Ég hef sett inn nokkrar uppskriftir að ostakökum hingað á síðuna og talað um hver munurinn sé á bökuðum og óbökuðum ostakökum. Uppistaðan í óbökuðum ostakökum er rjómaostur og þeyttur rjómi. Þær eru einungis kældar og því þarf oftast að setja í þær matarlím til að þær haldi forminu. Í bökuðum ostakökum, stundum kallaðar New York ostakökur, er uppistaðan líka rjómaostur, í sumum uppskriftum er að auki sýrður rjómi en sammerkt með þeim öllum er að í þeim eru egg. Bakaðar ostakökur eru, eins og segir sig sjálft, bakaðar í ofni en bornar fram kaldar. Hér prófaði ég mig áfram með bakaða ostaköku með hindberjum. Ég ákvað að nota grunnuppskrift að bakaðri ostaköku, setja í hana hindber auk þess sem ég bjó til hindberjakrem ofan á kökuna. Að þessu sinni notaði ég hindberin ósigtuð, þ.e. þá voru fræin með. En ef maður vill þá er hægt að sigta fræin frá og hafa kremið slétt. Mér fannst þetta koma dásamlega vel út, bökuð ostakaka er svo ofsalega góð! Ekki spillir þegar uppáhaldsberin mín, hindber, ganga í hjónaband með þessari ljúfu köku!
Uppskrift:
Botn:
- 300 g Digestive kex (ca. 20 kexkökur)
- 150 g smjör
Ofn stilltur á 175 gráður við undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við smjörið. Sett í bökunarform með lausum botni og blöndunni þrýst i í botninn og aðeins upp í hliðar á forminu. Botnin bakaður í 10 mínútur og látin kólna.
Ostakaka:
- 1 dl sykur
- 1 dl maizenamjöl
- 2 tsk vanillusykur
- 600 g rjómaostur
- 1 dós sýrður rjómi
- 3 egg
- 1 dl rjómi
- 100 gr hvítt súkkulaði
- 300 g frosin hindber (afþýdd)
- 2 msk sykur
- 2 blöð matarlím
Ofninn lækkaður í 160 gráður. Sykri, maizenamjöli og vanillusykri blandað saman í skál. Sýrðum rjóma og rjómaosti bætt við og þeytt þar til að blandan verður kremkend. Eggjum bætt við og þeytt vel, en þó ekki mjög lengi. Rjómanum smátt og smátt bætt við og þeytt á meðan. Súkkulaði brætt yfir vatnsbaði og bætt út í að lokum. Blöndunni hellt yfir kexbotninn og ca. 10-15 hindberjum stungið ofan í deigið hér og þar. Bakað við 160 gráður í 45-55 mínútur, eða þar til að kakan er bökuð að öllu leiti nema bara dálítið blaut í miðjunni. Þá er slökkt á ofninum og henni leyft að standa í ofninum í allavega hálftíma í viðbót. Notið álpappír yfir kökuna ef hún fer að dökkna mikið þegar líður á bökunartímann. Athugið að ostakakan verður ekki beint stíf þegar hún er tilbúin heldur getur hún ,,dansað” svolítið í miðjunni þó hún sé tilbúin. Síðan sígur kakan dálítið og jafnar sig. Það koma oft sprungur í yfirborðið en það er algengt og skiptir litlu. Ostakan er látin kólna í forminu og hindberjakremið er útbúið. Matrlímið er lagt í skál með köldu vatni í ca. 5 mínútur. Restin af hindberjunum eru sett í pott á samt sykrunum og þau hituð upp, hrært í þeim á meðan með gaffli þar til þau verða að mauki. Þegar blandan er orðin heit er mesta vatnið kramið úr matarlíminu og því bætt út í hindberjablönduna. Þegar blandan hefur kólnað aðeins er dreift úr henni yfir kalda ostakökuna (enn í forminu). Ostakakan látin bíða í ísskáp yfir nóttu eða í minnst 6-8 tíma áður en hún er borin fram.
Bakvísun: Glútenlausar vöfflur á vöffludegi | Eldhússögur
Bakvísun: Ostakaka með hvítu súkkulaði og mangó | Eldhússögur