Mig grunar að páskaeggin séu að klárast á íslenskum heimilum og súkkulaðifráhvörf yfirvofandi því vinsælasta uppskriftin á blogginu mínu í dag er ómótstæðilega súkkulaðikakan með Pippkaramellukreminu! Þessi kaka hefur nú náð því afreki að vera deilt meira en þúsund sinnum á Facebook. Bara þúsund deilingar í viðbót og þá hefur hún náð Snickerskökunni! 🙂 Á þeim tæpu tveimur mánuðum sem liðnir eru síðan ég setti Snickerskökuna hingað inn þá hefur hún daglega verið ein mest sótta uppskriftin hér á blogginu. Ég verð þó að mæla líka með súkkulaðikökunni með Pippkaramellukreminu sem er í miklu uppáhaldi hjá okkur öllum í fjölskyldunni, þetta er einstaklega fljótleg og einföld kaka. Hún er dásamleg þegar hún er heit og nýbökuð með rjóma eða ís en er alls ekki síðri daginn eftir, þá er hún ákaflega bragðgóð og með seigri karamelluáferð.
En ég kom ekki hingað inn til að tala um súkkulaði heldur til þess að setja inn frábæra kjötbollu uppskrift! Þessar kjötbollur eru með eplum og beikoni sem gefur þeim svo einstaklega gott og frísklegt bragð. Ég veit eiginlega ekki af hverju mér datt þetta ekki í hug fyrr! Salta og stökka beikonið á móti sæta eplabragðinu – algjör snilld bundin saman í bragðgóðum kjötbollum. Meðlætið var líka svo gott, steikt epli og jógúrtsósa með fetaosti. Þessi sósa gæti ekki verið einfaldari og betri, ég held að það hafi tekið mig innan við tvær mínútur að hræra saman sósuna og hún passaði einstaklega vel með kjötbollunum. Þetta er sannarlega réttur sem ég mun elda reglulega héðan í frá.
Uppskrift f. ca 3-4
- 600 g nautahakk
- 1 egg
- ca 140 g beikon
- ca 4 stór græn epli
- 1/2 lítill laukur
- salt og pipar (ég notaði vel af pipar, minna af salti því beikonið er salt)
- gott krydd (ég notaði Best á allt)
- 1 tsk nautakraftur
- smjör til steikingar
Beikonið er skorið í bita og steikt á pönnu þar til það er orðið stökkt, þá er það tekið af pönnunni og látið renna af því á eldhúspappír. 1 epli er afhýtt og rifið gróft. Laukurinn er saxaður mjög smátt. Rifna eplinu, beikoninu, lauknum, egginu og nautakraftinum er blandað vel saman við nautahakkið og kryddað vel. Því næst eru mótaðar bollur úr hakkinu og þær steiktar á pönnu þar til þær eru eldaðar í gegn. Bollurnar eru því næst veiddar af pönnunni (ekki þvo pönnuna) og þeim haldið heitum (t.d. undir álpappír). Restin af eplunum eru afhýdd og þau svo skorin í báta. Eplabátarnir eru svo steiktir á sömu pönnu og bollurnar voru steiktar á, við meðalhita í nokkrar mínútur, þar til þeir eru orðnir mjúkir. Kjötbollurnar eru bornar fram með steiktu eplabátunum, ofnbökuðum kartöflum, jógúrtsósu með fetaosti og fersku salati.
Jógúrtsósa með fetaosti:
- 2 dl grísk jógúrt
- 1 hvítlauksrif, pressað
- ca. 100 g fetaostur (ekki í olíu)
- örfáir dropar Tabasco sósa