Mangókjúklingur


MangókjúklingurÉg hvet ykkur sem hafið áhuga á kökum, tertum og eftirréttum (hver hefur það ekki?) að skoða Fréttatímann vel í fyrramálið. Þar munu birtast nokkrar uppskriftir frá mér sem ég get lofað að valda sælkerum ekki vonbrigðum! 🙂

Í dag ætla ég hins vegar að setja inn klassíska uppskrift, kjúkling og mango chutney! Það mætti kannski halda að borið væri í bakkafullan lækinn með slíkri uppskrift en ég fæ bara ekki nóg af þessari samsetningu, kjúklingur og mangó er svo ákaflega gott saman. Þessi uppskrift hefur verið að flakka um á mörgum sænskum vefsíðum í mismunandi útgáfum og hér er mín útgáfa.

Uppskrift:

  • 700 g kjúklingalundir frá Rose Poultry, skornar í bita
  • smjör og/eða olía til steikingar
  • 1 kjúklingateningur
  • 2 dl vatn
  • 0,5 msk sojasósa
  • 1/2 – 1 tsk sambal oelek (chilimauk)
  • 1 púrrlaukur, skorinn í strimla
  • 1 rauð paprika, skorin í strimla
  • 3 msk mango chutney
  • 1 dós 36% sýrður rjómi
  • 1 lítið ferskt mangó, skorið í bita
  • salt og pipar

Kjúklingurinn saltaður og pipraður og því næst steiktur á pönnu upp úr smjöri og/eða olíu. Vatni, kjúklingateningi, sojasósu og sambal oelek er þá bætt út á pönnuna og látið malla í 10 -15 mínútur (helst undir loki).  Því næst er sýrðum rjóma bætt út á pönnuna ásamt púrrlauk og papriku, látið malla í nokkrar mínútur til viðbótar. Að lokum er mangóbitunum bætt út í. Borið fram með hrísgrjónum, fersku salati og góðu brauði. 

Mangókjúklingur

Kjúklingapottréttur með mango chutney


Nú fer sumarfríið að líða undir lok, mér finnst alltaf jafn ótrúlegt hvað sumarið líður hratt! Við höfum gert afar margt skemmtilegt í sumarfríinu. Meðal annars eyddum við einni viku á Patreksfirði með stórfjölskyldunni, foreldrum mínum, ömmu og afa, bróður mínum og fjölskyldu hans ásamt Ingu frænku. Þar fengum við afnot af stóru, frábæru húsi og áttum afar góða viku saman. Fórum að Látrabjargi, Rauðasandi, í Selárdal og heimsóttum firðina í kringum Patró. Ég fékk það verkefni að elda á kvöldin ofan í okkur tólf sem mér fannst mjög skemmtilegt! Frábært að geta einbeitt sér að því að elda og þurfa aldrei að vaska upp né ganga frá! 🙂 Ég var löngu áður búin að setja niður matseðilinn og verslaði sem betur fer allt hráefnið í bænum en matvöruverðið á Patró var hræðilega hátt! Að auki var hvorki hægt að fá þar ferskan fisk né lambakjöt. Mér finnst alltaf jafn skrítið þegar ekki er hægt að kaupa ferskan fisk í útgerðabæjum! Á matseðlinum þessa viku var lasagna, lambalæri, fiskisúpa, lambafille, grillaður lax, hamborgarar og svo þessi kjúklingapottréttur. Ég hafði aldrei gert hann áður en rétturinn sló í gegn hjá öllum aldurshópum, mæli virkilega með honum!

Uppskrift f. 4-5

  • 800 gr. kjúklingabringur kryddaðar með t.d. Best á allt, Töfrakryddi eða öðru góðu kjúklingakryddi (líka hægt að nota tilbúinn grillaðan kjúkling).
  • olía og smjör til steikingar
  • 1 paprika, skorin í bita
  • 1 púrrlaukur, skorin í sneiðar
  • 1 laukur, skorin í bita
  • 2 hvítlauksrif, hökkuð smátt
  • 2 græn epli, skræld og skorin í bita
  • lítil dós ananas, skorin í bita
  • 250 gr sveppir, skornir í sneiðar
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 2 dl rjómi
  • 1 dós kókosmjólk
  • 1.5 dl mangó chutney
  • 2 msk tómatpúrra
  • 1 tsk sambal oelek (eða annað chilimauk)
  • 2-3 tsk karrý
  • 1/2 tsk chilipipar
  • 1 tsk  paprikukrydd
  • salt og pipar
  • 4-5 dl hrísgrjón
  • rifinn ostur
  • kokteiltómatar

Aðferð

Hrísgrjónin soðin og þau látin kólna aðeins. Kjúklingabringur skornar í bita, steikar á pönnu og kryddaðar með kjúklingakryddi, lagðar til hliðar. Ef notaður er tilbúinn grillaður kjúklingur er kjötið hreinsað af kjúklingnum og það skorið í bita.

Smjör brætt í stórum potti, lauk, hvítlauk, púrrlauk, sveppum, eplum og papriku bætt út í ásamt karrý og steikt þar til grænmetið hefur mýkst.

Rjóma, sýrðum rjóma, kókosmjólk, sambal oelek, tómatpúrru, mangó chutney, ananas, paprikukryddi, chilipipar, paprikukryddi, salti og pipar bætt út í og látið krauma á vægum hita í nokkrar mínútur. Bætið kjúklingnum út í og látið krauma áfram í nokkrar mínútur. Smakkið til og bætið við kryddi ef með þarf. Hellið hrísgrjónum í eldfast mót og dreifið úr þeim, hellið kjúklingasósunni yfir. Dreifið yfir rifnum osti og kokteiltómötum. Hitið í ofni við 200 gráður í ca 15 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað og fengið fallegan lit. Berið fram með salati og góðu brauði.