Dásamlegar kjúklingavefjur með mangósósu


t´oðu

Dásamlegar kjúklingavefjur með mangósósu

Núna erum við loksins öll komin í sumarfrí nema auðvitað stóru krakkarnir sem vinna eins og hestar í allt sumar. Ég er aðeins að reyna að halda mig frá tölvunni til þess að njóta frísins betur. Það er nefnilega afar tímafrekt að halda úti svona uppskriftabloggi ef vel á að vera. Til dæmis er eiginmaðurinn farinn að kalla bloggið mitt „Kvöldsögur“ þar sem að lunginn af kvöldunum fara oft í að blogga! 🙂 Ég gat samt ekki hamið mig að kíkja hér inn og gefa ykkur uppskrift af dásamlega góðum kjúklingavefjum. Við fórum í skemmtilega dagsferð til Vestmannaeyja núna fyrir helgi og ég útbjó þessar vefjur til þess að taka með í nesti (ég setti inn myndir frá þeim degi á Instagram, endilega fylgist með Eldhússögum á Instagram!). Þessar vefjur eru frábært nesti í ferðalög, þær eru hollar, ákaflega góðar og jafngóðar heitar sem kaldar. Það er svo lítið mál að útbúa þessar vefjur og skella þeim í kælibox. Þá sleppur maður við að koma við í óspennandi vegasjoppum og eyða háum fjárhæðum í oft og tíðum óhollan og lítt gómsætan mat.

IMG_1760

En og aftur er hægt að undrast yfir hvað hægt er að útbúa ljúffengan mat úr fáum hráefnum og með lítilli fyrirhöfn. Ég held að það sé hjónaband kjúklingsins, mangósósunnar, cashew hnetanna og ferska mangósins sem gerir vefjurnar svona gómsætar. Þessar vefjur eru í miklu uppáhaldi hjá okkur öllum, ég hvet ykkur til að prófa!

IMG_1771Kaldar kjúklingavefjur – tilbúnar í ferðalagið!

Uppskrift fyrir 4 vefjur:

 • 1 poki kjúklingalundir frá Rose Poultry (700 g)
 • gott kjúklingakrydd (ég notaði salt, pipar, best á allt frá Pottagöldrum og chili explosion)
 • kál
 • klettasalat
 • tómatar, skornir í bita
 • gúrka, skorin í bita
 • ferskt kóríander, saxaður gróft
 • 1 stór ferskur mangó, skorinn í bita
 • cashew hnetur, saxaðar gróft
 • tortilla pönnukökur
 • mangósósa
mangósósa uppskrift:
 • 200 g grísk jógúrt
 • 3 msk mango chutney
 • 1 tsk karrí
 • 1 vænn biti ferskt mangó – (líka hægt að nota nokkra bita af frystu mangói)
 • salt og pipar eftir smekk

IMG_1746

Öllum hráefnunum í sósuna er blandað vel saman í matvinnsluvél. Smakkað til með salti, pipar og meira karrí ef með þarf.

Kjúklingalundirnar eru skornar í hæfilega stóra bita og kryddaðar eftir smekk. Ég kryddaði þær með salti, pipar, best á allt frá Pottagöldrum og chili explosion). Kjúklingurinn er steiktur á pönnu. Tortillurnar eru hitaðar og á þær eru settar kál og klettasalat, tómatar, gúrkur og mangó ásamt kjúklingnum. Ofan á þetta allt er svo dreift cashew hnetum, kóríander og vel af mangósósu. Vefjunni er svo rúllað upp. Bæði hægt að bera vefjurnar fram kaldar og heitar.

IMG_1775

Kjúklingavefjur með beikoni, mangósalsa og avókadósósu


Ég átti afgang af hráefninu frá því að ég bjó til guacamole auk þess að eiga þroskað mangó. Þar sem að mér finnst þetta afar ljúffeng hráefni, mangó og avókadó, langaði mig að gera eitthvað dásamlega gott í kvöldmatinn úr því. Ég leitaði að uppskriftum en fann ekkert spennandi nema auðvitað mangó/avókadó salsa eins og ég bjó til um daginn en mig langaði að prófa eitthvað nýtt. Að lokum ákvað ég að spinna bara eitthvað gott úr þessu ásamt því að grilla kjúkling. Úr þeirri tilraun spruttu þessar ljúffengu kjúklingavefjur.

Uppskrift:

Mangósalsa:

 • 1 mangó, skorið í bita
 • 1-2 rauð chili-aldin, kjarnhreinsuð og söxuð smátt
 • safi úr 1/2 lime

Öllu blandað saman í skál.

Avókadósósa:

 • 1 stórt avókadó eða 2 lítil
 • 3 dl. grísk jógúrt
 • 1-2 hvítlauksrif
 • safi úr 1/2 lime

Öllu maukað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Geymt í ísskáp í minnst 15 mínútur.

Annað hráefni í vefjurnar:

 • tómatar, skornir smátt
 • salatblöð
 • klettasalat
 • rauðlaukur, saxaður (má sleppa)
 • steikt beikon
 • grillaðar kjúklingabringur, kryddaðar með Kjúklingakryddi frá Pottagöldrum.
 • tortillas pönnukökur

Avókadósósan og mangósalsa er undirbúið á meðan kjúklingurinn er grillaður. Auk þess sem beikonið er steikt á pönnu þar til það verður stökkt, lagt á eldhúspappír og umfram fita látin renna af því. Tómatar eru skornir smátt, salat rifið niður og tortilla pönnukökurnar hitaðar á pönnu. Þegar kjúklingabringurnar eru hér um bil alveg grillaðar í gegn eru þær settar á disk og vafðar þétt inn í álpappír með hröðum handtökum. Þá haldast þær áfram að eldast hægt í eigin hita (sem kemur í veg fyrir að þær verði ofgrillaðar og þurrar) og verða safaríkar og lungnamjúkar. Þegar bringurnar hafa fengið að jafna sig eru þær sneiddar niður.

Inn í tortillas pönnukökuna er svo settur kjúklingur, mangósalsa, avókadósósa, beikon og grænmeti, það er gott að setja mikið af avókadósósunni og mangósalsanu! Það var afgangur þannig að ég útbjó vefjur og geymdi í álpappír í ísskáp. Ég held svei mér þá að þær hafi verið jafnvel enn betri kaldar daginn eftir, allavega jafn góðar!