Jæja, tölum um ostakökur, þær dásemdarkökur! Það eru til tvenns konar útfærslur á ostakökum, bakaðar og óbakaðar. Uppistaðan í þessum óbökuðu er rjómaostur og þeyttur rjómi. Þær eru einungis kældar og því þarf oftast að setja í þær matarlím til að þær haldi forminu. Í bökuðum ostakökum, stundum kallaðar New York ostakökur, er uppistaðan líka rjómaostur, í sumum uppskriftum er að auki sýrður rjómi en sammerkt með þeim öllum er að í þeim eru egg. Bakaðar ostakökur eru, eins og segir sig sjálft, bakaðar í ofni en bornar fram kaldar. Hér áður fyrr gerði ég oftar óbakaðar ostakökur en núna er ég farin að gera oftar bakaðar. Þessi uppskrift af bakaðri ostaköku (kemur frá sænska kökukrúttinu henni Leilu) er mín uppáhalds hingað til, ég mun þó örugglega halda áfram að prófa fleiri uppskriftir! Ég held að galdurinn við hana sé hvíta súkkulaðið. Það er ótrúlegt hvað hvítt súkkulaði getur gert mikið fyrir kökur og eftirrétti! Í upphaflegu uppskriftinni er þessi ostakaka bökuð með bláberjum. Sú útgáfa hjá mér sést á myndinni hér að ofan (borin fram á dásamlega mánaðarstellinu sem ég fékk frá ömmu). En mér finnst hins vegar ekki verra að sleppa bláberjunum og skreyta hana með hindberjum og bera fram með hindberjasósu sem er himnesk með þessari ostaköku! Það er heldur ekkert sem segir að ekki sé hægt að baka hana með bláberjunum og bera fram með hindberjasósu! Þið sem elskið „Cheescake Factory“ ostakökur verðið að prófa þessa!
Uppskrift
- 300 gr Digestive kex
- 150 gr ósaltað smjör
- 1 dl sykur
- 1 dl maizenamjöl
- 2 tsk vanillusykur
- 600 gr Philadephia rjómaostur
- 1 dós sýrður rjómi 10%
- 3 egg
- 1 dl rjómi
- 200 gr hvítt súkkulaði
- 2.5 dl. bláber (má nota frosin ber sem búið er að afþýða)
- 300 gr hindber (má nota frosin ber sem búið er að afþýða)
- 2-3 msk sykur
Aðferð:
- Ofn stilltur á 175 gráður. Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við smjörið. Sett í bökunarform með lausum botni og blöndunni þrýst i í botninn og aðeins upp í hliðar á forminu. Botnin bakaður í 10 mínútur og látin kólna.
- Ofninn lækkaður í 160 gráður. Sykri, maizenamjöli og vanillusykri blandað saman í skál. Sýrðum rjóma og rjómaosti bætt við og þeytt þar til að blandan verður kremkennd. Eggjum bætt við og þeytt vel, en þó ekki of lengi eftir að eggjum hefur verið bætt við. Rjómanum smám saman bætt við og þeytt á meðan. Súkkulaði brætt yfir vatnsbaði og bætt út í. Hellið blöndunni yfir kexbotninn og dreifið báberjunum yfir kökuna.
- Bakið við 160 gráður í 45-55 mínútur, eða þar til að kakan er bökuð að öllu leiti nema bara dálítið blaut í miðjunni. Þá er slökkt á ofninum og henni leyft að standa í ofninum í allavega hálftíma í viðbót. Notið álpappír yfir kökuna ef hún fer að dökkna mikið þegar líður á bökunartímann. Athugið að ostakakan verður ekki beint stíf þegar hún er tilbúin, sjáið þetta myndband við ca. 2.55 mínútur, þarna er sýnt að kakan getur ,,dansað“ svolítið þó hún sé tilbúin. Síðan sígur hún dálítið og jafnar sig. Það koma oft sprungur í yfirborðið en það er algengt, látið það ekki á ykkur fá! Ostakakan látin bíða í ísskáp yfir nóttu eða í minnst 6-8 tíma áður en hún er borin fram.
- Fyrir þá sem vilja prófa hindberjasósuna með! Afþýðið 300 gr. af hinberjum, bætið við 2-3 msk. af sykri og hrærið vel saman með gafli eða töfrasprota. Bætið við örlitlu vatni ef sósan er of þykk. Það er hægt að hella sósunni ofan á kökuna og bera hana þannig fram eða bera sósuna fram með kökunni. Ég mæli með þessum frosnu hindberjunum í Kosti, þau eru alveg eins og þau séu fersk þegar þau eru afþýdd. Þau eru rándýr, 2000 kr. fyrir tæpt kíló. En það er samt mun ódýrara en að kaupa fersk ber, auk þess eru þau öll í lagi (maður fær oft ónýt fersk ber), hægt að næla sér í skammt í frystinn hvenær sem er og svo eru þau stór og ljúffeng!
Þetta er allt svo dásamlega girnilegt og flott hjá þér elsku Dröfn! En ég verð að viðurkenna að ég hef ennþá bara prófað hamborgarana, ég ætti kannski að prófa þessa ostaköku næst í stað þess að slefa bara á lyklaborðið!
Takk Þórdís mín! 🙂 Já, ég hvet þig til að prófa þessa!
Oh thetta er svo otrúlega god ostakaka. Thetta er eina kakan thar sem eg sleiki sjalf allar sleifar. Hinsvegar fellur hun alltaf hja mer, skil ekki af hverju. Baka hana adeins lengur ca 40 min thvi hun er svo föl og hlaupkennd eftir 30 min held lika ad ofninn minn se ordin lelegur (gamalt skran), hun fellur samt. Hvernig stendur a thessu Fru Dröfn?
Geggjad blogg hja ther btw, GEGGJAD!!! Skoda thad a hverjum degi og er ekki ad ykja. Thad er thegar buid ad bjarga mer nokkrum sinnum og hananú. Mun fljotlega gera kirsuberjatertuna.
Takk Lóa mín fyrir hrósið! 🙂
Eftir að hafa lagst í upplýsingaöflun og skoðað fullt af sambærilegum uppskriftum þá held ég að þessi frá Leilu sé bökuð við aðeins of háan hita. Það er talað um að baka ostakökur hægt. Ég myndi prófa að baka hana við 160 gráður í 45-55 mínútur, eða þar til að hún er bökuð að öllu leiti nema bara smá blaut í miðjunni. Slökkva þá á ofninum og leyfa henni að standa í ofninum í allavega hálftíma í viðbót.
Bakvísun: Ostakaka með mangó og ástaraldin | Eldhússögur
Þetta er dásamlega góð kaka, hef gert hana nokkrum sinnum og er að skella í eina núna 😉 ég er samt með eina spurningu.. bláberin hjá mér síga ekki niður í ostablönduna heldur haldast þau eiginega á sínum stað allan tímann.. er ég að þeyta blönduna kannski of mikið? kakan á myndunum hjá þér er svo fallega fjóluhvít og gillt á toppinum en ég virðist aldrei ná að láta hana líta svona út 😉
Þegar þú talar um að þér finnist ekkert verra að sleppa bláberjunum ofaná og nota hinber, sleppuru þeim þá líka í kökunni og seturu hindber í staðinn?
Ef ég nota hindber þá geri ég kökuna eftir uppskriftinni en set engin bláber ofan á hana í lokin. Svo þegar hún er til búin þá er hægt að skreyta hana með ferskum hindberjum og gera hindberjasósuna með. Það er líka hægt að hafa kökuna bara „hreina“, þ.e. án þess að skreyta hana með hindberjum og bera hana bara fram með hindberjasósunni.
Takk fyrir þetta, 3 barnaafmæli framundan og er að finna uppskriftir hjá þér og deila þeim niður á afmælin. Svo mikið gott að velja um 😉
Notaðir þú 26cm eða 24cm form ?
24 cm. 🙂
Sæl. Mig langar að prófa þessa uppskrift að ostaköku. Ég velti fyrir mér hvað þú átt við með ein dós af sýrðum rjóma, hversu mikið magn í ml eða g? Hér í Danmörku þar sem ég bý er ein dós af sýrðum rjóma 500 ml.
Með fyrirfram þökk,
Guðrún
Sæl Guðrún. Það eru 180 ml í dósinni hér! 🙂
Síðan þín er algjörlega uppáhaldið mitt! Nota eiginlega bara þínar uppskriftir.
Myndir þú þora að frysta þessa köku og bera fram einhverjum dögum síðar?
Frábært að heyra Kristín, takk fyrir góða kveðju! 🙂 Jú, það er ekkert mál að frysta svona ostaköku.