Kjúklingur með sætum kartöflum og mangósósu


IMG_7576Ég las langt fram yfir háttatíma Jóhönnu í kvöld og er loksins sest núna fyrir framan tölvuna. Við vorum að klára bókina Steinskrípin, hún var svo spennandi á endasprettinum að við gátum ekki hætt! Frábær bók, bæði spennandi og frumleg, við mæðgur mælum með henni!

Í gærkvöldi bjó ég til rétt sem sló í gegn hjá allri fjölskyldunni, „geðveikt gott“ var samdóma álit okkar allra. Þar sem ég bý alltaf til svo mikinn mat þá gerði ég tvær útfærslur af réttinum í gær, í sitt hvoru eldfasta mótinu, til að prófa mig áfram. Ég tók bara myndir af fyrri útfærslunni en gef uppskrift af þeirri seinni því mér fannst hún aðeins betri. Þá blandaði ég jógúrt við mangó chutney sósuna.

Uppskrift f. 6

  • 2 sætar kartöflur (ca. 400 g stykkið)
  • 6 kjúklingabringur
  • ólífuolía
  • 1 dós fetaostur í olíu
  • ca 3/4 dl balsamedik
  • 4-5 hvítlauksrif
  • 3-4 cm engiferrót
  • 100 gr spínat
  • 2 dl mango chutney
  • 2 dl grísk jógúrt (eða hrein jógúrt)
  • salt og pipar
  • fræblanda (t.d. hörfræ, furuhnetur, graskersfræ eða önnur tilbúin fræblanda)

IMG_7565Olíunni af fetaostinum blandað saman við balsamedikið og kjúklingabringunum velt vel upp úr blöndunni. Bringurnar látnar liggja í blöndunni á meðan sætu kartöflurnar eru útbúnar, helst lengur ef tími gefst. Bakarofn hitaður í 200 gráður. Sætar kartöflur afhýddar og skornar í bita, þær lagðar stórt eldfast mót eða ofnskúffu og góðri skvettu af ólífuolíu blandað saman við. Saltað og piprað. Sett inn í ofn við 200 gráður í ca. 20 mínútur. Á meðan eru kjúklingabringurnar steiktar á pönnu. Reynið að veiða sem mest af vökvanum sem bringurnar liggja í, á pönnuna með þeim. Bringurnar steiktar nokkrar mínútur á báðum hliðum þar til þær eru hálfeldaðar. Eldfasta mótið með sætu kartöflunum er tekið út úr ofninum eftir ca. 20-25 mínútur, hvítlaukur og engifer rifið (með rifjárni eða í matvinnsluvél) eða saxað smátt og því blandað vel saman við kartöflurnar ásamt spínatinu. Kjúklingabringurnar lagðar ofan á kartöflunnar. Jógúrt og mangó chutney er hrært saman og dreift yfir bringurnar. Því næst er fetaostinum dreift yfir ásamt fræblöndunni. Allt sett aftur inn í ofn í ca. 15 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Borið fram með mangósósu og fersku salati.

IMG_7578

Mangósósa:

  • 2 dl grísk jógúrt
  • 2 dl mangó (frosið eða ferskt)
  • 3 msk mango chutney
  • safi úr 1/2 límónu (lime)
  • salt og pipar

Öllu hráefninu blandað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Gott að smakka sósuna til með meiri límónusafa, mangó, mangó chutney og/eða salti og pipar eftir þörfum.

27 hugrenningar um “Kjúklingur með sætum kartöflum og mangósósu

  1. Bakvísun: Maður þarf víst að næra sig … « Ullarsokkurinn

  2. Bakvísun: Blogg um blogg og matarblogg « Ullarsokkurinn

  3. Takk kærlega fyrir að deila þessum meiriháttar rétti! Ég prufaði að elda hann áðan og hann er alveg rosalega góður! 🙂

  4. Var með réttinn fyrir gesti á sunnudaginn – gerði mikla lukku – ferskur og mjög góður 🙂

  5. Þú ert bara Guðsgjöf hæfileikaríka kona! Dásamlegar uppskriftir, fallegar myndir og mikill kærleikur sem fylgir þessu öllu saman! Hef yndi af að fylgjast með og njóta þessara frábæru uppskrifta og er dugleg að deila með öðrum 😉 Bestu þakkir frábæra þú 😉

    • Kæra Þórdís, þakka þér fyrir dásamlega fallega kveðju! 🙂 Ég kíkti á síðuna þína og sá öll fallegu kertin sem þú gerir, ég ætla sannarlega að eignast eitt slíkt! Kveðja og þakkir tilbaka til þín! Dröfn

  6. Þessi kjúlli sló í gegn heima hjá mér í gærkvöldi! Var með gesti í mat á mánudegi og var því búin að skera kartöflurnar niður og setja í eldfasta fatið og steikja kjúklinginn kvöldið áður. Skellti svo kartöflunum í ofninn á meðan ég bjó til salat úr Rucola, perum og parmesan – og svo kjúlinn og jukkið ofaná og inní ofn. Gæti ekki verið auðveldara 🙂

  7. Prófaði þennan um daginn, rosalega góður. Á pottþétt eftir að gera hann aftur. Takk fyrir mig 🙂

  8. Takk kærlega fyrir þessa uppskrift, var með stórfjölskylduna í mat og allir dásömuðu þennan rétt. Ótrúlega góður 😀

  9. Bakvísun: Vinsælustu uppskriftirnar 2013 | Eldhússögur

  10. Prófaði þennan kjúklingarétt í kvöld ( lét bringurnar liggja í bleyti frá því í gær).
    Vil hrósa þér fyrir frábæran rétt, mæli með honum.
    kv Ástrún

  11. Ég sá þennan rétt á Facebook síðunni í dag og ákvað strax að þennan yrði ég að prófa. Eldaði hann í kvöld og vá hvað hann var góður!! Allir yfir sig hrifnir 🙂 takk fyrir frábært matarblogg, hef prófað marga rétti frá þér 🙂

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.