Grænmetisræktun og nýr pallur


Grænmetisræktunin er komin ágætlega af stað hjá mér. Reyndar setti ég niður grænmetið aðeins seinna en venjulega vegna framkvæmda en við fengum nýjan og stærri pall. Pallurinn sem var fyrir var orðin lúin og svo var hann ansi lítill. Nýji pallurinn er stærri og rúmbetri en það besta er að hann er úr viðhaldsfríu plastefni. Það þarf því ekkert að bera á hann, pússa né annað slíkt, bara spúla hann við þörfum! 🙂

Fyrir:

Eftir:

Í ár setti ég niður allskonar forræktað salat og svo sáði ég fyrir fullt af spínati og klettasalati. Síðastliðin ár hef ég prófað mig áfram með allskonar grænmetisræktun. Ég sáði fyrir gulrótum nokkrum sinnum en er hætt því. Sama hvaða tegund ég notaði þá urðu þær svo litlar. Svo hef ég reyndar ekki mikla þolinmæði í  ræktun sem þarf að bíða fram á haust eftir uppskeru! 🙂 Mér hefur reynst langbest að kaupa forræktað salat, það kemur fljótt til og hægt að byrja nota það strax í júní. Ég nota spínat og klettasalat mikið í matargerð en það sprettur eins og arfi! Þess vegna sái ég miklu af því og bæti svo við sáninguna þegar líður á sumarið og elsta uppskeran fer að vaxa úr sér og blómstra.

Ég hef alltaf notað dúk yfir grænmetisbeðið fyrsta mánuðinn en í ár ákvað ég að prófa að sleppa því, mig langar að athuga hvort það muni einhverju.

Klettasalatið og spínatið er komið stutt á veg en það vex samt afar hratt, það eru bara tæpar tvær vikur síðan ég sáði fyrir því.

Á hverju sumri hefst bjórveisla í grænmetisbeðinu í byrjun júlí! Þá koma nefnilega oft sniglar í beðið. Þeir sækja mikið í salatið en fara hvorki í spínatið né klettasalatið. Það er hægt að útbúa bjórgildrur til að veiða þá. En mér finnst hreinlega best að fara út á kvöldin og tína þá! Mér hefur tekist að hafa stjórn á þessum óboðnu gestum hingað til, þeir hafa ekki náð að skemma salatið fyrir mér!

Varðandi kryddjurtir þá hef ég eins og áður sagði litla þolinmæði! Ég er löngu hætt að sá fyrir kryddjurtum (nema fyrir myntu, steinselju og graslauk sem spretta afar vel útivið). Langbest reynist mér að kaupa tilbúnar kryddjurtir og umpotta þeim. Þá spretta þær vel og duga lengi. Fljótlega á ég leið um Biskupstungur og ætla þá að koma við í Laugarási á garðyrkjustöðinni Engi. En þeir eru með lífrænan markað og selja þar meðal annars ótal tegundir kryddjurta. Markmiðið er að koma heim með ýmiskonar ilmandi kryddjurtir, umpotta þeim og halda þeim á lífi í sumar! 🙂

Kjúklingur með heimagerðu pestói í pönnukökum


Þetta er einn af fáum réttum sem er í uppáhaldi hjá öllum fjölskyldumeðlimum, þar með talin afkvæmin fjögur frá 7-24 ára en það er býsna óvenjulegt að þeim öllum líki sami rétturinn!

Hugmyndina fékk ég frá uppskrift í Gestgjafanum en hef breytt henni töluvert.

Hráefni:

  • Kjúklingabringur (kryddaðar með „Best á allt“ frá Pottagöldrum).
  • Tortillur
  • Ferskur Mozzarella ostur
  • Sveppir
  • Rauðlaukur
  • Rauð paprika
  • Spínat
  • Klettasalat (Ruccola)
  • Basilika
  • Steinselja
  • Hvítlaukur
  • Ólivuolía
  • Furhnetur (eða kasjúhnetur)
  • Salt og Pipar

Aðferð:

Rauðlaukur, sveppir og paprika skorin niður, krydduð með pipar og salti og steikt á pönnu eða grilluð. Ég er með sérstaka grillgrind fyrir grænmeti sem ég nota mikið í stað þess að steikja grænmeti á pönnu.

Kjúklingabringur kryddaðar með „Best á allt“ frá Pottagöldrum, uppáhalds kjúklingakryddinu mínu! En þetta er blanda af meðal annars salti, pipar, kryddjurtum og smá púðursykri sem ég held að geri gæfumuninn! Kjúklingurinn er grillaður en það má líka hita bringurnar í ofni. Ég grilla bringurnar á háum hita, í nokkrar mínútur á hvorri hlið. Tek þær svo af grillinu rétt áður en þær eru tilbúnar, vef inn í álpappír og leyfi þeim að klára að eldast í eigin hita, þannig verða þær lungnamjúkar

Pestó útbúið, hráefni sett í matvinnsluvél. Ég nota oftast nær blöndu af ferskri basiliku, steinselju, spínati og klettasalati og prófa mig bara áfram hvaða magn ég nota af hverju. En fyrir 8 tortillur nota ég oftast 2/3 af spínatpoka, hálfan klettasalatpoka, nokkra steinseljukvisti og 2/3 af basiliku í boxi, 3-4 hvítlauksrif, 1 til 1 ½ dl. ólivuolíu, 4 msk. furuhnetur eða kasjúhnetur ásamt salti og pipar. Strangt til tekið á að vera ferskur Parmesan ostur í heimatilbúnu Pestói (ca. 4 msk fyrir þessa uppskrift) en ég sleppi honum oft fyrir þennan rétt og finnst það eiginlega bara betra.

Mozzarellaostur er skorinn niður í sneiðar auk þess sem kjúklingurinn er skorinn niður í sneiðar þegar hann hefur fengið að jafna sig í nokkrar mínútur eftir eldun. Það er líka hægt að nota venjulegan rifinn ost í stað Mozzarella, eitt barnanna minna til dæmis kann ekki gott að meta og vill ekki Mozzarella! 🙂

Þá er komið að því að útbúa pönnukökurnar. Pestói er smurt á hálfa Tortilla köku, kjúklingi raðað á pönnukökuna, því næst er Mozzarella osti raðað á kjúklinginn og að lokum sett grillað grænmeti yfir og pönnukökunni lokað.

Pönnukökurnar settar á ofnplötu og hitaðar í ofni við 180 gráður í ca. 7-8 mínútur eða þar til að osturinn er farin að bráðna og Tortilla kakan farin að taka smá lit. Það er líka hægt að grilla pönnukökuna á útigrilli, nokkrar mínútur á hvorri hlið en ég er farin að nota auðveldu leiðina og skelli þeim bara öllum í ofninn!

Borið fram strax með fersku salati.