Skinkuhorn


Þegar við vorum fyrir vestan bakaði ég skinkuhorn einn daginn og tók með í ferðalag á Rauðasand. Rauðisandur er dásamlegur staður, við vorum þarna í 18 stiga hita og sól. Tær sjór og ótrúleg sandströnd sem er umkringd af tignarlegum fjallgarði gerir þetta að einum fallegasta stað landsins. Allur matur bragðast sérstaklega vel úti í fallegu umhverfi! Ég pakkaði skinkuhornunum sjóðandi heitum í lokaða poka. Þannig héldust þau volg og safarík. Að þessu sinni notaði ég bara skinkumyrju inn í hornin, ég smyr frekar þykkt lag af henni. En það er hægt að nota skinkumyrju ásamt bæði skinku og rifnum osti inn í hornin til að gera þau sparilegri. Eins getur verið gott að blanda saman skinkumyrju og beikonosti.
Uppskrift:
 • 100 gr. smjör
 • 900 gr. hveiti
 • 60 gr. sykur
 • 1/2 tsk. salt
 • 1/2 lítri mjólk
 • 1 bréf þurrger (ca. 12 g)
 • 1 egg til að pensla hornin með (líka hægt að nota mjólk)

Fylling:

 • 2 pakkar skinkumyrja.

Aðferð:

Smjörið brætt og mjólkin sett saman við, blandan á að vera um 35°c heit. Blandið geri og sykri saman við, pískið létt saman. Látið standa í 10 mín. Hveiti bætt við og allt hnoðað saman þar til deigið er slétt og samfellt.  Látið deigið lyfta sér undir rökum klút í 45 mínútur. Deiginu skipt upp í nokkar minni einingar. Hver eining er flatt út í hring, smurð með skinkumyrju, skorin í geira (gott að nota pizzuhníf) og hverjum geira rúllað upp frá breiðari endanum. Hornunum raðað á bökunarplötu og þau pensluð með eggi  Það er gott að leyfa hornunum að lyfta sér í 15-20 mínútur áður en þau eru sett í ofninn. Hornin eru bökuð við 225 gráður í 8-10 mínútur eða þar til þau eru orðin gullinbrún.

34 hugrenningar um “Skinkuhorn

 1. er að spá í að gera svona og frysta svo ég verði minna stressuð fyrir væntanlegt barnaafmæli, ætli sé best að frysta fyrir eða eftir bökun?

  • Það er hægt að frysta óbakað gerbrauð. Hins vegar hef ég aldrei prófað það, bara lesið um það, þannig að ég þori varla að ráðleggja eitthvað sem ég hef ekki prófað sjálf. Þess vegna myndi ég frekar ráðleggja þér að baka skinkuhornin, láta þau kólna, pakka þeim svo vel inn og frysta. Svo getur þú hitað þau upp í afmælinu. Það er líka hægt að baka þau þar til þau eru næstum því tilbúin, láta þau kólna og frysta. Afþýða þau síðan fyrir afmælið og klára svo að baka þau þessar síðustu mínútur sem vantaði upp á, þá verða þau eins og nýbökuð. Gangi þér vel! 🙂

 2. Var að baka þessi dásamlegu horn, notaði bæði skinkusmyrju og beikonost setti líka smá klípu af rifnum pizzaosti í hvert horn og þau eru mjög góð – eiginlega þau bestu sem ég hef gert. Takk fyrir þessa fínu uppskrift

 3. Bakvísun: Maríukaka | Eldhússögur

 4. Bakvísun: Skinkuhorn (eldhussogur.com) | alltasinumstad

 5. Mjög góð skinkuhorn, ég prófaði að setja helming heilhveiti og kom það bara mjög vel út 🙂

 6. Klárlega bestu skinkuhorn sem ég hef bakað !! Takk fyrir að deila uppskriftinni ! 😀

 7. þú segir í uppskriftini að það eigi að setja einn pakka þurrger, er það eitt bréf ? eða geturu sagt mér hvað þarf mikið þurrger í grömmum 🙂

  • Þetta er rétt ábending hjá þér Selma! 🙂 Ég var eitthvað að hugsa um pressuger þegar ég skrifaði þetta. Ég er búin að laga þetta núna, það er sem sagt eitt venjulegt bréf af þurrgeri sem er oftast 12 grömm held ég.

 8. Ég skyldi manninn minn eftir með uppskriftina þín að skinkuhornum og allt hráefnið. Svo frábærar lýsingarnar að hann átti í engum vandræðum með að útbúa þessi líka dásamlegu skinkuhorn fyrir barnaafmæli í dag. Takk kærlega fyrir uppskriftina 😀

  • Frábært hjá honum! 🙂 Ég reyni að vanda mig þegar ég skrifa niður uppskriftirnar og aðferðir, gott að það skilar sér! 🙂 Takk fyrir góða kveðju! 🙂

 9. Takk fyrir þessa uppskrift. Datt allt í einu í hug að búa til skinkuhorn í fyrsta skipti á minni 40 ára ævi og þau tókust svona voða vel. En lengi vel fannst mér skinkuhorn ekkert voðalega góð en er sem betur fer búin að skipta um skoðun. Var virkilega ánægð með útkomuna. Á örugglega eftir að baka þetta aftur.

 10. Þessi uppskrift lítur alveg einstaklega vel út, hlakka til að prófa hana 🙂 Hvað koma mörg skinkuhorn úr þessari uppskrift?

 11. Bakvísun: Fermingarveisla | Eldhússögur

 12. Frábær uppskrift , ég er búin að nota hana þó nokkuð oft. Klikkar aldrei.
  Takk fyrir þetta 🙂

 13. Sæl, ég nota alltaf uppskriftina þína af skinkuhornum enda sú besta. Nú er komið að hinum árlega stórbakstri fyrir fótboltastelpurnar mínar það er víst mót um næstu helgi og þá er hringt í ömmu gömlu til að redda málunum. Mig langar að spyrja þig…ég er að lenda í því að það rennur að mér finnst of mikið af ostinum út úr hornunum ég hef yfirleitt notað skinkumyrju og rifin ost en ekki smurt hana á eins og þú gerir heldur sett slurk með skeið og stráð osti yfir. Er eitthvað eitt betra en annað ?? Eins hef ég reynt að passa uppá að loka þeim vel og penslað með eggi. Mér datt líka í hug hitinn á ofninum þú talar um 225 en ég baka þau á 200-210 og þá eflaust í lengri tíma. Hvað hefur reynst þér best ? Þetta á kannski að vera svona ..bara fullkomnunarárátta í mér. En takk fyrir þínar frábæru kökur og aðrar kræsingar ég þarf ekki lengur að opna mínar þreyttu matreiðslubækur þegar ég get flett upp í þér, finn alltaf eitthvað girnilegt. Kv, Ebba

  • Sæl og takk fyrir hrósið! 🙂 Ég hef alltaf notað þessa aðferð sem ég tala um í uppskriftinni þannig að ég hef ekkert viðmið svosem. En það rennur alltaf líka smá úr hornunum hjá mér eins og sést á myndunum. Ef maður kíkir á skinkuhornauppskriftina hjá Evu Laufeyju t.d. þá er hún með lægri hita og setur ostinn í hrúgu og mér sýnist á myndunum að það renni svipað mikið úr þeim og hjá þeim. Þannig að kannski er ekki hægt að koma í veg fyrir þetta nema með því að minnka ostmagnið en það vill maður nú ekki, þá verða þau ekki eins djúsí.

  • Sæl Ebba,
   Ég flet allt deigið út og sker í þríhyrninga – miklu fljótlegra 🙂
   Svo set ég Skinkumyrju í miðjuna og pakka henni vel inn og rúlla svo upp. Ekkert fer út úr skinkuhornunum. Mér finnst betra að nota Skinkumyrju þegar ég er að frysta þetta fyrir krakkana og þeir fara með þetta í nesti. Þá eru skinkuhornin óupphituð og betri með myrjunni 🙂

 14. Hæ hæ ég hef bakað skinkuhornin þín örugglega í 2 ár og er farin að setja pylsur í staðin fyrir skinkumyrju. Bý í Danmörku þar sem pylsuhorn eru algeng í nesti, afmæli og allt þar á milli. Takk fyrir góða uppskrift

 15. Takk fyrir uppskriftina. Ég er að baka þessi núna sennilega í hundraðasta skipti, en þetta er eina uppskrift í heiminum sem ég fylgi alveg í þaula. Ég held ég hafi aldrei nokkurn tíma þurft að fleygja afgangi af bakstrinum því þau klárast alltaf á nóinu – og ég slæ í gegn! 🙂 Bestu þakkir.

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.