Salat með lambafille og piparrótarsósu


Nú eru loksins allir í fjölskyldunni komnir heim eftir ævintýri sumarsins. Alexander var í löngu og skemmtilegu ferðalagi um Japan en Ósk var á Krít og í Stokkhólmi. Báðum systkinunum langaði í eitthvað sérstaklega gott í kvöldmatinn eftir langa fjarveru. Mest langaði Alexander í gott kjöt enda búinn að lifa á hrísgrjónum, sushi og innmat (Japanir eru víst voða hrifnir af lifrum, hjörtum, görnum, nýrum og öðru slíku góðgæti!) síðastliðinn mánuð. Ég er búin að hugsa lengi um að gera einhvern góðan rétt úr lambalundum eða lambafille og nú var komið gott tækifæri til að láta verða úr því. Ég dró fram nokkur ,,Bestu uppskriftir Gestgjafans“ blöð en þau eru í uppáhaldi hjá mér! Til dæmis nota ég blaðið frá 2003 afar mikið, þar eru margar mjög góðar uppskriftir. Þessa uppskrift fann ég hins vegar í blaðinu frá 2009.

Að vanda fylgdi ég nú ekki uppskriftinni út í ystu æsar. Ég notaði minna af balsamik edik og olíu en uppgefið var og útbjó í staðinn piparrótarsósu til að bera fram með réttinum. Hér í fjölskyldunni eru sósur flokkaðar með drykkjarföngum og því ekkert sérstaklega vinsælt að bera fram kjöt án vænnar sósuslettu! Ég notaði líka ristaðar kasjúhnetur í stað furuhneta en ég er eiginlega alveg hætt að nota furuhnetur. Ég hef nefnilega tvisvar lent í ,,pine mouth syndrome“ sem er afar hvimleitt að lenda í. Það lýsir sér þannig að einum degi eftir að hafa borðað furuhnetur finnur maður málkennt, vont bragð í munni af öllum mat, drykk og meira að segja tannkreminu! Þetta getur varað í allt að fjórar vikur. Ég lagðist í rannsóknarvinnu um þetta vandamál og komst að því að það er algengt. Það er ekki enn búið að finna ástæðuna en samkvæmt rannsóknum matvælastofnun Svíþjóðar virðist þetta tengjast uppskerubresti á furuhnetum í Asíu. Þá fóru ræktendur að notast við aðra tegund af furuhnetum sem geta haft þessi áhrif. Ég vil ekki taka áhættuna að lenda í þessu aftur og nota því varla furuhnetur lengur! Ég breytti tvennu til viðbótar í uppskriftinni, ég notaði klettasalat til viðbótar við spínatið og lambasalatið. Að auki notaði ég grillaðar paprikur frá Sacla í stað bakaðra tómata. Þetta heppnaðist býsna vel og öllum fannst rétturinn ljúffengur!

Uppskrift f. 3-4

  • 2 lambafille eða lambaprime
  • 2 msk olía
  • salt og pipar

Penslið lambið með olíunni. Grillið á útigrilli ca. 5-7 mínútur á hvorri hlið. Mikilvægt er að fylgjast vel með kjötinu þannig að það verði ekki ofgrillað. Það þarf einnig að hafa í huga að kjötið heldur áfram að steikjast í eigin hita eftir að það er tekið af grillinu. Þegar kjötið er tekið af grillinu er það saltað og piprað og leyft að jafna sig áður en það er skorið. Eldun í ofni: Hitið ofninn í 175 gráður. Penslið lambið með olíunni og steikið á pönnu þar til það er brúnað á öllum hliðum. Setjið í ofninn í 10 mínútur. Saltið og piprið.

  • 2 eggaldin
  • 2-3 msk olía
  • 1 tsk salt
  • 200 gr lambasalat
  • 150 gr ferskt spínat
  • 1 krukka bakaðir tómatar frá Sacla (Oven Rosted Tomatoes) eða grilluð paprika (Char-Grilled Capsicum)
  • 2-3 msk furuhnetur, ristaðar (eða kasjúhnetur)
  • 2-3 msk basilika, smátt söxuð
  • 6 msk góð ólifuolía
  • 2 msk hindberja- eða balsamedik

Skerið eggaldin í ca 2 cm þykkar sneiðar og steikið í olíunni eða grillið þar til þær eru vel brúnaðar, saltið. Leggið lambasalat og spínat á fat. Skerið eggaldin í minni bita og raðið ofan á. Skerið lambafille í sneiðar og raðið þar ofan á. Dreifið tómötum (eða papriku), furuhnetum og basiliku yfir. Blandið saman olíu og hindberjaediki og dreifið yfir salatið. Saltið og piprið með nýmöldum pipar.

Í piparrótarsósuna er notað piparrótarmauk. Það er yfirleitt að finna hjá kryddunum í verslunum og lítur svona út:

Piparrótarsósa: 

  • 1 dós sýrður rjómi
  • 3 msk majónes
  • 1 pakki piparrótarmauk
  • 1 msk sítrónusafi
  • 1 msk hunang
  • 1 tsk salt