Grænmetisræktun og nýr pallur


Grænmetisræktunin er komin ágætlega af stað hjá mér. Reyndar setti ég niður grænmetið aðeins seinna en venjulega vegna framkvæmda en við fengum nýjan og stærri pall. Pallurinn sem var fyrir var orðin lúin og svo var hann ansi lítill. Nýji pallurinn er stærri og rúmbetri en það besta er að hann er úr viðhaldsfríu plastefni. Það þarf því ekkert að bera á hann, pússa né annað slíkt, bara spúla hann við þörfum! 🙂

Fyrir:

Eftir:

Í ár setti ég niður allskonar forræktað salat og svo sáði ég fyrir fullt af spínati og klettasalati. Síðastliðin ár hef ég prófað mig áfram með allskonar grænmetisræktun. Ég sáði fyrir gulrótum nokkrum sinnum en er hætt því. Sama hvaða tegund ég notaði þá urðu þær svo litlar. Svo hef ég reyndar ekki mikla þolinmæði í  ræktun sem þarf að bíða fram á haust eftir uppskeru! 🙂 Mér hefur reynst langbest að kaupa forræktað salat, það kemur fljótt til og hægt að byrja nota það strax í júní. Ég nota spínat og klettasalat mikið í matargerð en það sprettur eins og arfi! Þess vegna sái ég miklu af því og bæti svo við sáninguna þegar líður á sumarið og elsta uppskeran fer að vaxa úr sér og blómstra.

Ég hef alltaf notað dúk yfir grænmetisbeðið fyrsta mánuðinn en í ár ákvað ég að prófa að sleppa því, mig langar að athuga hvort það muni einhverju.

Klettasalatið og spínatið er komið stutt á veg en það vex samt afar hratt, það eru bara tæpar tvær vikur síðan ég sáði fyrir því.

Á hverju sumri hefst bjórveisla í grænmetisbeðinu í byrjun júlí! Þá koma nefnilega oft sniglar í beðið. Þeir sækja mikið í salatið en fara hvorki í spínatið né klettasalatið. Það er hægt að útbúa bjórgildrur til að veiða þá. En mér finnst hreinlega best að fara út á kvöldin og tína þá! Mér hefur tekist að hafa stjórn á þessum óboðnu gestum hingað til, þeir hafa ekki náð að skemma salatið fyrir mér!

Varðandi kryddjurtir þá hef ég eins og áður sagði litla þolinmæði! Ég er löngu hætt að sá fyrir kryddjurtum (nema fyrir myntu, steinselju og graslauk sem spretta afar vel útivið). Langbest reynist mér að kaupa tilbúnar kryddjurtir og umpotta þeim. Þá spretta þær vel og duga lengi. Fljótlega á ég leið um Biskupstungur og ætla þá að koma við í Laugarási á garðyrkjustöðinni Engi. En þeir eru með lífrænan markað og selja þar meðal annars ótal tegundir kryddjurta. Markmiðið er að koma heim með ýmiskonar ilmandi kryddjurtir, umpotta þeim og halda þeim á lífi í sumar! 🙂