Grillaður lax með sætum kartöflum og tzatziki-engifer sósu


Lax er vinsæll hjá næstum því öllum í fjölskyldunni. Yngsti fjölskyldumeðlimurinn er þó ekki hrifin! Henni finnst almennt fiskur ekki góður og hefur meira að segja reynt að fá móður sína til að boða til fundar með kennurum sínum til þess að segja þeim að hún eigi barasta alls ekki borða fisk í skólanum! 🙂 En varðandi laxinn, oftast ofnbaka ég laxinn eða grilla á útigrili á álbakka. Það eru til allskonar góðar mareneringar og sósur til að elda laxinn í en mér finnst hann eiginlega bestur ,,hreinn”, það er bara með kryddi.

Grillaður lax

Laxaflak lagt á álbakka, kryddað með sítrónupipar, nýmöluðum pipar og maldon salti ásamt steinselju og grillaður á útigrilli.

Sætar kartöflur með tómötum og klettasalati

Bakarofn hitaður í 210 gráður. Sætar kartöflur skornar í teninga og lagðar í ofnskúffu. Dálítið af ólívuolíu skvett yfir ásamt salti, pipar, rósmarin, basiliku og oregano. Sett inn í ofn í 20 mínútur. Þá eru kokteiltómatar skornir í helminga og þeim bætt við sætu kartöflurnar, blandað saman við og hitað í 10 mínútur í viðbót eða þar til sætu kartöflurnar eru tilbúnar. Sett í skál og klettasalati bætt við.

Ég er engin sérfræðingur þegar kemur að ólífuolíum. En um daginn áskotnaðist eignmanninum gjafakarfa með ýmisskonar matvælum. Í henni leyndist meðal annars  Tenuta A Deo ólífuolía. Hún er framleidd á ólífubúgarði í Lucca hæðum Tuscana héraðs á Ítaliu. Þangað flutti íslensk fjölskylda árið 2008, keypti þennan búgarð og framleiðir nú áðurnefnda A Deo ólífuolíu. Á pakkningunni stendur:  ,,Margir telja Lucca hérað besta ólífuhérað heims. Olían er bragðmikil en þó létt, auðþekkjanleg af blómaangan og ávaxtakeim með örlítili beiskju í undirtón.“ Ég bragðaði á þessari ólífuolíu eintómri (sem maður gerir kannski ekki mikið af svona almennt! ) og vá hvað hún er ljúffeng! Mig dreymir um að fara í matar- vín og menningarferð til Tuscana! Þessi íslensku ólífubændur leigja út þetta hús, það væri nú ekki slæmt að dvelja þar! 🙂 A Deo ólífuolían fæst í Hagkaup, Fjarðarkaup, mörgum sérvöruverslunum og kjötbúðum.

Ferskt salat

Blandað salat, hunangsmelóna, tómatar, rauð paprika og fetaostur.

Tzatziki-engifersósa

Uppskriftina er að finna hér.