Maríukaka


Maríukaka

Í dag er frábæra mamma mín sextug – til hamingju elsku mamma! 🙂 Í tilefni þess var mamma með brunch í gær fyrir nánustu vini og fjölskyldu.

mamma afmæli2

Hér erum við mamma í dag og fyrir fjörtíu árum! 🙂

Tvær blómarósir í afmælinu, yngstu barnabörnin Bára Margrét 4 ára og Jóhanna Inga 8 ára.

IMG_0027Og dásamlega fallegar bóndarósir sem mamma fékk á afmælinu.

IMG_0087

Ég útbjó þrennt á brunch borðið. Það voru eggja- og beikonmúffurnar sem ég setti inn uppskrift af í gær.

IMG_9924

Auk þess sem ég gerði tvær tegundir af kökum. Kökurnar skar ég í litla bita sem henta vel á svona smáréttahlaðborð. Annars vegar gerði ég franska súkkulaðiköku með súkkulaðikremi. Skotheld uppskrift sem klikkar aldrei, þessa uppskrift er að finna hér. Uppskriftina gerði ég tvöfalda og þá smellpassaði hún í venjulega ofnskúffu og gaf 80 litla kökubita.

IMG_9896

Þar sem súkkulaðikakan er fremur blaut er gott að setja hana í kæli í smá tíma áður en hún er skorin.

IMG_9953Með því að skera kökuna kalda verða bitarnir fallegri.

IMG_9956Það er líka gott að hafa í huga að láta jarðaberin eins seint og hægt er ofan á kökuna því jarðaber verða fljótt slepjuleg ofan á kökum og smita þá vökva út frá sér.

Hins vegar gerði ég köku sem mamma lét mig fá uppskrift að, Maríuköku. Þetta er ljúffeng kaka með pekanhnetum og karamellubráð. Ég gerði þessa uppskrift tvöfalda og þá passaði hún í ofnskúffu. Ég skar bitana aðeins stærri en af súkkulaðikökunni og fékk um það bil 55 bita.

IMG_9919Mamma útbjó veglegt og gómsætt brunch-borð en á því var að finna meðal annars:

IMG_9947

IMG_9998

Eins og ég sagði þá tvöfaldaði ég Maríukökuna og bakaði hana í stórri ofnskúffu. Hér að neðan gef ég hins vegar upp einfalda uppskrift sem passar í venjulegt 24 cm smelluform.

IMG_9920

Maríukaka – uppskrift:

  • 3 egg
  • 1 dl sykur
  • 4 msk smjör
  • 100 g gott dökkt súkkulaði
  • 1 tsk salt
  • 1 tsk vanillusykur
  • 1 1/2 dl hveiti

ofan á kökuna:

  • 4 msk smjör
  • 1/2 dl púðursykur
  • 3 msk rjómi
  • 1 pk pecanhnetur
  • 100 g gott dökkt súkkulaði, saxað (ég sleppti því reyndar í þetta skiptið)

IMG_9851

Ofn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita. Egg og sykur þeytt vel saman. Á meðan er súkkulaði og smjör brætt varlega saman í potti, blanda er svo kæld dálítið. Því næst er henni bætt út eggjablönduna og þeytt vel saman. Að lokum eru þurrefnin sigtuð út í blönduna og blandað varlega saman við.  24 cm smelluform smurt að innan og deiginu hellt í formið. Bakað við 175° í 17 mínútur.

Á meðan er smjör, púðursykur og rjómi hitað í potti þar til blandan fer að „bubbla“ og þykkist dálítið. Þegar kakan hefur bakast í 17 mínútur er hún tekin út úr ofninum og pekanhnetum dreift yfir hana, annað hvort í heilu eða saxaðar. Þá er karamellubráðinni hellt yfir kökuna og bakað í 17 mínútur til viðbótar. Um leið og kakan kemur út úr ofninum er súkkulaðinu stráð yfir kökuna.

IMG_9854

IMG_9858

IMG_9921

Apríkósukaka með karamellukókos


Ég prófaði að baka þessa köku í fyrsta sinn í gær og tók hana með mér í saumó. Hún var svakalega góð þó hún væri svolítið blaut þegar hún var enn heit, hún varð bara meira djúsí við það. Ég held ástæðan fyrir því að hún var blaut var að ég notaði aðeins of stórt form þannig að kakan náði ekki nógu mikillri hæð, apríkósurnar hefðu þurft að vera þaktar betur með deigi. Það kom samt ekkert að sök, kakan var guðdómlega góð! Ég var með form sem er 25×35 sem er aðeins of stórt, það er betra að nota bökunarform sem er 20×30, nú eða auðvitað að stækka bara uppskriftina fyrir stærra form. Það væri ekkert vitlaust að tvöfalda uppskriftina og setja hana í ofnskúffu, þetta er svo góð kaka að hún klárast alltof fljótt! Mæli virkilega með henni með laugardagskaffinu á morgun! 🙂

Uppskrift:

  • 2 egg
  • 4 dl sykur
  • 6 dl hveiti
  • 4 tsk lyftiduft
  • 3 dl mjólk
  • 200 g smjör
  • 250 g niðursoðnar apríkósur
  • 2-3 msk kókós (f. kökuformið)

Karamellukókos:

  • 4 msk smjör, brætt
  • 1 dl rjómi
  • 3 dl ljóst síróp
  • 200 gr kókosmjöl

Ofninn stilltur á 200. gráður. Bökunarform, ca. 20×30 cm, þakið bökunarpappír og ca. 2-3 matskeiðum af kókosmjöli stráð yfir. Apríkósurnar þerraðar og skornar í litla bita. Smjörið brætt í potti og látið kólna dálítið. Egg og sykur þeytt þar til blandan er létt og ljós. Hveiti og lyftidufti bætt út í ásamt mjólkinni og brædda smjörinu. Helmingnum af deiginu er hellt í bökunarformið, dreift úr því út í öll horn. Apríkósunum dreift jafnt yfir deigið og svo restinni af deiginu hellt yfir. Bakað í miðjum ofni við 200 gráður í ca. 15 mínútur.

Á meðan er karamellukókos útbúið. Öllum hráefnunum hellt í pottinn og látið malla í 10 mínútur. Kakan er tekin út eftir 15 mínútur og karamellukókos dreift yfir kökuna og hún svo bökuð í 10-15 mínútur í viðbót. Gott er að bera kökuna fram heita með þeyttum rjóma eða vanilluís. Hún er líka ægilega góð köld!