Mér finnst eplabökur vandræðalega góðar. Svíar eru mikið bökufólk og á kaffihúsum þar í landi eru alltaf allskonar pæ í boði, hindberjapæ, eplapæ og fleiri góð pæ. Fyrstu árin sem ég bjó í Svíþjóð var ég stórhneyksluð á því hvernig Svíar eyðilögðu þessar góðu bökur með því að drekkja þeim í vanillusósum. En eftir nokkurra ára dvöl þar í landi var ég orðin frelsuð og vildi líka að eplabökunni minni væri drekkt í ljúffengri vanillusósu!
Eitt kvöldið fyrr í vikunni var ég í jólaskapi, nýbúin að kaupa box af gómsætum sænskum piparkökum (þessum sænsku í rauðu boxunum merktum „Göteborgs“ – þær eru bestar!) og langaði að búa til eplaböku. Skyndilega fékk ég þá hugdettu að það væri gott að blanda piparkökum við eplabökudeigið. Ég beið ekki boðanna og hófst strax handa. Hálftíma seinna stóð rjúkandi heit og gómsæt eplabaka á borðinu og húsið angaði af jólailmi. Vissulega var ég ekki með neina sænska vanillusósu til að drekkja bökunni í en í þetta sinn setti þeytti rjóminn punktinn yfir i-ið. Eiginlega skil ég ekkert í mér að hafa ekki uppgötvað þetta fyrr því eplabakan var með þeim betri og jólalegri bökum sem ég hef bragðað!
Uppskrift:
- 125 g smjör (gott ef það hefur fengið að standa í stofuhita í smá tíma)
- 1dl sykur
- 1dl Kornax hveiti
- 1.5 dl haframjöl
- ca. 10-12 piparkökur, muldar fremur smátt
- 1/2msk kanill
- 1 tsk engifer
- 1 tsk negull