Ég hef áður minnst á muscovado sykur og hvað hann sé góður í tertur og kökur. Muscovado sykur er hrásykur, unninn úr sykurreyr en ekki hreinsaður. Þó að hann sé ekki beint hollur þá inniheldur hann b-vítamín og ýmis önnur næringarefni sem eru ekki í hreinsuðum sykri. Það er ákveðið lakkrís/karmellubragð af honum og hann hentar því afar vel í ýmsar kökur, sælgæti, karamellusósur auk heitra drykkja. Þegar muscovado sykur er notaður í kökur verða þær bragðmeiri og rakari en ef að notaður er venjulegur sykur eða púðursykur þar sem að muscovado heldur svo vel í sér raka. Þess vegna hentar hann vel í brownies því þær eiga að vera svolítið rakar og næstum klesstar. Mér finnst þessar brownies feykigóðar og einfaldar að baka. Þegar ég er með matarboð skelli ég oft í eina uppskrift á meðan ég elda matinn og býð upp á nýbakaðar og gómsætar brownies í eftirrétt!
Uppskrift:
200 gr. suðusúkkulaði
225 gr. smjör
3 egg
225 Muscovado sykur (dökkur)
80 gr. hveiti
1 tsk. lyftiduft
100 gr. grófhakkaðir valhnetukjarnar, líka hægt að nota pekanhnetur.
200 gr. mjólkursúkkulaði, grófbrytjað
Hitið ofnin í 180 gráður og smyrjið ferkantað form (ca. 20×30 cm). Brjótið suðusúkkulaðið í bita og setjið í pott ásamt smjörinu, bræðið við mjög vægan hita. Takið pottinn af hitanum um leið og smjörið er bráðið og hrærið þar til súkkulaðið er bráðnað og blandan slétt. Þeytið saman egg og Muscovado sykur þar til létt og ljóst. Hrærið súkkulaðiblöndunni saman við. Blandið hveiti, lyftidufti, valhnetum og mjólkursúkkulaði varlega saman við. Hellið í formið og bakið neðarlega í ofni í 30-40 mín, eða þar til skorpa hefur myndast ofan á en kakan er enn mjúk. Leyfið kökunni að kólna dálítið í forminu áður en hún er skorin í bita. Berið bitana fram volga með vanilluís eða þeyttum rjóma, berjum og jafnvel heitri karamellusósu!
Karmellusósa:
120 g smjör
115 g púðursykur
½ tsk vanilludropar
¼ bolli rjómi
Setjið allt hráefnið saman í pott og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann og látið sósuna krauma í 3-5 mínútur. Hærið stöðugt í á meðan.
Berið sósuna fram heita með kökunni
Hæhæ – virkilega girnileg síða hjá þér 🙂 Hvar fæ ég Muscovado sykurinn?
Með þökk,
Sif
Takk fyrir það Sif! 🙂 Ég held að Muscovado fáist í flestum matvöruverslunum, allavega pottþétt í Hagkaup, mig minnir líka að hann fáist í Bónus. Hann er til frá t.d. Dansukker http://www.mathem.se/varor/muscovadosocker/muscovado-morkt-500g-dansukker
Eða frá Billingtons, http://www.torquato.net/muscovado-cane-sugar.html
Hann er hjá bökunarvörunum.
Bakvísun: Laxa tartar á ananas með kóríander | Eldhússögur
Sæl Dröfn og þakka þér fyrir góðar uppskriftir, hef notað margar og alltaf jafnánægð.
Ég bakaði þessa góðu köku um daginn. Langar til að spyrja þig hvort ég eigi að breyta hitastigi og tíma ef ég baka á blæstri. Ætla að baka ein 10 stykki á morgun fyrir 100 manna veislu og vil því geta sett tvær inn í ofninn um leið. Mér fannst molna heldur úr henni þegar ég bakaði um daginn, var með hana í ofninum í 40 mín., kannski var ástæðan 5 mínútum of mikið? Einhverjar frekari ráðleggingar þegar magnið verður svona mikið?
Bestu kveðjur og kærar þakkir,
Margrét
Takk fyrir hrósið Margrét! 🙂
Varðandi brownies kökuna þá myndi ég lækka hitann allavega niður í 165-170 gráður við blástur. Svo myndi ég bara fylgjast vel með kökunni varðandi tímann. Í raun er betra að baka hana minna en meira, það er allt í lagi þó kakan sé blaut, hún er bara betri þannig. Ég lagaði aðeins uppskriftina og setti inn 30-35 mínútur, það ætti að vera passlegt, ég held að 40 sé aðeins of mikið (það er svo erfitt að segja til um tímann því ofnar eru svo misjafnir)
Svo er spurning hvort þú gætir ekki bakað hana í stórri skúffu? Ég gerði þessa einmitt þannig um daginn fyrir rúmlega 40 manna veislu. Ég tvöfaldaði uppskriftina í eina skúffu. Ég bakaði svo tvær skúffur og hafði kökusneiðarnar stórar og það var frekar mikill afgangur (bar þær fram á disk fyrir hvern og einn með rjóma, heitri karamellusósu og jarðaberjum). Ég er að reyna að rifja upp hversu lengi ég hafði hana í ofninum en man það ekki, líklega í kringum 30 mínúturnar. Svo skar ég út kökurnar þannig að ég skildi kantana alveg eftir, kakan er girnilegri án þeirra. En með því að baka þessa í skúffuformi næðir þú tveimur skúffum í einu í ofninum. Það fer svo eftir hversu stóra bita þú vilt bjóða upp á hversu margar skúffur þú þarft að gera.
Hér gerði ég tvennskonar svipaðar kökur í skúffu, Maríuköku og franska súkkulaðiköku. Ég fékk 55 litla bita úr Maríukökunni og 80 enn minni bita úr þeirri frönsku – þú getur kíkt á stærðirnar hér: https://eldhussogur.com/2013/05/26/mariukaka
Þannig að ef þú vilt hafa kökurnar litlar þá getur þú aðeins miðað við þetta. Ef kökurnar eiga að vera bornar fram í stórum sneiðum þá þarftu örugglega 5 stórar skúffur fyrir 100 manns. Gangi þér vel! 🙂
Kærar þakkir fyrir skjót svör 🙂 Ætla að prufukeyra þessa frönsku í dag, held að hún henti enn betur með ísnum. Ætti ég að setja muscovado í staðinn fyrir hvítan sykur?
Þakka þér kærlega fyrir öll ráðin 🙂
Bestu kveðjur, Margrét
Ég veit ekki alveg með muscovado sykurinn, hef ekki prófað hann í frönsku. Mögulega væri sniðugt að nota helming muscovado og helming sykur. Þú verður eiginlega bara að prófa! 🙂
Frábært, takk kærlega. Ætla að halda mig við hvíta.
Kærar þakkir og bestu kveðjur, Margrét.