Auk þess sem ég rækta grænmeti þá er ég með stæðilegan rifsberjarunna. Í fyrra var einstaklega þurrt sumar, í minningunni finnst mér ég hafa vökvað garðinn hér um bil daglega. Síðastliðið sumar var hins vegar svo blautt að ég tók aldrei fram garðslönguna, ekki einu sinni! það eina jákvæða við þetta blauta sumar var uppskeran úr garðinum var góð. Í fyrrahaust fékk ég nefnilega engin rifsber en í ár er runninn stútfullur af berjum sem reyndar voru óvenjulengi að verða rauð, líklega vegna sólarleysis.
Ljúf rifsber í dásamlega fallegri skál frá Cup Company
Mig langaði að prófa að gera eitthvað annað úr rifsberjunum en hefðbundna rifsberjahlaupið. Ég bjó því til rifsberjaböku sem var æðislega góð, við mælum með henni!
Uppskrift:
- 200 g hveiti
- 1 tsk lyftiduft
- 110 g smjör, við stofuhita
- 100 g sykur
- 2 eggjarauður
Marengs:
- 2 eggjahvítur
- 100 g sykur
- 2 tsk kartöflumjöl
- 150 g rifsber
Hveiti, lyftiduft, smjör, sykur og eggjarauður er hnoðað saman í vél eða höndum og geymt í ísskáp í um það bil 20-30 mínútur. Ofn hitaður í 165 gráður. Því næst er deigið flatt út með höndunum í smurt bökuform (eða lausbotna form) sem er ca. 24-26 cm. Gott er að pikka aðeins í deigið með gaffli. Bakað 25 mínútur við 165 gráður eða þar til bakan er orðin gullinbrún.
Á meðan er marengsinn undirbúinn. Eggjahvítur, sykur og kartöflumjöl er þeytt saman þar til stífþeytt. Þá er rifsberjunum blandað varlega út í. Þegar botninn er tilbúinn er hann tekinn úr ofninum og ofninn hækkaður í 200 gráður. Marengsinum er dreift yfir botninn og bakað í ofninum við 200 gráður í ca. 8 mínútur eða þar til marengsinn hefur tekið fallegan lit. Gott er að fylgjast vel með eftir að ca. 5 mínútur eru liðnar. Borið fram með þeyttum rjóma eða vanilluís.
þessi verður bökuð..
Þér er velkomið að fá rifsber hjá mér Didda mín! 🙂
Sæl og takk fyrir frábæra síðu. Nú á ég engin rifsber og þekki engan sem á svoleiðis en get ég notað önnur ber t.d bláber? Mig langar svo að bjóða upp á þessa girnilegu böku. kveðja Sigríður
Takk Sigríður! 🙂 Ég hef ekki prófað að nota bláber en ég held að það sé vel hægt að nota þau líkt og rifsber. Gangi þér vel!
Frábær síða sem ég hef nýtt mér rosalega mikið! Áttu til einhverjar fleiri góðar rifsberjauppskriftir? Ég á allt í einu svo rosalega mikið af þeim 🙂
Gaman að heyra það Fjóla! 🙂 Það var að planinu hjá mér að setja inn uppskrift að rifsberjaís en núna er ég erlendis – það er þó ekki öll von úti enn að slík uppskrift komi inn eftir að ég kem heim aftur! 🙂