Í dag eru tvær vikur síðan við lögðum upp í skemmtilega Bandaríkjaför og nú er dvölin hálfnuð. Við byrjuðum á því að fara til New York í nokkra daga og erum núna í Michigan þar sem við gerðum húsaskipti. Við búum eins og blóm í eggi í stóru húsi með öllum þægindum, sundlaug sem tilheyrir húsinu, flottar strendur í nágrenninu og síðast en ekki síst njótum við sólar og sumaryls á hverjum degi! Ég er aðeins búin að missa mig í matvöruverslununum hér. Þvílíkt úrval af dásamlega góðum mat og verðið allt annað en heima. Við byrjum til dæmis alltaf daginn á amerískum pönnukökum með sírópi og öllum þeim ferskum berjum sem hugurinn girnist, beikoni og eggjum. Við fórum til Shipshewana sem er Amish-bær og þar keyptum við ótrúlega góða nautalund, hamborgara og fleira sem er að sjálfsögðu 100% lífrænt hjá Amishfólkinu. Það er því alltaf eitthvað gúrmei í matinn hjá okkur á kvöldin líka – sem sagt algjört matarævintýri! Endilega fylgist með Eldhússögum á Instagram, þar set ég reglulega inn myndir. Það er líka hægt að fara á forsíðu Eldhússagna og sjá þar myndirnar frá Instagram, þær eru hægra megin á síðunni.
Það voru farnar að safnast upp uppskriftir sem ég ætlaði að setja inn á síðuna í fríinu en satt best að segja hef ég bara ekkert nennt að sinna blogginu í þessu ljúfa fríi! 🙂 Ég get þó ekki staðist mátið og sett inn þessa uppskrift að dásamlega góðum karamellu- og súkkulaðibita kökum sem Jóhanna og Katla vinkona hennar bökuðu rétt áður en við fórum af landinu. Jóhanna er afar hrifin af Subway smákökum og við erum alltaf að reyna útfæra uppskriftir sem ná þeim standard og ég held svei mér þá að þessi uppskrift komist ansi nálægt því!
Uppskrift (ca. 20 kökur):
- 120 gr smjör (við stofuhita)
- 2 dl púðursykur
- 2 dl sykur
- 2 egg
- 400 g Kornax hveiti
- 1 tsk lyftiduft
- 2 tsk vanillusykur
- 1/4 tsk salt
- 1 poki karamellukurl hjúpað súkkulaði frá Nóa og Siríus (150 g)
Ofn hitaður í 180 gráður við undir- og yfirhita. Smjör, púðursykri og sykri er hrært saman. Því næst er eggjunum bætt út í, einu í senn. Þá er þurrefnunum bætt út í og hrært þar til allt hefur blandast vel saman. Að lokum er karamellukurlinu bætt út í.
Kúlur á stærð við litlar plómur eru mótaðar með höndunum og raðað á ofnplötu (passað að gefa þeim pláss til að fletjast út). Bakað í ofni við 180 gráður í um það bil 10 mínútur.
Hefur þú hugmynd hvað eru margar caloríur í einni smáköku?
Ekki hugmynd! En það eru til margar síður á netinu þar sem maður slær inn hráefnunum og fær þá reiknað út fyrir sig kaloríufjölda.
Ohh.. Ég hef viljað prófa húsaskipti lengi. Það væri frábært ef þú myndir henda í eina færslu tileinkaða því!
Annars er þetta svo frábært blogg og ég er alltaf spennt fyrir nýjum færslum. Takk fyrir það 🙂
Við reyndar gerðum húsaskipti við vini okkar þannig að við fórum ekki hefðbundna leið. 🙂 Takk fyrir kveðjuna!
Var að prófa hafraklattana þína og þeir slá í gegn hér á heimilinu 🙂 Ein spurning, er hitastigið sem gefið er upp í uppskriftunum þínum miðað við að bakað sé í blástursofni?
Gaman að heyra það! 🙂 Ef ég tek ekkert annað fram þá miða ég hitastigið við yfir- og undirhita.