Fljótlegur kjúklingaréttur í ofni


Fljótlegur kjúklingaréttur í ofni

 

Um daginn gerði ég mangókjúkling með kasjúhnetum og kókos. Hann er afar gómsætur en tekur smá tíma að útbúa. Í kvöld þurfti ég að búa til eitthvað fljótlegt og fyrir valinu varð réttur sem ég sá inni á sænsku matarbloggi. Sósan er ekkert ósvipuð í grunninn og sú í mangókjúklingaréttinum en þessi réttur er mun einfaldari og afskaplega fljótgerður. Í hann er notaður tilbúinn grillaður kjúklingur og í sósuna eru notuð frekar fá hráefni. Þó það sé ekkert dúllað við að rista kókoshnetur og kókos í þessum rétti er hann samt afar bragðgóður. Ef maður fær ekki tilbúinn kjúkling út í búð (hann á það oft til að vera búinn einmitt þegar maður er seint á ferðinni og þarf að gera eitthvað fljótlegt í matinn!) þá er hægt að kaupa einn bakka af kjúklingabringum, skera þær niður í bita og snöggsteikja. Ég átti svo mikið af gulrótum að ég ákvað að prófa að gera uppskrift sem ég sá á netinu um daginn, að karamellusera gulræturnar upp úr smjöri og hrásykri með ferskum, rifnum engifer. Það var afskaplega gott en passar örugglega enn betur með til dæmis með lambalæri.

Uppskrift f. 3-4:

  • 1 grillaður kjúklingur, kjötið hreinsað af beinunum og skorið í bita
  • 1 púrrlaukur, sneiddur smátt
  • smjör til steikingar
  • 3 dl matargerðarjómi eða kaffirjómi
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 2-3 msk mango chutney
  • 1 msk sojasósa
  • 1 msk nautakraftur
  • salt & pipar

Ofninn hitaður í 200 gráður. Kjúklingur lagður í eldfast mót. Púrrlaukur steiktur í smjöri þar til hann er orðinn mjúkur. Mango chutney, rjóma, sýrðum rjóma, sojasósu og nautakrafti bætt út í. Suðan látin koma upp og sósan smökkuð til með salti og pipar. Sósunni síðan hellt yfir kjúklinginn og hitað í ofni í 15-20 mínútur þar til rétturinn er orðinn heitur í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og salati.

 

img_9796