Í dag er frábæra mamma mín sextug – til hamingju elsku mamma! 🙂 Í tilefni þess var mamma með brunch í gær fyrir nánustu vini og fjölskyldu.
Hér erum við mamma í dag og fyrir fjörtíu árum! 🙂
Tvær blómarósir í afmælinu, yngstu barnabörnin Bára Margrét 4 ára og Jóhanna Inga 8 ára.
Og dásamlega fallegar bóndarósir sem mamma fékk á afmælinu.
Ég útbjó þrennt á brunch borðið. Það voru eggja- og beikonmúffurnar sem ég setti inn uppskrift af í gær.
Auk þess sem ég gerði tvær tegundir af kökum. Kökurnar skar ég í litla bita sem henta vel á svona smáréttahlaðborð. Annars vegar gerði ég franska súkkulaðiköku með súkkulaðikremi. Skotheld uppskrift sem klikkar aldrei, þessa uppskrift er að finna hér. Uppskriftina gerði ég tvöfalda og þá smellpassaði hún í venjulega ofnskúffu og gaf 80 litla kökubita.
Þar sem súkkulaðikakan er fremur blaut er gott að setja hana í kæli í smá tíma áður en hún er skorin.
Með því að skera kökuna kalda verða bitarnir fallegri.
Það er líka gott að hafa í huga að láta jarðaberin eins seint og hægt er ofan á kökuna því jarðaber verða fljótt slepjuleg ofan á kökum og smita þá vökva út frá sér.
Hins vegar gerði ég köku sem mamma lét mig fá uppskrift að, Maríuköku. Þetta er ljúffeng kaka með pekanhnetum og karamellubráð. Ég gerði þessa uppskrift tvöfalda og þá passaði hún í ofnskúffu. Ég skar bitana aðeins stærri en af súkkulaðikökunni og fékk um það bil 55 bita.
Mamma útbjó veglegt og gómsætt brunch-borð en á því var að finna meðal annars:
- amerískar pönnukökur og síróp
- mangó, melónur, hindber og jarðaber
- mozzarella, basilika og tómatar
- skinka og pylsur frá Pylsumeistaranum auk brauðs
- reyktur lax
- skinkuhorn
- pepperónihyrnur
- brauðsnittur
- eggja- og beikonmúffur
- súkkulaðikaka
- Maríukaka
- ostar og heimabakað kex
- kranskakökubitar frá Önnu Konditorí
Eins og ég sagði þá tvöfaldaði ég Maríukökuna og bakaði hana í stórri ofnskúffu. Hér að neðan gef ég hins vegar upp einfalda uppskrift sem passar í venjulegt 24 cm smelluform.
Maríukaka – uppskrift:
- 3 egg
- 1 dl sykur
- 4 msk smjör
- 100 g gott dökkt súkkulaði
- 1 tsk salt
- 1 tsk vanillusykur
- 1 1/2 dl hveiti
ofan á kökuna:
- 4 msk smjör
- 1/2 dl púðursykur
- 3 msk rjómi
- 1 pk pecanhnetur
- 100 g gott dökkt súkkulaði, saxað (ég sleppti því reyndar í þetta skiptið)
Ofn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita. Egg og sykur þeytt vel saman. Á meðan er súkkulaði og smjör brætt varlega saman í potti, blanda er svo kæld dálítið. Því næst er henni bætt út eggjablönduna og þeytt vel saman. Að lokum eru þurrefnin sigtuð út í blönduna og blandað varlega saman við. 24 cm smelluform smurt að innan og deiginu hellt í formið. Bakað við 175° í 17 mínútur.
Á meðan er smjör, púðursykur og rjómi hitað í potti þar til blandan fer að „bubbla“ og þykkist dálítið. Þegar kakan hefur bakast í 17 mínútur er hún tekin út úr ofninum og pekanhnetum dreift yfir hana, annað hvort í heilu eða saxaðar. Þá er karamellubráðinni hellt yfir kökuna og bakað í 17 mínútur til viðbótar. Um leið og kakan kemur út úr ofninum er súkkulaðinu stráð yfir kökuna.
Innnilega til hamingju með mömmu þína! Þessar hlaðborðsmyndir eru fáránlega girnilegar, maður fær bara vatn í munninn!
Kærar þakkir Kolla! 🙂
Glæsilegt boð! Bætti á mig 7 kílóum bara við að horfa á myndirnar í korter:)
Til hamingju með þína glæsilegu og unglegu móður.
Takk fyrir það Ragga mín! Ég veit ekki hvort ég er meira hissa yfir því að þú hafir nennt að horfa á myndirnar í korter eða hversu auðveldlega þú bætir á þig kílóum! 🙂
Þetta lítur allt svo vel út! Ein spurning, þarf að baka frönsku kökuna e-ð lengur ef hún er gerð svona tvölföld í skúffu? Er að spá hvort það sé erfitt að skera hana í svona teninga sé hún of blaut.
Ég hef séð svipaða uppskrift áður og þá var bökunartíminn sagður vera 30-60 mín.. frekar breitt bil finnst mér :p
Sæl Arna! Ég bakaði frönsku kökuna jafnlengi og er gefið upp í uppskriftinni, þe. í hálftíma og það var ákkurat passlegt. Ég setti svo kökuna í fominu inn í ísskáp í ca. hálftíma eftir að kremið var komið á, þá var ekkert mál að skera hana og ná bitunum á disk eftir það. Ég mæli sem sagt með því að skera hana kalda.
Takk fyrir 🙂
Bakvísun: Pepperóníbrauð | Eldhússögur
Sæl….mikið er ég heppin að ramba inn á þessa girnilegu síðu…. Langar að prófa þessa köku, hve vel geymist hún? Kemst ég upp með að baka hana tveimur, jafnvel þremur dögum fyrir veisluna?
Það er spurning Heiðrún Erla, ég hef ekki reynsluna af því. Sjálf myndi ég ekki gera hana með meira en tveggja daga fyrirvara. Fyrir þetta afmæli gerði ég hana daginn áður.
Takk, er að fara að smella í hana núna… Tek ekki sénsinn…afmæli á morgun:D
Takk fyrir góðar uppskriftir.. <3. Hvar i Sverige bjóst þú ?
Ute bra, Hemma är bäst.
Takk fyrir kveðjuna Jensína! 🙂 Við bjuggum í Stokkhólmi í 15 ár.
Er í lagi að frysta frönsku súkkulaðikökuna? Og myndirðu þá frysta hana með kreminu eða setja það á þegar þú tekur hana út og skera svo í bita?
Já, ég held að það sé alveg hægt að frysta hana með kreminu á.
Má frysta súkkulaðikökurnar með kremi? 🙂
úps, sé þú varst að svara þeirri spurningu 😉