Það er með eindæmum hversu annasöm aðventan er, það er svo margt að gera og margt um að vera. Þetta er skemmtilegur og viðburðaríkur tími en vissulega mætti sólarhringurinn vera aðeins lengri. Í vikunni sem leið var margt um að vera bæði í vinnunni minni og utan hennar. Ég hélt til dæmis jólasaumaklúbb fyrir „sænska“ saumaklúbbinn minn sem er alltaf tilhlökkunarefni, pakkaleikurinn okkar er alltaf sérstaklega spennandi! Ég bauð stelpunum upp á ekta jólamat, kalkúnabringur með öllu tilheyrandi meðlæti. Alexander átti einnig afmæli í vikunni og ég hélt matarboð í tilefni þess. Sökum anna á öllum vígstöðum ákvað ég að hafa matarboðið eins einfalt og hugsast gæti. Satt best að segja þurfti ég að taka á honum stóra mínum varðandi einfaldleikann. Ef ég býð fólki í mat þá finnst mér mikilvægt að allt sé spikk og span og er kannski ekki alltaf með einfaldasta matinn. Mér varð hins vegar hugsað til Jóhönnu Ingu dóttur minnar þegar hún var svona sex ára. Þá var ég í loftköstum að undirbúa matarboð, lagaði til og þreif milli þess sem ég undirbjó matinn. Jóhanna var fremur hissa á þessum látum í mér og spurði hvers vegna ég væri á svona miklu spani að laga til. Ég svaraði því til að það væru að koma gestir. Þá sagði hún: „Mamma, það verður hvort sem er drasl þegar gestirnir fara, það er mikið sniðugra að laga bara til eftir á!“ Svo bætti hún við: „þú skalt bara hafa góða stemmningu í matarboðinu, lækka ljósin, setja á rólega tónlist og kveikja á fullt af kertum, þá kemur svo góð stemmning!“ Þarna hitti sex ára dóttir mín naglann á höfuðið og það kemur örugglega ekki þeim á óvart sem þekkja þennan snilling.
Ég bað Alexander að skoða bloggið mitt og koma með óskir mat. Hann kom bara með eina ósk og hún var um meðlæti, mangósósuna sem hann dýrkar – honum fannst aukaatriði hvað væri með mangósósunni! Þetta hentaði mér fullkomlega, ég valdi það sem var fljótlegt en örugglega gómsætt, ofnbakaðan lax.
Uppskrift f. ca 3
- 1 flak lax (ca 800 g)
- salt og pipar
- 2-3 msk mango chutney
- 2-3 msk sesamfræ
Ofn hitaður í 180 gráður. Laxinn er lagður í eldfast mót og hann kryddaður með salti og pipar. Því næst er mango chutney smurt á laxinn og sesamfræunum stráð yfir. Bakað í ofni í ca 20 mínútur, fer eftir þykkt laxins, eða þar til hann er eldaður í gegn. Borið fram með ofnbökuðum kartöflum og sætum kartöflum, fersku salati og mangósósu.
Mangósósa:
- 2 dl grísk jógúrt
- 2 dl mangó (frosið – sem búið er að afþýða eða ferskt)
- 2-3 msk mango chutney
- salt og pipar
Öllu hráefninu blandað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél.