Það er þykk fiturönd á kjötinu, það þarf því að fylgjast vel með kjötinu og færa það til við þörfum svo það brenni ekki.

Sveppasósa

  • smjör
  • 200 gr sveppir
  • 2-3 tsk nautakraftur
  • 1 piparostur
  • 4 dl matreiðslurjómi
  • 2 dl mjólk
  • 2 tsk rifsberjahlaup
  • 1 msk soyjasósa
  • sósujafnari
  • salt og pipar

Sveppir sneiddir og þeir steiktir í potti upp úr smjöri. Nautakrafti bætt við. Hiti lækkaður aðeins og piparosti bætt út og hann látin bráðna. Rjóma og mjólk bætt út í ásamt rifsberjahlaupi og soyjasósu og suðan látin koma upp. Sósujafnara bætt út og sósan látin malla á vægum hita þar til að hún þykknar (sósulit bætt út í ef maður vill fá dekkri lit). Sósan smökkuð til með kryddi, rifsberjahlaupi, sojasósu og/eða nautakrafti.

Kryddkartöflur með sesamfræjum

  • 1 kíló kartöflur
  • 1 1/2 msk sesamfræ
  • 2 hvítlauksrif
  • 2 msk olía
  • 1 tsk cumin
  • 2 tsk kóríander krydd (ég notaði líka ferskt)
  • 1 tsk grófmalaður svartur pipar
  • 1/4-1/2 tsk cayenne pipar
  • 1 tsk salt
  • 1 msk sítrónusafi

Kartöflurnar soðnar og afhýddar. Sesamfræin þurrristuð á pönnu þar til þau fá lit, þá eru þau lögð til hliðar. Hvítlaukurinn saxaður smátt. Olía hituð á pönnu og cumin ásamt hvítlauk bætt út á pönnuna þar til það hefur fengið lit en má ekki brenna. Kartöflunum bætt út á pönnuna og steikt, hrært í varlega öðru hvoru. Kryddað með kóríander, pipar, cayenne pipar, salti og sítrónusafa. Sesamfræunum bætt við og allt steikt nokkrar mínútur í viðbót, hrært í varlega öðru hvoru.

Grillað lambafille með Hasselback kartöflum, grilluðu grænmeti og sveppasósu


Við erum nýkomin úr bústaðarferð og þar var ansi mikið gott sett á grillið eins og sést á uppskriftunum undanfarna daga! 🙂 Eitt kvöldið grilluðum við lambafille (úr versluninni Til sjávar og sveita). Ég kryddaði það bara vel með nýmöldum pipar og prófaði að salta það eftir grillun á meðan það jafnaði sig með reyktu maldon salti en það kom vel út.

 Fyrr um daginn höfðum við heimsótt garðyrkjustöðina Engi á Laugarási. Þar var býsna margt girnilegt og eftir að hafa prófað völundarhúsið og skoðað gróðurhúsin heldum við aftur í bústaðinn með tvo fulla poka af grænmeti og kryddjurtum. Við komum svo aftur við þar á leiðinni heim úr bústaðnum nokkrum dögum seinna og keyptum fleiri kryddjurtir!

 Í grænmetisgrindina þetta kvöldið lenti því margt gott grænmeti. Það var kúrbítur, sveppir, paprika, brokkolí og svo glænýtt chili frá Engi! Það þarf að fræhreinsa það vel og gæta þess að það sé vel grillað svo það verði ekki of sterkt. Grænmetisgrindin sem ég nota er frá Weber, frábær til að grilla grænmeti í og mikið notuð á heimilinu. Satt best að segja þá flytum við hálft eldhúsið með okkur þegar við förum í bústað! Það eru teknir með grillaukahlutir, espressovélin, blenderinn, soda stream til að búa til sódavatn og svo hálfur búrskápurinn svo hægt sé að elda og baka! 🙂

 Auk grillaðs grænmetis bjó ég til ferskt salat úr blönduðu salati, klettasalati og spínati ásamt kokteiltómötum, hunangsmelónu og fetaosti. Einnig gerði ég Hasselback kartöflur sem eru mjög vinsælar á heimilinu! Uppskrift af þeim er ég með hér.

Með kjötinu bjó ég til sveppasósu. Það er líka gott að nota heimatilbúna bearnaise sósu og uppskrift af henni er ég með hér.

Sveppasósa

  • 1/2 rauðlaukur
  • 2 hvítlauksrif
  • smjör
  • nokkrir sveppir
  • 2 tsk. nautakraftur
  • 1/2 piparostur
  • 3 msk. rjómaostur
  • 4 dl. rjómi (eða matreiðslurjómi)
  • 2 tsk. rifsberjahlaup
  • 2 tsk. soyjasósa
  • sósujafnari
  • salt og pipar

Laukur og hvítlaukur saxað smátt, sveppir sneiddir og allt steikt í potti upp úr smjöri. Nautakrafti bætt við. Hiti lækkaður aðeins og piparosti og rjómaosti bætt út og látið bráðna. Rjóma bætt út í ásamt rifsberjahlaupi og soyjasósu og suðan látin koma upp. Sósujafnara bætt út og sósan látin malla á vægum hita þar til að hún þykknar (sósulit bætt út í til að fá dekkri lit). Sósan smökkuð til með kryddi, rifsberjahlaupi, sojasósu og/eða nautakrafti.