Ég prófaði að baka þessa köku í fyrsta sinn í gær og tók hana með mér í saumó. Hún var svakalega góð þó hún væri svolítið blaut þegar hún var enn heit, hún varð bara meira djúsí við það. Ég held ástæðan fyrir því að hún var blaut var að ég notaði aðeins of stórt form þannig að kakan náði ekki nógu mikillri hæð, apríkósurnar hefðu þurft að vera þaktar betur með deigi. Það kom samt ekkert að sök, kakan var guðdómlega góð! Ég var með form sem er 25×35 sem er aðeins of stórt, það er betra að nota bökunarform sem er 20×30, nú eða auðvitað að stækka bara uppskriftina fyrir stærra form. Það væri ekkert vitlaust að tvöfalda uppskriftina og setja hana í ofnskúffu, þetta er svo góð kaka að hún klárast alltof fljótt! Mæli virkilega með henni með laugardagskaffinu á morgun! 🙂
Uppskrift:
- 2 egg
- 4 dl sykur
- 6 dl hveiti
- 4 tsk lyftiduft
- 3 dl mjólk
- 200 g smjör
- 250 g niðursoðnar apríkósur
- 2-3 msk kókós (f. kökuformið)
Karamellukókos:
- 4 msk smjör, brætt
- 1 dl rjómi
- 3 dl ljóst síróp
- 200 gr kókosmjöl
Ofninn stilltur á 200. gráður. Bökunarform, ca. 20×30 cm, þakið bökunarpappír og ca. 2-3 matskeiðum af kókosmjöli stráð yfir. Apríkósurnar þerraðar og skornar í litla bita. Smjörið brætt í potti og látið kólna dálítið. Egg og sykur þeytt þar til blandan er létt og ljós. Hveiti og lyftidufti bætt út í ásamt mjólkinni og brædda smjörinu. Helmingnum af deiginu er hellt í bökunarformið, dreift úr því út í öll horn. Apríkósunum dreift jafnt yfir deigið og svo restinni af deiginu hellt yfir. Bakað í miðjum ofni við 200 gráður í ca. 15 mínútur.
Á meðan er karamellukókos útbúið. Öllum hráefnunum hellt í pottinn og látið malla í 10 mínútur. Kakan er tekin út eftir 15 mínútur og karamellukókos dreift yfir kökuna og hún svo bökuð í 10-15 mínútur í viðbót. Gott er að bera kökuna fram heita með þeyttum rjóma eða vanilluís. Hún er líka ægilega góð köld!
Ég er að maula þessa – smá sneið eftir hádegismatinn. Afar ljúffeng.
Ég öfunda þig Sveinn, væri alveg til í eina sneið af þessari núna! 🙂 Gott að þér líkaði kakan.
Vantar ekki eitthvað í uppskriftina kakan n er alveg bragðlaus. Mundi halda að það ætti að vera vanilludropar eða vanillusykur ī henni