Þetta byrjaði allt með þessari eins kílóa fötu af tyrkneskri jógúrt sem ég keypti í versluninni Tyrkneskur bazar í Síðumúla. Tyrknesk jógúrt er dásamlega kremkennd með mildu bragði. Ég fór að skoða hvað hægt væri að gera úr jógúrtinni og fann uppskrift af spennandi gulrótar-tzatziki sósu. Þá varð mér hugsað til Tyrklandsferðar fjölskyldunnar síðastliðið sumar. „Kebab, kebab!“ hrópuðu kokkarnir hver í kapp við annan þar sem þeir stóðu sveittir við hótelgrillið og grilluðu ýmiskonar ljúfengt kjöt ofan í sólbrennda hótelgesti. Kebab þýðir í raun bara grillað kjöt á grillpinna. Köfte Kebab er gert úr lambahakki með ýmiskonar kryddjurtum, til dæmis myntu og steinselju og bragðaðist dásamlega með tyrkneskri jógúrtsósu. Með þetta í huga ákvað ég því að kaupa lambahakk í fyrsta sinn á ævinni! Mér datt í hug að útbúa hakkið sjálf úr lambavöðva (er oft full vantrausts á tilbúið hakk) en þegar ég fann lambahakk í Þinni verslun á aðeins 890 krónur kílóið sem leit mjög vel út ákvað ég að kaupa það tilbúið. Þeir sem ekki vilja lambahakk geta notað nautahakk í staðinn og í stað tyrkneskrar jógúrtar er hægt að nota gríska jógúrt sem fæst í öllum matvöruverslunum. Ég fylgdi ekki ákveðinni uppskrift af bollum en þetta er sirka það sem ég gerði:
Lambakjötbollur:
- 1 kíló lambahakk (hægt að nota nautahakk)
- 1 dl. fetaostur (mulin niður)
- 1 ½ dl. rifnar gulrætur
- 1 dl. tyrknesk jógúrt (eða grísk)
- 1 egg
- 1 tsk. chilimauk
- 2-3 hvítlauksrif, söxuð smátt
- fersk mynta, steinselja og basilika söxuð niður. (Má sleppa basiliku, ég notaði hana bara af því að ég átti hana til!)
- salt, pipar og cayenne pipar ásamt öðru kryddi eftir smekk (t.d. steinselja, oregano, paprika)
Öllu blandað vel saman og mótaðar meðalstórar bollur (eða meira eins og buff, auðveldara að grilla). Penslið grillið vel með olíu. Grillað á háum hita þar til bollurnar eru eldaðar í gegn, sirka í 10 mínútur, snúið við þörfum. Það er auðvitað líka hægt að steikja bollurnar á pönnu fyrir þá sem vilja það frekar. Ég skar einnig niður kúrbít, penslaði með ólífuolíu, kryddaði með salti og pipar og grillaði.
Það er ofureinfalt að búa til gulrótar-tzatziki.
Uppskrift:
- 4 dl. tyrknesk jógúrt (eða grísk jógúrt)
- 200 gr. rifnar gulrætur
- 2 hvítlauksgeirar saxaðir mjög smátt
- salt og pipar
Öllu blandað saman, plastfilma sett yfir og sett inn í ísskáp í minnst korter áður en sósan er borin fram.