Mangókjúklingur


MangókjúklingurÉg hvet ykkur sem hafið áhuga á kökum, tertum og eftirréttum (hver hefur það ekki?) að skoða Fréttatímann vel í fyrramálið. Þar munu birtast nokkrar uppskriftir frá mér sem ég get lofað að valda sælkerum ekki vonbrigðum! 🙂

Í dag ætla ég hins vegar að setja inn klassíska uppskrift, kjúkling og mango chutney! Það mætti kannski halda að borið væri í bakkafullan lækinn með slíkri uppskrift en ég fæ bara ekki nóg af þessari samsetningu, kjúklingur og mangó er svo ákaflega gott saman. Þessi uppskrift hefur verið að flakka um á mörgum sænskum vefsíðum í mismunandi útgáfum og hér er mín útgáfa.

Uppskrift:

  • 700 g kjúklingalundir frá Rose Poultry, skornar í bita
  • smjör og/eða olía til steikingar
  • 1 kjúklingateningur
  • 2 dl vatn
  • 0,5 msk sojasósa
  • 1/2 – 1 tsk sambal oelek (chilimauk)
  • 1 púrrlaukur, skorinn í strimla
  • 1 rauð paprika, skorin í strimla
  • 3 msk mango chutney
  • 1 dós 36% sýrður rjómi
  • 1 lítið ferskt mangó, skorið í bita
  • salt og pipar

Kjúklingurinn saltaður og pipraður og því næst steiktur á pönnu upp úr smjöri og/eða olíu. Vatni, kjúklingateningi, sojasósu og sambal oelek er þá bætt út á pönnuna og látið malla í 10 -15 mínútur (helst undir loki).  Því næst er sýrðum rjóma bætt út á pönnuna ásamt púrrlauk og papriku, látið malla í nokkrar mínútur til viðbótar. Að lokum er mangóbitunum bætt út í. Borið fram með hrísgrjónum, fersku salati og góðu brauði. 

Mangókjúklingur

Ofnbakaður lax með mangósósu


Ofnbakaður lax með mangósósu

Það er með eindæmum hversu annasöm aðventan er, það er svo margt að gera og margt um að vera. Þetta er skemmtilegur og viðburðaríkur tími en vissulega mætti sólarhringurinn vera aðeins lengri. Í vikunni sem leið var margt um að vera bæði í vinnunni minni og utan hennar. Ég hélt til dæmis  jólasaumaklúbb fyrir „sænska“ saumaklúbbinn minn sem er alltaf tilhlökkunarefni, pakkaleikurinn okkar er alltaf sérstaklega spennandi! Ég bauð stelpunum upp á ekta jólamat, kalkúnabringur með öllu tilheyrandi meðlæti. Alexander átti einnig afmæli í vikunni og ég hélt matarboð í tilefni þess. Sökum anna á öllum vígstöðum ákvað ég að hafa matarboðið eins einfalt og hugsast gæti. Satt best að segja þurfti ég að taka á honum stóra mínum varðandi einfaldleikann. Ef ég býð fólki í mat þá finnst mér mikilvægt að allt sé spikk og span og er kannski ekki alltaf með einfaldasta matinn. Mér varð hins vegar hugsað til Jóhönnu Ingu dóttur minnar þegar hún var svona sex ára. Þá var ég í loftköstum að undirbúa matarboð, lagaði til og þreif milli þess sem ég undirbjó matinn. Jóhanna var fremur hissa á þessum látum í mér og spurði hvers vegna ég væri á svona miklu spani að laga til. Ég svaraði því til að það væru að koma gestir. Þá sagði hún: „Mamma, það verður hvort sem er drasl þegar gestirnir fara, það er mikið sniðugra að laga bara til eftir á!“ Svo bætti hún við: „þú skalt bara hafa góða stemmningu í matarboðinu, lækka ljósin, setja á rólega tónlist og kveikja á fullt af kertum, þá kemur svo góð stemmning!“ Þarna hitti sex ára dóttir mín naglann á höfuðið og það kemur örugglega ekki þeim á óvart sem þekkja þennan snilling.

Ég bað Alexander að skoða bloggið mitt og koma með óskir mat. Hann kom bara með eina ósk og hún var um meðlæti, mangósósuna sem hann dýrkar – honum fannst aukaatriði hvað væri með mangósósunni! Þetta hentaði mér fullkomlega, ég valdi það sem var fljótlegt en örugglega gómsætt, ofnbakaðan lax.

IMG_1978

Uppskrift f. ca 3

  • 1 flak lax (ca 800 g)
  • salt og pipar
  • 2-3 msk mango chutney
  • 2-3 msk sesamfræ

Ofn hitaður í 180 gráður. Laxinn er lagður í eldfast mót og hann kryddaður með salti og pipar. Því næst er mango chutney smurt á laxinn og sesamfræunum stráð yfir. Bakað í ofni í ca 20 mínútur, fer eftir þykkt laxins, eða þar til hann er eldaður í gegn. Borið fram með ofnbökuðum kartöflum og sætum kartöflum, fersku salati og mangósósu.

IMG_1992

Mangósósa:

  • 2 dl grísk jógúrt
  • 2 dl mangó (frosið – sem búið er að afþýða eða ferskt)
  • 2-3 msk mango chutney
  • salt og pipar

Öllu hráefninu blandað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél.

IMG_1990

Kjúklingur með sætum kartöflum og mangósósu


IMG_7576Ég las langt fram yfir háttatíma Jóhönnu í kvöld og er loksins sest núna fyrir framan tölvuna. Við vorum að klára bókina Steinskrípin, hún var svo spennandi á endasprettinum að við gátum ekki hætt! Frábær bók, bæði spennandi og frumleg, við mæðgur mælum með henni!

Í gærkvöldi bjó ég til rétt sem sló í gegn hjá allri fjölskyldunni, „geðveikt gott“ var samdóma álit okkar allra. Þar sem ég bý alltaf til svo mikinn mat þá gerði ég tvær útfærslur af réttinum í gær, í sitt hvoru eldfasta mótinu, til að prófa mig áfram. Ég tók bara myndir af fyrri útfærslunni en gef uppskrift af þeirri seinni því mér fannst hún aðeins betri. Þá blandaði ég jógúrt við mangó chutney sósuna.

Uppskrift f. 6

  • 2 sætar kartöflur (ca. 400 g stykkið)
  • 6 kjúklingabringur
  • ólífuolía
  • 1 dós fetaostur í olíu
  • ca 3/4 dl balsamedik
  • 4-5 hvítlauksrif
  • 3-4 cm engiferrót
  • 100 gr spínat
  • 2 dl mango chutney
  • 2 dl grísk jógúrt (eða hrein jógúrt)
  • salt og pipar
  • fræblanda (t.d. hörfræ, furuhnetur, graskersfræ eða önnur tilbúin fræblanda)

IMG_7565Olíunni af fetaostinum blandað saman við balsamedikið og kjúklingabringunum velt vel upp úr blöndunni. Bringurnar látnar liggja í blöndunni á meðan sætu kartöflurnar eru útbúnar, helst lengur ef tími gefst. Bakarofn hitaður í 200 gráður. Sætar kartöflur afhýddar og skornar í bita, þær lagðar stórt eldfast mót eða ofnskúffu og góðri skvettu af ólífuolíu blandað saman við. Saltað og piprað. Sett inn í ofn við 200 gráður í ca. 20 mínútur. Á meðan eru kjúklingabringurnar steiktar á pönnu. Reynið að veiða sem mest af vökvanum sem bringurnar liggja í, á pönnuna með þeim. Bringurnar steiktar nokkrar mínútur á báðum hliðum þar til þær eru hálfeldaðar. Eldfasta mótið með sætu kartöflunum er tekið út úr ofninum eftir ca. 20-25 mínútur, hvítlaukur og engifer rifið (með rifjárni eða í matvinnsluvél) eða saxað smátt og því blandað vel saman við kartöflurnar ásamt spínatinu. Kjúklingabringurnar lagðar ofan á kartöflunnar. Jógúrt og mangó chutney er hrært saman og dreift yfir bringurnar. Því næst er fetaostinum dreift yfir ásamt fræblöndunni. Allt sett aftur inn í ofn í ca. 15 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Borið fram með mangósósu og fersku salati.

IMG_7578

Mangósósa:

  • 2 dl grísk jógúrt
  • 2 dl mangó (frosið eða ferskt)
  • 3 msk mango chutney
  • safi úr 1/2 límónu (lime)
  • salt og pipar

Öllu hráefninu blandað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Gott að smakka sósuna til með meiri límónusafa, mangó, mangó chutney og/eða salti og pipar eftir þörfum.

Brieostabaka með mango chutney


Eitt kvöldið í vikunni fengum við góða gesti í kvöldkaffi. Ég vildi bjóða upp á osta en langaði í tilbreytingu frá venjulegum ostabakka. Ég fór að hugsa um þegar góðir ostar eru bakaðir í ofni með mango chutney og kasjúhnetum og datt í hug hvort að það væri ekki hægt að gera meira úr því, einhverskonar böku. Ég fór á netið og fann ekkert á íslenskum vefsíðum. En þegar ég fór að skoða sænskar vefsíður kom í ljós að ég var ekkert að finna upp hjólið! Það voru til nokkrar útgáfur af bökum með brie og mango chutney enda eru Svíar mikið fyrir allskonar bökur. Ég skoðaði nokkrar uppskriftir og týndi saman það mér leist vel á úr hverri uppskrift og útkoman var þessi baka sem var afar ljúffeng. Það er hægt bera fram með bökunni parmaskinku sem er örugglega afar gott en þar sem gestirnir okkar eru grænmetisætur þá gerði ég það ekki. Þessa böku er líka hægt að bera fram sem forrétt. Þá er hægt að setja bökusneið og salat á forréttadiska.

Uppskrift

Botn:

  • 3 dl hveiti
  • 125 gr smjör (kalt, skorið niður í litla bita)
  • 1 msk kalt vatn
  • 1/2 dl sólblómafræ (má sleppa)

Fylling:

  • 400g brie ostur (ég notaði einn brie ost og einn gullost)
  • U.þ.b. 1.5 dl mango chutney
  • 3 egg
  • 2 1/2 dl rjómi (má nota matargerðarjóma)
  • salt og pipar
Hveiti og smjör sett í matvinnsluvél þar til það verður að deigi. Vatni bætt við og hrært í smástund í viðbót. Sólblómafræjum bætt við í lokin, gott að láta þau ekki myljast of mikið niður. Deginu þrýst niður á botninn í  bökuformi og upp með hliðunum, kælt í 30 mínútur. Botninn bakaður við 225 gráður í 10 mínútur. Brie ostur skorinn í sneiðar og raðað ofan á botninn. Helmingurinn af mango chutney smurt ofan á ostinn (ég mældi ekki magnið af mango chutneyið, smurði því bara vel á!). Eggjum, rjóma, salt og pipar pískað saman. Helmingnum af eggjahrærunni helt ofan á bökufyllinguna. Afgangnum af brie osti raðað yfir ásamt mango chutney og að lokum er restinni af eggjablöndunni hellt yfir. Lækkið ofnin niður í 200 gráður og bakið í 30-40 mínútur eða þar til bakan er tilbúin. Setjið álpappír yfir bökuna ef hún dökknar of mikið.

Balsamedik-síróp
  • 2 dl balsamedik
  • 1 msk hunang
  • 1 hvítlauksrif

Hráefninu blandað saman í lítinn pott og látið krauma þar til blandan hefur soðið niður um helming og hefur þykknað. Hvítlauksrifið fjarlægt, blandan kæld, hellt yfir bökuna.