Ostakaka með hvítu súkkulaði og mangó


img_4601

Ég held að ég geti með fullvissu sagt að ostakaka er uppáhalds eftirrétturinn minn. Ég er ekki ein um það. Hér á heimilinu hefur nefnilega ríkt ostakökuæði, allir í fjölskyldunni elska ostakökur! Við höfum aldeilis gert vel við okkur undanfarið því ég hef bakað þrjár ostakökur á jafnmörgum vikum. Meira að segja elsta dóttirinn, sem er að jafnaði ekki hrifin af kökum, finnst ostakökur æðislegar. Fyrstu tvær ostakökurnar sem ég bakaði voru okkar uppáhalds, bökuð ostakaka með hindberjum, algjört sælgæti. Núna síðast ákvað ég hins vegar að gera smá tilraun, nota eftirlætishráefnin mín,  mangó og hvítt súkkulaði, en hafa ostakökuna ekki bakaða heldur bara kælda með matarlími. Þessi ostakaka sló ekki síður í gegn hjá fjölskyldunni og það hefur verið tilhlökkunarefni okkar Elfars að gæða okkur á einni sneið á kvöldin þessa vikuna. Þessi ostakaka verður nefnilega betri með hverjum deginum og ég held svei mér þá að bitinn í kvöld, á fjórða degi, hafi verið bestur! Ég mæli sannarlega með þessari köku! 🙂

img_4616

Uppskrift:

Botn:

  • 250 gr Digestive kex
  • 100 gr smjör
  • 2 tsk kanill

Fylling:

  • 2 dl rjómi
  • 600 gr Philadelphia rjómaostur
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 2 dl flórsykur
  • 2 tsk vanillusykur
  • 100 g hvítt súkkulaði
  • 5 blöð matarlím matarlím
  • 1 límóna (lime) – safi og börkur
  • 1 msk vatn

Ofan á:

  • 2 blöð matarlím
  • 250 g mangó (frosið eða ferskt)
  • 1 límóna (lime)
  • 1 msk vatn

Aðferð:

Botn: Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við smjörið og kanil. Sett í bökunarform með lausum botni og blöndunni þrýst i í botninn og aðeins upp í hliðar á forminu. Botnin er settur í kæli á meðan fyllingin er búin til.

Fylling: Rjómi þeyttur og lagður til hliðar. 5 matarlímsplötur eru settar í kalt vatn í minnst 5 mínútur, þær eiga að verða mjúkar og þykkar. Rjómaosturinn, sýrði rjóminn, flórsykur og vanillusykur er hrært saman í hrærivél. Hvíta súkkulaðið er saxað niður og brætt varlega í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði, því er svo bætt út í rjómaosblönduna. Safinn úr límónu ásamt 1 msk af vatni er sett í pott og hitað. Matarlímsblöðin eru tekin úr vökvanum, vatnið kreist úr þeim og þau sett út í heitan vökvann. Hrært þar til matarlímið hefur bráðnað saman við vökvann. Þá er matarlímsblöndunni hellt út í rjómaostablönduna. Því næst er þeytta rjómanum bætt út í og hrært í stutta stund. Börkurinn af límónunni er rifinn fínt (þess gætt að fara ekki ofan í hvíta lagið undir því græna) og honum bætt út að síðustu. Blöndunni er hellt ofan á botninn og kakan kæld í minnst 4 klukkustundir áður en mangóið er sett ofan á.

Ofan á: þegar kakan hefur stífnað nægilega eru 2 matarlímsblöð sett í kalt vatn í minnst 5 mínútur. Mangóið er afþýtt, ef það er frosið, og svo maukað í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Safinn úr límónunni ásamt vatninu er sett i pott og hitað. Matarlímsblöðin eru tekin úr vökvanum, vatnið kreist úr þeim og þau sett út í heitan vökvann. Hrært þar til matarlímið hefur bráðnað saman við vökvann. Þá er matarlímsblöndunni hellt út í maukaða mangóið og því svo dreift yfir ostakökuna, hún er síðan kæld. Ostakakan er best daginn eftir að hún hefur verið gerð og batnar bara með hverjum deginum.

img_4607img_4611

 

Bökuð ostakaka með hindberjum


Bökuð ostakaka með hindberjum

Ég hef sett inn nokkrar uppskriftir að ostakökum hingað á síðuna og talað um hver munurinn sé á bökuðum og óbökuðum ostakökum. Uppistaðan í óbökuðum ostakökum er rjómaostur og þeyttur rjómi. Þær eru einungis kældar og því þarf oftast að setja í þær matarlím til að þær haldi forminu. Í bökuðum ostakökum, stundum kallaðar New York ostakökur, er uppistaðan líka rjómaostur, í sumum uppskriftum er að auki sýrður rjómi en sammerkt með þeim öllum er að í þeim eru egg. Bakaðar ostakökur eru, eins og segir sig sjálft, bakaðar í ofni en bornar fram kaldar. Hér prófaði ég mig áfram með bakaða ostaköku með hindberjum. Ég ákvað að nota grunnuppskrift að bakaðri ostaköku, setja í hana hindber auk þess sem ég bjó til hindberjakrem ofan á kökuna. Að þessu sinni notaði ég hindberin ósigtuð, þ.e. þá voru fræin með. En ef maður vill þá er hægt að sigta fræin frá og hafa kremið slétt. Mér fannst þetta koma dásamlega vel út, bökuð ostakaka er svo ofsalega góð! Ekki spillir þegar uppáhaldsberin mín, hindber, ganga í hjónaband með þessari ljúfu köku!

IMG_6977

Uppskrift:

Botn:

  • 300 g Digestive kex (ca. 20 kexkökur)
  • 150 g smjör

Ofn stilltur á 175 gráður við undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við smjörið. Sett í bökunarform með lausum botni og blöndunni þrýst i í botninn og aðeins upp í hliðar á forminu. Botnin bakaður í 10 mínútur og látin kólna.

Ostakaka:

  • 1 dl sykur
  • 1 dl maizenamjöl
  • 2 tsk vanillusykur
  • 600 g rjómaostur
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 3 egg
  • 1 dl rjómi
  • 100 gr hvítt súkkulaði
  • 300 g frosin hindber (afþýdd)
  • 2 msk sykur
  • 2 blöð matarlím

IMG_6928

Ofninn lækkaður í 160 gráður. Sykri, maizenamjöli og vanillusykri blandað saman í skál. Sýrðum rjóma og rjómaosti bætt við og þeytt þar til að blandan verður kremkend. Eggjum bætt við og þeytt vel, en þó ekki mjög lengi. Rjómanum smátt og smátt bætt við og þeytt á meðan. Súkkulaði brætt yfir vatnsbaði og bætt út í að lokum. Blöndunni hellt yfir kexbotninn og ca. 10-15 hindberjum stungið ofan í deigið hér og þar. Bakað við 160 gráður í 45-55 mínútur, eða þar til að kakan er bökuð að öllu leiti nema bara dálítið blaut í miðjunni. Þá er slökkt á ofninum og henni leyft að standa í ofninum í allavega hálftíma í viðbót. Notið álpappír yfir kökuna ef hún fer að dökkna mikið þegar líður á bökunartímann. Athugið að ostakakan verður ekki beint stíf þegar hún er tilbúin heldur getur hún ,,dansað” svolítið í miðjunni þó hún sé tilbúin. Síðan sígur kakan dálítið og jafnar sig. Það koma oft sprungur í yfirborðið en það er algengt og skiptir litlu. Ostakan er látin kólna í forminu og hindberjakremið er útbúið. Matrlímið er lagt í skál með köldu vatni í ca. 5 mínútur. Restin af hindberjunum eru sett í pott á samt sykrunum og þau hituð upp, hrært í þeim á meðan með gaffli þar til þau verða að mauki. Þegar blandan er orðin heit er mesta vatnið kramið úr matarlíminu og því bætt út í hindberjablönduna. Þegar blandan hefur kólnað aðeins er dreift úr henni yfir kalda ostakökuna (enn í forminu). Ostakakan látin bíða í ísskáp yfir nóttu eða í minnst 6-8 tíma áður en hún er borin fram.

IMG_7065

Amerísk ostakaka með bláberjum


Jæja, tölum um ostakökur, þær dásemdarkökur! Það eru til tvenns konar útfærslur á ostakökum, bakaðar og óbakaðar. Uppistaðan í þessum óbökuðu er rjómaostur og þeyttur rjómi. Þær eru einungis kældar og því þarf oftast að setja í þær matarlím til að þær haldi forminu. Í bökuðum ostakökum, stundum kallaðar New York ostakökur, er uppistaðan líka rjómaostur, í sumum uppskriftum er að auki sýrður rjómi en sammerkt með þeim öllum er að í þeim eru egg. Bakaðar ostakökur eru, eins og segir sig sjálft, bakaðar í ofni en bornar fram kaldar. Hér áður fyrr gerði ég oftar óbakaðar ostakökur en núna er ég farin að gera oftar bakaðar. Þessi uppskrift af bakaðri ostaköku (kemur frá sænska kökukrúttinu henni Leilu) er mín uppáhalds hingað til, ég mun þó örugglega halda áfram að prófa fleiri uppskriftir! Ég held að galdurinn við hana sé hvíta súkkulaðið. Það er ótrúlegt hvað hvítt súkkulaði getur gert mikið fyrir kökur og eftirrétti! Í upphaflegu uppskriftinni er þessi ostakaka bökuð með bláberjum. Sú útgáfa hjá mér sést á myndinni hér að ofan (borin fram á dásamlega mánaðarstellinu sem ég fékk frá ömmu). En mér finnst hins vegar ekki verra að sleppa bláberjunum og skreyta hana með hindberjum og bera fram með hindberjasósu sem er himnesk með þessari ostaköku! Það er heldur ekkert sem segir að ekki sé hægt að baka hana með bláberjunum og bera fram með hindberjasósu! Þið sem elskið „Cheescake Factory“ ostakökur verðið að prófa þessa!

Uppskrift

  • 300 gr Digestive kex
  • 150 gr ósaltað smjör
  • 1 dl sykur
  • 1 dl maizenamjöl
  • 2 tsk vanillusykur
  • 600 gr Philadephia rjómaostur
  • 1 dós sýrður rjómi 10%
  • 3 egg
  • 1 dl rjómi
  • 200 gr hvítt súkkulaði
  • 2.5 dl. bláber (má nota frosin ber sem búið er að afþýða)
Hindberjasósa:
  • 300 gr hindber (má nota frosin ber sem búið er að afþýða)
  • 2-3 msk sykur

Aðferð:

  1. Ofn stilltur á 175 gráður. Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við smjörið. Sett í bökunarform með lausum botni og blöndunni þrýst i í botninn og aðeins upp í hliðar á forminu. Botnin bakaður í 10 mínútur og látin kólna.
  2. Ofninn lækkaður í 160 gráður. Sykri, maizenamjöli og vanillusykri blandað saman í skál. Sýrðum rjóma og rjómaosti bætt við og þeytt þar til að blandan verður kremkennd. Eggjum bætt við og þeytt vel, en þó ekki of lengi eftir að eggjum hefur verið bætt við. Rjómanum smám saman bætt við og þeytt á meðan. Súkkulaði brætt yfir vatnsbaði og bætt út í. Hellið blöndunni yfir kexbotninn og dreifið báberjunum yfir kökuna.
  3. Bakið við 160 gráður í 45-55 mínútur, eða þar til að kakan er bökuð að öllu leiti nema bara dálítið blaut í miðjunni. Þá er slökkt á ofninum og henni leyft að standa í ofninum í allavega hálftíma í viðbót. Notið álpappír yfir kökuna ef hún fer að dökkna mikið þegar líður á bökunartímann. Athugið að ostakakan verður ekki beint stíf þegar hún er tilbúin, sjáið þetta myndband við ca. 2.55 mínútur, þarna er sýnt að kakan getur ,,dansað“ svolítið þó hún sé tilbúin. Síðan sígur hún dálítið og jafnar sig. Það koma oft sprungur í yfirborðið en það er algengt, látið það ekki á ykkur fá! Ostakakan látin bíða í ísskáp yfir nóttu eða í minnst 6-8 tíma áður en hún er borin fram.
  4. Fyrir þá sem vilja prófa hindberjasósuna með! Afþýðið 300 gr. af hinberjum, bætið við 2-3 msk. af sykri og hrærið vel saman með gafli eða töfrasprota. Bætið við örlitlu vatni ef sósan er of þykk. Það er hægt að hella sósunni ofan á kökuna og bera hana þannig fram eða bera sósuna fram með kökunni. Ég mæli með þessum frosnu hindberjunum í Kosti, þau eru alveg eins og þau séu fersk þegar þau eru afþýdd. Þau eru rándýr, 2000 kr. fyrir tæpt kíló. En það er samt mun ódýrara en að kaupa fersk ber, auk þess eru þau öll í lagi (maður fær oft ónýt fersk ber), hægt að næla sér í skammt í frystinn hvenær sem er og svo eru þau stór og ljúffeng!