Í vor verða komin sex ár frá því að við fluttum heim frá Stokkhólmi eftir 15 ára dvöl í borginni. Þá þegar fyrir sex árum voru Svíar farnir að bjóða upp á sniðuga þjónustu sem var, og er enn, afar vinsæl þar í landi. Þetta er matarpakkaþjónusta þar sem heimili fá send heim hráefni ásamt uppskriftum fyrir kvöldmatinn. Í Svíþjóð hefur þessi þjónusta verið að þróast undanfarinn áratug og nú er svo komið að það er hægt að fá allskonar tegundir af máltíðum, grænmetismáltíðir, barnvænar máltíðir, LKL-máltíðir og fleira. Ég prófaði þetta í Svíþjóð og líkaði vel en hér á Íslandi hefur ekki verið til slík þjónusta fyrr en núna. Ég rakst á fyrirtækið Eldum rétt á Facebook en það fyrirtæki er nýfarið að bjóða upp á þessa þjónustu. Eftir að hafa skoðað heimasíðuna þeirra ákvað ég að slá til og prófa.

Það eru margir þættir sem þarf að huga að ef svona þjónusta á að ganga upp. Í fyrsta lagi þarf heimasíðan að vera í lagi því hún er fyrsti viðkomustaðurinn. Hráefnið þarf að vera ferskt og gott, passlega skammtað og uppskriftirnar þurfa að vera auðveldar en að sama skapi spennandi og bragðgóðar. Eldum rétt nær strax fullu húsi stiga með ákaflega flotta og notendavæna heimasíðu. Eftir að ég var búin að leggja inn pöntunina, sem var auðvelt, fékk ég greinagóðan og skýran tölvupóst þar sem kom fram hvaða matrétti ég mundi fá, innihaldslýsingu og slíkt.
Ég fékk sendinguna í dag og ég varð satt að segja yfir mig hrifin! Öllum hráefnunum var pakkað afar vel inn, allt skilmerkilega merkt með litum svo auðveldlega sæist hvaða hráefni tilheyrði hvaða uppskriftum.
Síðast en ekki síst var allt hráefnið ákaflega ferskt og spennandi. Ég fékk hráefni í laxarétt, kjúklingarétt og lasagna. Það var mælt með því að byrja á laxaréttinum sem ég og gerði. Það var einstaklega þægilegt og fljótlegt að elda réttinn þar sem allir skammtar voru fyrirfram tilbúnir og auðvelt að fara eftir uppskriftinni.

Það er tilvalið að leyfa krökkunum að hjálpa til við eldamennskuna þar sem hráefnin og uppskriftirnar eru svo aðgengileg. Það er líka svo sniðugt að nota svona hráefni og uppskriftir sem aðrir hafa fundið til fyrir mann. Þannig neyðist maður til þess að fara út fyrir þægindarammann og prófa eitthvað nýtt. Það liðu nákvæmlega 20 mínútur frá því að ég hóf eldamennskuna þar til að maturinn var kominn á borðið. Við vorum öll stórhrifin af matnum, hann var frábærlega góður. Ég hafði haft dálitlar áhyggjur af því að skammtarnir væru kannski litlir – við fjölskyldan erum ekki þekkt fyrir að vera matgrönn! 😉 En það voru óþarfa áhyggjur, skammtarnir voru vel útilátnir. Ég hlakka mikið til að elda hina réttina tvo og mér finnst mikið tilhlökkunarefni að einhver annar sé búinn að hafa allt tilbúið fyrir mig – ég þurfi ekkert annað að gera en að vinda mér í eldamennskuna! 🙂
Ég hafði samband við Eldum rétt og fékk leyfi til þess að deila með ykkur þeim uppskriftum sem ég fékk frá þeim. Hér kemur sú fyrsta sem ég eldaði í kvöld, dásamlega góður laxaréttur.

Uppskrift f. 4:
- 700 g lax
- ólífuolía og smjör til steikingar
- salt og pipar
- 3 dl kúskús
- 60 sólþurrkaðir tómatar
- 2 rauðlaukar
- 30 g kapers
- 60 g strengjabaunir
- 1 sítróna
- taragondressing (sýrður rjómi, sítrónusafi, graslaukur, balsamik edik, taragon krydd, salt og pipar – öllu blandað saman)
Ofn hitaður í 200 gráður við undir og yfirhita. 8 dl af vatni sett í pott ásamt smá salti og hitað að suðu. Þegar vatnið er byrjað að sjóða er potturinn tekinn af hellunni og kúskús sett út í. Lokið sett á pottinn og hann lagður til hliðar. Laxinn er skolaður og skorinn í hæfilega stóra bita. Olía er hituð á pönnu, laxinn saltaður og pipraður og því næst steiktur í um það bil 2 mínútur á hvorri hlið. Laxinn er lagður í eldfast mót. Strengjabaunirnar eru steiktar í heilu lagi í 1-2 mínútur á pönnunni og settar í mótið með laxinum. Bakað í ofni í 10-12 mínútur.
Á meðan er rauðlaukurinn afhýddur og skorinn smátt ásamt kapers og sólþurrkuðum tómötum og þetta er allt steikt saman á pönnu upp úr 2-3 msk af olíu. Þá er kúskúsinu bætt á pönnuna ásamt 2 msk af smjöri og steikt í 2-3 mínútur til viðbótar.
Smakkað til með salti, pipar og dálítið af sítrónusafa kreist yfir. Laxinn er svo borinn fram með steikta kúskúsinu, taragondressingunni og sítrónubátum.

Líkar við:
Líkar við Hleð...