Michigan-fylki framleiðir mest af bláberjum af öllum fylkjum Bandaríkjanna og núna er aðaluppskerutíminn fyrir bláber. Við fórum á bændamarkað hér í hverfinu og keyptum tæp 2.5 kíló af stórum og ljúffengum bláberjum á 1300 krónur. Þar keyptum við líka ferskan maís sem er dásamlega sætur og góður ásamt fleiru góðu grænmeti. Bláberin heima á Íslandi eru kannski ekki eins stór og hér í Michigan en þau eru sannarlega bragðgóð og nú er einmitt að renna upp sá tími að hægt sé að fara í berjamó. Ég ákvað að búa til einfalt og gott bláberjapæ úr bláberjunum mínum og nota „mylsnudeig“ eða „smulpaj“ eins og Svíarnir kalla það. Mér finnst það alltaf langbestu bökurnar.
Uppskrift:
- 750 g fersk bláber (eða frosin)
- 3 tsk sykur
- (2 msk kartöflumjöl ef berin eru frosin)
- 140 g smjör (kalt)
- 2 dl Kornax hveiti
- 2 dl haframjöl
- 1.5 dl sykur
- 1/2 tsk salt
- 1-2 dl gott múslí eða granóla (má sleppa)
Ofn hitaður í 225 gráður við undir- og yfirhita. Bláberin eru sett í eldfast mót (kartöflumjöli dreift yfir ef þau eru frosin) og 3 tsk sykri dreift yfir berin. Smjörið er skorin niður í litla bita og sett í skál. Þá er haframjöli, hveiti, sykri, salti bætt út í, allt mulið saman með höndunum og að síðustu er múslí/granóla blandað saman við deigið. Blöndunni er því næst dreift yfir bláberin. Bakað í um það bil 20-25 mínútur við 225 gráður. Borið fram heitt með ís eða þeyttum rjóma.
Þarf að prófa þessa
Þessi er í ofninum, smá breitt ÞEAS: með krækiberjum í stað Bláberja og 1 dsl af sykri í stað 1.5 dsl af sykri, læt vita hvernig hún smakkast.
Bakan smakkaðist æðislega vel með krækiberjunum, mér finnst of mikið að hafa 750 gr af berjum mun prufa 500 gr næst., Það kom ekkert niður á bragðinu þó að sykurinn væri 1 dsl í stað 1,5 dsl, takk fyrir að deila uppskriftinni, bökur eru mitt uppáhald.