Það er búið að vera svo mikið að gera hjá mér undanfarna daga að ég hef lítið getað sinnt blogginu. Eldhússögur hafa þó lifað sínu eigin lífi á meðan. Í dag kom uppskrift af blogginu í fermingarblaði Fréttablaðsins. Ég gaf uppskrift af kirsuberjakökunni góðu sem er líka hægt er að finna hér. Hér að neðan er alvöru ljósmyndari að störfum! 🙂
Að auki er bloggið komið í útrás norður í land! 🙂 Eldhússögur eru komnar með fastan uppskriftadálk í N4 dagskrána sem gefin er út vikulega. Fyrsta uppskriftin birtist í blaðinu sem kom út í síðustu viku. En svo ég snúi mér að uppskrift dagsins. Í vikunni bjó ég til þessi girnilegu pönnubuff. Smjörið var ekki sparað í þessari uppskrift en það er nú bara hollt!
Uppskrift f. 4
- 125 g smjör, við stofuhita
- 2 skarlottulaukar, saxaðir smátt
- ca 30 g steinselja, söxuð smátt
- 1 hvítlauksrif, saxað smátt
- 600 g nautahakk
- 1 lítill laukur, saxaður smátt
- 2 egg
- 1 dl rjómi (eða mjólk)
- ½ msk kartöflumjöl
- ½ dl brauðmylsna
- salt & pipar
- annað gott krydd
Rjóma, kartöflumjöli og brauðmylsnu er blandað saman í skál og látið þykkna í ca. 10 mínútur. Skarlottulauknum og steinseljunni er blandað við smjörið og sett í ísskáp. Þá er laukurinn steiktur á pönnu þar til hann verður mjúkur og honum síðan blandað saman við hakkið ásamt eggjunum og brauðmylsnublöndunni. Kryddað vel með salti, pipar og öðru góðu kryddi sem hugurinn girnist. Ég notaði blöndu af ítölskum kryddum (steinselja, basilika, timjan og fleiru). Þegar allt hefur blandast vel saman er mótuð bolla úr hakkinu sem flött er út og dálítið af steinseljusmjörinu sett inn i hakkið. Buffinu er þá lokað vel svo að smjörið renni ekki út við steikinguna. Þá eru bollurnar steiktar á pönnu þar til þær eru eldaðar í gegn. Ég bar þær fram með hrísgrjónum, fersku brokkolí og heimagerðri brúnni sósu.
En girnó, vantaði einmitt góða uppskrift með hakki. En væriru nokkuð til í að deila uppskriftinni að brúnu sósunni ? Þó ég kunni margt í eldhúsinu þá hef ég aldrei gert svona brúna sósu.. 😉
Takk..takk, frábær síða 🙂
Ég tek undir með síðasta ræðumanni, brúna sósan væri snilld!