Ég hvet ykkur sem hafið áhuga á kökum, tertum og eftirréttum (hver hefur það ekki?) að skoða Fréttatímann vel í fyrramálið. Þar munu birtast nokkrar uppskriftir frá mér sem ég get lofað að valda sælkerum ekki vonbrigðum! 🙂
Í dag ætla ég hins vegar að setja inn klassíska uppskrift, kjúkling og mango chutney! Það mætti kannski halda að borið væri í bakkafullan lækinn með slíkri uppskrift en ég fæ bara ekki nóg af þessari samsetningu, kjúklingur og mangó er svo ákaflega gott saman. Þessi uppskrift hefur verið að flakka um á mörgum sænskum vefsíðum í mismunandi útgáfum og hér er mín útgáfa.
Uppskrift:
- 700 g kjúklingalundir frá Rose Poultry, skornar í bita
- smjör og/eða olía til steikingar
- 1 kjúklingateningur
- 2 dl vatn
- 0,5 msk sojasósa
- 1/2 – 1 tsk sambal oelek (chilimauk)
- 1 púrrlaukur, skorinn í strimla
- 1 rauð paprika, skorin í strimla
- 3 msk mango chutney
- 1 dós 36% sýrður rjómi
- 1 lítið ferskt mangó, skorið í bita
- salt og pipar
Kjúklingurinn saltaður og pipraður og því næst steiktur á pönnu upp úr smjöri og/eða olíu. Vatni, kjúklingateningi, sojasósu og sambal oelek er þá bætt út á pönnuna og látið malla í 10 -15 mínútur (helst undir loki). Því næst er sýrðum rjóma bætt út á pönnuna ásamt púrrlauk og papriku, látið malla í nokkrar mínútur til viðbótar. Að lokum er mangóbitunum bætt út í. Borið fram með hrísgrjónum, fersku salati og góðu brauði.