Sojamarineraður lax með mangó-avókadó salsa og smörsteiktu spínati


IMG_9632

Enn ein frábær helgi er liðin hjá og dásamlegur júnímánuður runninn upp. Í gærkvöldi átti ég yndislegt kvöld með vinkonum mínum úr meistaranáminu. Þvílík lukka að námið leiddi okkur þrjá sálufélagana saman! 🙂 Við fórum á Austurlandahraðlestin á nýja staðinn í Lækjargötu og fengum ákaflega góðan mat þar. Því næst lá leiðin í Þjóðleikhúsið þar sem við sáum sýninguna Engla alheimsins sem er frábær sýning. Því næst var bærinn málaður rauður … tja, eða allavega fölbleikur! 😉

En ég ef ég vík að uppskrift dagsins þá ætla ég að gefa ykkur langbestu laxauppskriftina mína hingað til! Já ég veit, ég segi oft að þær laxauppskriftir sem ég set inn séu þær bestu! En trúið mér, þessi ER sú besta! Þessi uppskrift er afskaplega einföld en maður minn hvað hún er góð! Meðlætið er dásamlegt, mangó- og avókadó salsa er auðvitað hrein snilld með laxi en smjörsteikta spínatið er líka ofsalega gott, ég ætla sannarlega að notað það oftar. Okkur fannst marineringinn dásamlega ljúffeng, hún gerði laxinn að hnossgæti! Við mælum sannarlega með þessum frábæra rétti!

Uppskrift: 

  • 800 g lax, roðflettur og skorinn í bita
  • olía til steikingar

IMG_9625

Marinering:
 
  • 1.5 dl sojasósa
  • 1/2 rauður chili, fræhreinsaður og saxaður fínt
  • 1-2 tsk ferskur engifer, rifinn
  • 2 hvítlauksrif, fínsöxuð
  • 1 1/2 msk sesamfræ
  • límónusafi (lime)
  • hunang, fljótandi (eða sykur)
Hráefnunum fyrir marineringuna blandað saman, smakkað til með hunangi og límónusafa. Laxinn er því næst steiktur á pönnu upp úr olíu í um það bil 2 mínútur á hvorri hlið eða þar til laxinn hefur fengið fallegan steikingarlit. Þá er marineringunni hellt yfir laxinn og honum leyft að malla á vægum hita á pönnunni í nokkrar mínútur eða þar til hann er eldaður í gegn. Laxinn er þá lagður upp á fat og marineringunni dreift yfir. Borið fram með hrísgrjónum, smjörsteiktu spínati og mangó-avókadósalsa.

IMG_9627
Smjörsteikt spínat
  • 300 g ferskt spínat
  • smjör
  • 6 vorlaukar, skornir í sneiðar
  • salt og pipar
Rétt áður en laxinn er borinn á borð er spínatið og vorlaukurinn steikt upp úr smjöri í örstutta stund þar til spínatið verður mjúkt. Kryddað með örlitlu salti og pipar eftir smekk og borið fram strax.

Mangó-avókadó salsa
  • mangó, skorið í bita
  • 1 stórt eða 2 lítil avókadó, skorið í bita
  • 1/2 – 1 rauður ferskur chili, fræhreinsaður og saxaður smátt
  • safi úr einni límónu (lime)
  • kóríander eftir smekk, saxað
Öllu blandað vel saman og borið fram með laxinum.

IMG_9639