Kjúklingapottréttur með mango chutney


Nú fer sumarfríið að líða undir lok, mér finnst alltaf jafn ótrúlegt hvað sumarið líður hratt! Við höfum gert afar margt skemmtilegt í sumarfríinu. Meðal annars eyddum við einni viku á Patreksfirði með stórfjölskyldunni, foreldrum mínum, ömmu og afa, bróður mínum og fjölskyldu hans ásamt Ingu frænku. Þar fengum við afnot af stóru, frábæru húsi og áttum afar góða viku saman. Fórum að Látrabjargi, Rauðasandi, í Selárdal og heimsóttum firðina í kringum Patró. Ég fékk það verkefni að elda á kvöldin ofan í okkur tólf sem mér fannst mjög skemmtilegt! Frábært að geta einbeitt sér að því að elda og þurfa aldrei að vaska upp né ganga frá! 🙂 Ég var löngu áður búin að setja niður matseðilinn og verslaði sem betur fer allt hráefnið í bænum en matvöruverðið á Patró var hræðilega hátt! Að auki var hvorki hægt að fá þar ferskan fisk né lambakjöt. Mér finnst alltaf jafn skrítið þegar ekki er hægt að kaupa ferskan fisk í útgerðabæjum! Á matseðlinum þessa viku var lasagna, lambalæri, fiskisúpa, lambafille, grillaður lax, hamborgarar og svo þessi kjúklingapottréttur. Ég hafði aldrei gert hann áður en rétturinn sló í gegn hjá öllum aldurshópum, mæli virkilega með honum!

Uppskrift f. 4-5

  • 800 gr. kjúklingabringur kryddaðar með t.d. Best á allt, Töfrakryddi eða öðru góðu kjúklingakryddi (líka hægt að nota tilbúinn grillaðan kjúkling).
  • olía og smjör til steikingar
  • 1 paprika, skorin í bita
  • 1 púrrlaukur, skorin í sneiðar
  • 1 laukur, skorin í bita
  • 2 hvítlauksrif, hökkuð smátt
  • 2 græn epli, skræld og skorin í bita
  • lítil dós ananas, skorin í bita
  • 250 gr sveppir, skornir í sneiðar
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 2 dl rjómi
  • 1 dós kókosmjólk
  • 1.5 dl mangó chutney
  • 2 msk tómatpúrra
  • 1 tsk sambal oelek (eða annað chilimauk)
  • 2-3 tsk karrý
  • 1/2 tsk chilipipar
  • 1 tsk  paprikukrydd
  • salt og pipar
  • 4-5 dl hrísgrjón
  • rifinn ostur
  • kokteiltómatar

Aðferð

Hrísgrjónin soðin og þau látin kólna aðeins. Kjúklingabringur skornar í bita, steikar á pönnu og kryddaðar með kjúklingakryddi, lagðar til hliðar. Ef notaður er tilbúinn grillaður kjúklingur er kjötið hreinsað af kjúklingnum og það skorið í bita.

Smjör brætt í stórum potti, lauk, hvítlauk, púrrlauk, sveppum, eplum og papriku bætt út í ásamt karrý og steikt þar til grænmetið hefur mýkst.

Rjóma, sýrðum rjóma, kókosmjólk, sambal oelek, tómatpúrru, mangó chutney, ananas, paprikukryddi, chilipipar, paprikukryddi, salti og pipar bætt út í og látið krauma á vægum hita í nokkrar mínútur. Bætið kjúklingnum út í og látið krauma áfram í nokkrar mínútur. Smakkið til og bætið við kryddi ef með þarf. Hellið hrísgrjónum í eldfast mót og dreifið úr þeim, hellið kjúklingasósunni yfir. Dreifið yfir rifnum osti og kokteiltómötum. Hitið í ofni við 200 gráður í ca 15 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað og fengið fallegan lit. Berið fram með salati og góðu brauði.

12 hugrenningar um “Kjúklingapottréttur með mango chutney

  1. Ég elska morgna þegar það er nýtt blogg komið hjá þér sem að ég get lesið yfir morgunkaffinu 🙂 Þvílík og önnur eins snilld að maður geti svo bara pinnað beint inná pinterest og safnað þar saman uppskriftum sem manni langar að prufa, eins og þessa 🙂 Ég bakaði brauð í fyrsta skiptið í bústað um helgina sem að ég fékk hér á blogginu og það sló alveg hreint í gegn, takk fyrir mig 🙂

    • Gaman að heyra, verði þér að góðu! 🙂 Ég hef sett inn færslu á hverjum morgni í tvo mánuði núna (spurning hversu lengi ég endist í því!). Sjálfri finnst mér nefnilega langskemmtilegast að fylgjast með bloggum sem eru uppfærð daglega.

  2. Bakvísun: Skinkuhorn | Eldhússögur

  3. Eldaði þennan rétt í kvöld fyrir elsta afmælisbarnið, 23ja ára og féll hann í góðan jarðveg. Við vorum 8, þ.e. þrír fullorðnir og fimm börn, ég tvöfaldaði ekki uppskriftina en bætti við 400 g af kjúklingi og smá af kókosmjólk og rjóma og einu epli, annað hafði ég eins og í uppskriftinni. Þetta fyllti tvö stór eldföst mót og annað stóð eftir, alveg heilt. Yngstu börnin borðuðu ekki mjög mikið enda maturinn frekar seint á ferð og þessi 12 ára var að jafna sig eftir veikindi og hafði ekki lyst. Yngsta barnið á staðnum, 18 mánaða borðaði tæpa þrjá diska og fékk með sér nesti heim. Stór uppskrift….myndi ég segja. Ég sauð 6-7 dl af hrísgrjónum og náði að botnfylla tvö mót með góðu móti.

    Ein spurning er einhver munur á kokteiltómötum og kirsuberjatómötum??

    • Sæl Valdís! Gaman að heyra hvernig þú gerðir réttinn! Já, líklega er mér óhætt að skrifa að þessi uppskrift sé fyrir 4-5! 🙂 Kokteiltómatar eru aðeins stærri en kirsuberjatómatar en það er í raun alveg saman hvor tegundin er notuð.

  4. Bauð vinum upp á þennan rétt um helgina og var hann dásamaður af öllum. Uppskriftin var svo stór að hann dugði aftur kvöldið eftir. Mæli með þessum eins og svo mörgum öðrum.

  5. Var að elda þennan dásamlega kjúklingarétt:) Og takk fyrir frábærar uppskriftir ,ætla að prófa kalkúnaveisluna þína um páskana .Þessi síða þín er orðin eldhúsbiblían mín 😉
    kveðja
    Bjarney

  6. Það var ótrúlega bíræfið að taka þennan rétt í stað hefðbundna lambalærisins og rjómasósunnar í kvöldverði samansafnaðrar fjölskyldunnar sem lungann úr árinu er dreifð um höfin sjö. Að auki er það örugg leið til að fæla mig frá ef það eru fleiri en 5 innihaldsatriði. Þetta var 25 sm langur listi þegar ég var búin að stækka letrið hæfilega fyrir verslunarferðina. Við vorum 8 svangir munnar og ég vildi gjarna eiga eitt fat til að gefa fjölskyldu sem á ástvin á gjörgæslu. Ég stækkaði uppskriftina með menntaskólastærðfræði fyrir 10 manns (e-r sagði hér að þetta væri svo saðsamur réttur svo ég lét það duga). Þetta þurfti ég að elda smátt og smátt á stóru pönnunni og safna öllu að lokum í stærsta svarta steikarpottinn sem var þá fleytifullur (án grjónanna).
    Allir voru stórhrifnir og fengu sér oft á diskinn. Tengdó fór heim með 2 máltíðir, lítið fat fór í frystinn, stórt fat fer til gjörgæslufjölskyldunnar og við eigum nóg fyrir okkur í tvær máltíðir (4-5 manns). Þessi réttur er algjör Winner. Hubby sagði: Þetta verðum við að hafa aftur. Það er ekki nóg að koma með eitthvað svona gott og svo fær maður það aldrei aftur!
    Takk fyrir okkur.

    P.s. það var líka mjög gaman að elda þetta þótt uppskrift f. 4 hefði líklega verið skemmtilegri.

    • Sæl Íris og kærar þakkir fyrir langa og einstaklega skemmtilega kveðju! 🙂 Mikið er ég ánægð með að þú tókst áhættuna að prófa þennan rétt fyrir stórfjölskylduna, gekkst út úr lambalæris-þægindarammanum og lést ekki langan hráefnislista fæla þig frá! 😉 Enn skemmtilegra er að heyra að rétturinn hafi heppnast svona vel og satt alla þessa svöngu maga! Vonandi ræðstu í fleiri rétti héðan af síðunni! Góðar kveðjur, Dröfn

  7. Við familían erum með „tilrauna-eldhús“ annan hvern fimmtudag, þar sem eldaður er einhver réttur sem aldrei hefur verið eldaður áður – svo er kosið um hvort hann fer í „geyma eða gleyma“ 😉

    Skemmst frá því að segja að ég eldaði þennann rétt í gærkvöldi og hann fékk fullt hús greiddra atkvæða – takk kærlega fyrir skemmtilega síðu & girnilegar uppskriftir

    Kveðja
    Sigrún

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.