Lambakjötbollur með gulrótar-tzatziki sósu


Þetta byrjaði allt með þessari eins kílóa fötu af tyrkneskri jógúrt sem ég keypti í versluninni Tyrkneskur bazar í Síðumúla. Tyrknesk jógúrt er dásamlega kremkennd með mildu bragði. Ég fór að skoða hvað hægt væri að gera úr jógúrtinni og fann uppskrift af spennandi gulrótar-tzatziki sósu. Þá varð mér hugsað til Tyrklandsferðar fjölskyldunnar síðastliðið sumar. „Kebab, kebab!“ hrópuðu kokkarnir hver í kapp við annan þar sem þeir stóðu sveittir við hótelgrillið og grilluðu ýmiskonar ljúfengt kjöt ofan í sólbrennda hótelgesti. Kebab þýðir í raun bara grillað kjöt á grillpinna. Köfte Kebab er gert úr lambahakki með ýmiskonar kryddjurtum, til dæmis myntu og steinselju og bragðaðist dásamlega með tyrkneskri jógúrtsósu. Með þetta í huga ákvað ég því að kaupa lambahakk í fyrsta sinn á ævinni! Mér datt í hug að útbúa hakkið sjálf úr lambavöðva (er oft full vantrausts á tilbúið hakk) en þegar ég fann lambahakk í Þinni verslun á aðeins 890 krónur kílóið sem leit mjög vel út ákvað ég að kaupa það tilbúið. Þeir sem ekki vilja lambahakk geta notað nautahakk í staðinn og í stað tyrkneskrar jógúrtar er hægt að nota gríska jógúrt sem fæst í öllum matvöruverslunum. Ég fylgdi ekki ákveðinni uppskrift af bollum en þetta er sirka það sem ég gerði:

Lambakjötbollur:

  • 1 kíló lambahakk (hægt að nota nautahakk)
  • 1 dl. fetaostur (mulin niður)
  • 1 ½ dl. rifnar gulrætur
  • 1 dl. tyrknesk jógúrt (eða grísk)
  • 1 egg
  • 1 tsk. chilimauk
  • 2-3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • fersk mynta, steinselja og basilika söxuð niður. (Má sleppa basiliku, ég notaði hana bara af því að ég átti hana til!)
  • salt, pipar og cayenne pipar ásamt öðru kryddi eftir smekk (t.d. steinselja, oregano, paprika)

Öllu blandað vel saman og mótaðar meðalstórar bollur (eða meira eins og buff, auðveldara að grilla). Penslið grillið vel með olíu. Grillað á háum hita þar til bollurnar eru eldaðar í gegn, sirka í 10 mínútur, snúið við þörfum. Það er auðvitað líka hægt að steikja bollurnar á pönnu fyrir þá sem vilja það frekar. Ég skar einnig niður kúrbít, penslaði með ólífuolíu, kryddaði með salti og pipar og grillaði.

Það er ofureinfalt að búa til gulrótar-tzatziki.

Uppskrift:

  • 4 dl. tyrknesk jógúrt (eða grísk jógúrt)
  • 200 gr. rifnar gulrætur
  • 2 hvítlauksgeirar saxaðir mjög smátt
  • salt og pipar

Öllu blandað saman, plastfilma sett yfir og sett inn í ísskáp í minnst korter áður en sósan er borin fram.

Grillaðar Harissa kjúklingabringur með kúskúsi, salati með bökuðum kokteiltómötum og myntujógúrtsósu


Harissa er afar ljúffengt kryddmauk upprunnið frá Norður Afríku. Það er búið til meðal annars úr chili, hvítlauk, cumin fræjum, kúmen fræjum, fennel fræjum, kóríander fræjum, grilluðum paprikum og ólífuolíu. Það kunn vera best heimatilbúið en ég á eftir að prófa það. Harissa er hægt að nota á margskonar hátt. Til dæmis út í súpur, sem kryddmauk á kjöt, í sósur, í pottrétti eða út í kúskús. Ég hef fengið Harissa maukið í Hagkaup og Nettó en það fæst örugglega víðar. Hér bjó ég til dásamlega góðan grillsósu fyrir kjúkling úr maukinu, mæli með þessu! 🙂

Grillaðar Harissa kjúklingabringur

  • 6 kjúklingabringur
  • 2/3 krukka Harissa
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 2 hvitlauksrif, hökkuð smátt
  • 1 msk. ólífuolía

Blandið saman hráefnunum og hellið yfir kjúklingabringurnar. Veltið þeim vel upp úr sósunni og geymið í kæli. Því lengur því betra en yfirleitt liggur manni á (allavega mér!) þannig að 10-15 mínútur duga alveg! 🙂 Grillið svo á útigrilli þar til bringurnar eru tilbúnar. Einnig hægt að setja bringurnar inn í ofn í eldföstu móti því þá nýtist sósan enn betur þar sem að sósan verður eftir á botni mótsins. Hitið þá við 200 gráður í 30-35 mínútur eða þar til bringurnar eru tilbúnar.

Kúskús

Ég kaupi oft hreint kúskús, það er án krydds. Ég elda þá kúskúsið eftir leiðbeiningum á pakkanum en í stað þess að bæta við smjöri í lok eldunartímans eins og sagt er til um þá nota ég kryddolíu af fetaosti, helli vænni bunu af henni út i kúskúsið og hræri. Þannig fær kúskúsið bæði olíu og krydd.

Salat með bökuðum kokteiltómötum

  • 1 askja kokteiltómatar
  • 2 msk. Harissa
  • 1 msk. ólífuolía
  • 1 msk. balsamedik
  • maldon salt og pipar

Hitið bakarofn í 80 gráður. Setjið tómatana í lítið eldfast mót. Blandið Harissa, ólífuolíu, balsamedik saman, hellið yfir tómatana og veltið þeim vel upp úr blöndunni. Kryddið með salti og pipar. Setjið í ofn í 35-40 mínútur.

Blandið heitum tómötunum saman við blandað salat, klettasalat og fetaost.

Harissa er frekar bragðsterkt en samt ekki of, börnin eru til dæmis mjög hrifin af þessum rétti. En það er afar gott og eiginlega nauðsynlegt að bera fram með réttinum milda og frískandi myntujógúrtsósu en uppskrift af henni er að finna hér (gleymdist að setja sósuna á diskinn í myndartökunni!). Með þessu bar ég einnig fram grillaða sveppi á teini. Mæli alveg með þessum rétti! 🙂

Tvenns konar jógúrtsósur


Það er hægt að gera margskonar góðar jógúrtsósur en þær henta sérstaklega vel með grilluðum mat, til dæmis með fiski, kjöti og grænmeti. Ég nota helst gríska jógúrt eða tyrkneska jógúrt en hægt er að fá hina síðarnefndu í versluninni Tyrkneskur bazar, Síðumúla 17. Hér að neðan gef ég uppskriftir af afbrigði af tzatziki sósu annars vegar og myntusósu hins vegar.

Tzatziki sósa með engifer

  • 350 gr. grísk eða tyrknesk jógúrt
  • 1 agúrka
  • 2-3 hvitlauksrif, söxuð mjög smátt eða pressuð
  • 2 msk. engifer, rifið smátt
  • 1 msk. ólífuolía
  • nýmalaður pipar
  • salt

Skerið agúrkuna í tvennt og hreinsið fræin innan úr henni og rífið hana síðan niður á grófustu hlið rifjárnsins. Blandað saman við grísku jógúrtina ásamt hvítlauk, engifer og ólífuolíu. Saltið, piprið og setjið sósuna í ísskáp áður en hún er borin fram með til dæmis kjúklingi, kjöti eða fiski. Hentar sérstaklega vel með grilluðum mat.




Myntujógúrtsósa

  • 350 gr. grísk eða tyrknesk jógúrt
  • 1 gott búnt af ferskri myntu, söxuð smátt
  • 1 msk. sítrónusafi
  • salt og nýmalaður pipar

Öllu blandað saman og kælt í ísskáp. Sósan er góð með margskonar réttum, til dæmis kjúklingi og fiski og á vel við grillaðan mat og kryddsterkan. Hér er svo enn ein útgáfan af tzatziki sósu en hún er með gulrótum.