Asískar kjötbollur


IMG_3461

Um síðustu helgi hélt stóra stelpan mín upp á tvítugsafmælið sitt. Ég keypti hluta af veitingunum frá Osushi og bjó til eitthvað af þeim sjálf. Það var dálítið vatnsmelónuþema í gangi, við gerðum vatnsmelónu mojito sem var víst ákaflega góður drykkur. Hann er gerður úr Bacardi Melon (romm með vatnsmelónubragði), lime, vatnsmelónu, sírópi og fullt af ferskri myntu – ég set inn uppskriftina hér við tækifæri. Einn af þeim matréttum sem ég bjó til voru kjötbollur með asískri sósu. Ég gerði þær litlar og notaði þær sem smárétt en í raun er ekkert því til fyrirstöðu að búa til máltíð úr þeim og hafa þá til dæmis hrísgrjón með. Myndirnar voru teknar í miklum flýti og eru ekkert til að hrópa húrra fyrir en ekki láta þær fæla ykkur frá! 🙂

Asískar kjötbollurUppskrift (ca. 50 litlar kjötbollur):

  • 900 g nautahakk
  • 2 tsk sesamolía
  • 2.5 dl brauðmylsna
  • 1 tsk engifer (krydd)
  • salt & pipar
  • 2 egg
  • 3-4  hvítlauksrif, pressuð eða skorin smátt
  • 1 búnt vorlaukur (hvíti hlutinn saxaður smátt – græni hlutinn geymdur)
 Sósa:
  • 2 dl Hoisin sósa
  • 4 msk hrísgrjónaedik (rice vinegar)
  • 2 hvítlauksrif, pressuð
  • 2 msk sojasósa
  • 1 tsk sesamolía
  • 1 tsk engifer (krydd)
  • Sesam fræ og græni hlutinn af vorlauknum notað til skreytingar.

Ofn hitaður í 200 gráður. Nautahakkið er sett í skál ásamt kryddi, eggjum, brauðmylsnu, hvítlauki og vorlauki, blandað vel saman. Litlar bollur eru mótaðar úr hakkinu og raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 10-12 mínútur eða þar til bollurnar eru tilbúnar.

Á meðan bollurnar eru í ofninum er sósan útbúin. Öllum hráefnunum í sósuna er blandað vel saman. Þegar bollurnar eru tilbúnar er þeim velt upp úr sósunni eða henni hellt yfir bollurnar. Græni hlutinn af vorlauknum er saxaður og dreift yfir ásamt sesamfræjum.

Asískar kjötbollur

Kjötbollur með eplum og beikoni ásamt jógúrtsósu með fetaosti


Kjötbollur með eplum og beikoni ásamt jógúrtsósu með fetaosti

Mig grunar að páskaeggin séu að klárast á íslenskum heimilum og súkkulaðifráhvörf yfirvofandi því vinsælasta uppskriftin á blogginu mínu í dag er ómótstæðilega súkkulaðikakan með Pippkaramellukreminu! Þessi kaka hefur nú náð því afreki að vera deilt meira en þúsund sinnum á Facebook. Bara þúsund deilingar í viðbót og þá hefur hún náð Snickerskökunni! 🙂 Á þeim tæpu tveimur mánuðum sem liðnir eru síðan ég setti Snickerskökuna hingað inn þá hefur hún daglega verið ein mest sótta uppskriftin hér á blogginu. Ég verð þó að mæla líka með súkkulaðikökunni með Pippkaramellukreminu sem er í miklu uppáhaldi hjá okkur öllum í fjölskyldunni, þetta er einstaklega fljótleg og einföld kaka. Hún er dásamleg þegar hún er heit og nýbökuð með rjóma eða ís en er alls ekki síðri daginn eftir, þá er hún ákaflega bragðgóð og með seigri karamelluáferð.

En ég kom ekki hingað inn til að tala um súkkulaði heldur til þess að setja inn frábæra kjötbollu uppskrift! Þessar kjötbollur eru með eplum og beikoni sem gefur þeim svo einstaklega gott og frísklegt bragð. Ég veit eiginlega ekki af hverju mér datt þetta ekki í hug fyrr! Salta og stökka beikonið á móti sæta eplabragðinu – algjör snilld bundin saman í bragðgóðum kjötbollum. Meðlætið var líka svo gott, steikt epli og jógúrtsósa með fetaosti. Þessi sósa gæti ekki verið einfaldari og betri, ég held að það hafi tekið mig innan við tvær mínútur að hræra saman sósuna og hún passaði einstaklega vel með kjötbollunum. Þetta er sannarlega réttur sem ég mun elda reglulega héðan í frá.

IMG_9175

Uppskrift f. ca 3-4

  • 600 g nautahakk
  • 1 egg
  • ca 140 g beikon
  • ca 4 stór græn epli
  • 1/2 lítill laukur
  • salt og pipar (ég notaði vel af pipar, minna af salti því beikonið er salt)
  • gott krydd (ég notaði Best á allt)
  • 1 tsk nautakraftur
  • smjör til steikingar

Beikonið er skorið í bita og steikt á pönnu þar til það er orðið stökkt, þá er það tekið af pönnunni og látið renna af því á eldhúspappír. 1 epli er afhýtt og rifið gróft. Laukurinn er saxaður mjög smátt. Rifna eplinu, beikoninu, lauknum, egginu og nautakraftinum er blandað vel saman við nautahakkið og kryddað vel. Því næst eru mótaðar bollur úr hakkinu og þær steiktar á pönnu þar til þær eru eldaðar í gegn. Bollurnar eru því næst veiddar af pönnunni (ekki þvo pönnuna) og þeim haldið heitum (t.d. undir álpappír). Restin af eplunum eru afhýdd og þau svo skorin í báta. Eplabátarnir eru svo steiktir á sömu pönnu og bollurnar voru steiktar á, við meðalhita í nokkrar mínútur, þar til þeir eru orðnir mjúkir. Kjötbollurnar eru bornar fram með steiktu eplabátunum, ofnbökuðum kartöflum, jógúrtsósu með fetaosti og fersku salati.

IMG_9168

Jógúrtsósa með fetaosti:

  • 2 dl grísk jógúrt
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  • ca. 100 g fetaostur (ekki í olíu)
  • örfáir dropar Tabasco sósa

Öllu blandað vel saman með gaffli.

IMG_9172

Lambakjötbollur með gulrótar-tzatziki sósu


Þetta byrjaði allt með þessari eins kílóa fötu af tyrkneskri jógúrt sem ég keypti í versluninni Tyrkneskur bazar í Síðumúla. Tyrknesk jógúrt er dásamlega kremkennd með mildu bragði. Ég fór að skoða hvað hægt væri að gera úr jógúrtinni og fann uppskrift af spennandi gulrótar-tzatziki sósu. Þá varð mér hugsað til Tyrklandsferðar fjölskyldunnar síðastliðið sumar. „Kebab, kebab!“ hrópuðu kokkarnir hver í kapp við annan þar sem þeir stóðu sveittir við hótelgrillið og grilluðu ýmiskonar ljúfengt kjöt ofan í sólbrennda hótelgesti. Kebab þýðir í raun bara grillað kjöt á grillpinna. Köfte Kebab er gert úr lambahakki með ýmiskonar kryddjurtum, til dæmis myntu og steinselju og bragðaðist dásamlega með tyrkneskri jógúrtsósu. Með þetta í huga ákvað ég því að kaupa lambahakk í fyrsta sinn á ævinni! Mér datt í hug að útbúa hakkið sjálf úr lambavöðva (er oft full vantrausts á tilbúið hakk) en þegar ég fann lambahakk í Þinni verslun á aðeins 890 krónur kílóið sem leit mjög vel út ákvað ég að kaupa það tilbúið. Þeir sem ekki vilja lambahakk geta notað nautahakk í staðinn og í stað tyrkneskrar jógúrtar er hægt að nota gríska jógúrt sem fæst í öllum matvöruverslunum. Ég fylgdi ekki ákveðinni uppskrift af bollum en þetta er sirka það sem ég gerði:

Lambakjötbollur:

  • 1 kíló lambahakk (hægt að nota nautahakk)
  • 1 dl. fetaostur (mulin niður)
  • 1 ½ dl. rifnar gulrætur
  • 1 dl. tyrknesk jógúrt (eða grísk)
  • 1 egg
  • 1 tsk. chilimauk
  • 2-3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • fersk mynta, steinselja og basilika söxuð niður. (Má sleppa basiliku, ég notaði hana bara af því að ég átti hana til!)
  • salt, pipar og cayenne pipar ásamt öðru kryddi eftir smekk (t.d. steinselja, oregano, paprika)

Öllu blandað vel saman og mótaðar meðalstórar bollur (eða meira eins og buff, auðveldara að grilla). Penslið grillið vel með olíu. Grillað á háum hita þar til bollurnar eru eldaðar í gegn, sirka í 10 mínútur, snúið við þörfum. Það er auðvitað líka hægt að steikja bollurnar á pönnu fyrir þá sem vilja það frekar. Ég skar einnig niður kúrbít, penslaði með ólífuolíu, kryddaði með salti og pipar og grillaði.

Það er ofureinfalt að búa til gulrótar-tzatziki.

Uppskrift:

  • 4 dl. tyrknesk jógúrt (eða grísk jógúrt)
  • 200 gr. rifnar gulrætur
  • 2 hvítlauksgeirar saxaðir mjög smátt
  • salt og pipar

Öllu blandað saman, plastfilma sett yfir og sett inn í ísskáp í minnst korter áður en sósan er borin fram.