Hægeldaður lambahryggur með rauðvínssósu og hunangsgljáðu grænmeti


IMG_7549Á meðan ég sat yfir ritgerðinni minni þá dagdreymdi mig um ýmiss verkefni hér heima fyrir sem mig langaði svo mikið meira að gera en að sitja og skrifa alla daga. Ég dundaði mér við að búa til „to do“ lista yfir öll þessi geysispennandi verkefni. Efst á þeim lista var að fara í gegnum alla fataskápa heimilisins. Ég get staðfest það hér með að þetta verkefni var mun meira spennandi í dagdraumum mínum en í veruleikanum! Ofarlega á lista var líka endurskipulag á barnaherbergjunum. Ég hef því undanfarið verið að selja gamlar hillur og slíkt sem henta ekki lengur þar sem að krakkarnir hafa elst, dótinu fækkað og það breyst. Í kjölfarið hafa ófáar ferðir verið farnar í Íkea undanfarið. Ósk fékk líka dálitla yfirhalningu á sínu herbergi og um helgina fann ég þetta fallega stafrófs-sængurver sem var punkturinn yfir i-ið í herberginu hennar. Það er úr nýrri, tímabundinni línu hjá Íkea, Fjälltåg, margt skemmtilegt í þeirri línu hjá þeim.

Fjalltag

En að uppskrift dagsins. Á sunnudaginn fyrir rúmri viku var ég með þetta gómsæta hægeldaða lambalæri. Það var svo gott að ég ákvað að endurtaka leikinn að hluta til með því að hægelda lambahrygg í gær. Ekki var það síðra en lærið! Að þessu sinni var ég með rauðvín í ofnpottinum sem gaf góðan grunn í sósuna.

IMG_7540

Uppskrift, lambahryggur fyrir ca. 4-5:

 • 1 lambahryggur (2 kíló)
 • 2 dl rauðvín
 • 1 laukur, afhýddur og skorinn í stóra bita
 • 1 hvítlaukur (ég notaði solo hvítlauk), afhýddur og skorinn í báta
 • 4 tómatar, skornir í tvennt
 • 5 lárviðarlauf
 • ólífuolía
 • salt og pipar
 • gott krydd, t.d. rósmarín (ég notaði Best á allt frá pottagöldrum)

Ofninn er hitaður í 100 gráður. Hryggurinn er snyrtur ef þarf, skolaður og þerraður. Því næst er hann, nuddaður með ólífuolíu og kryddaður með salti og pipar. Rauðvíni er hellt í ofnpottinn og hryggurinn settur ofan í ásamt, lauk, hvítlauk, tómötum og lárviðarlaufum. Því næst er kryddað yfir allt með rósmarín eða Best á allt. Lokið er sett á ofnpottinn og hryggurinn eldaður við 100 gráður í ca 5 tíma fyrir 2 kílóa hrygg. Best er að nota kjöthitamæli og stinga honum þar sem vöðvinn er þykkastur. Hryggurinn er tilbúinn þegar hitinn er komin í ca. 62-65 gráður. Þegar ca. 10 mínútur eru eftir af tímanum er ofnpotturinn tekinn út úr ofninum, vökvanum hellt af í skál. Ofninn er hitaður í 220 gráður á grillstillingu. Hryggurinn er settur aftur ofan í ofnpottinn án loks og hann hitaður í ofninum í ca. 6-8 mínútur (áfram á grillstillingu og sama hita) eða þar til puran verður dökkbrún – fylgist vel með hryggnum. Þá er hryggurinn tekinn út og leyft að jafna sig áður en hann er skorinn niður. Á meðan þessu stendur er sósan útbúin.

IMG_7561

Sósa:

 • vökvinn úr ofnpottinum
 • 1 tsk nautakraftur
 • 1 tsk sojasósa
 • 2-3 dl rjómi
 • 1 tsk hunang
 • salt og pipar
 • sósujafnari

Vökvinn úr ofnpottinum er sigtaður og tær vökvinn settur í pott. Mesta fitan er veidd ofan af vökvanum. Suðan látin koma upp og vökvinn látinn malla kröfuglega í ca. 10-15 mínútur eða þar til hann hefur soðið niður um allavega 1/3. Þá er restinni af hráefnunum bætt út og suðan látin koma aftur upp, sósan látin malla þar til hún er hæfilega þykk. Þá er sósan smökkuð til með kryddum.
riojaSævar Már Sveinsson vínþjónn mælir með spænska rauðvíninu Campo Viejo Gran Reserva með þessum rétti og svona er því lýst: Dökkkirsuberjarautt. Þétt meðalfylling, ósætt, fersk sýra, miðlungs tannín. Skógarber, plóma, krydd, jörð, eik.

Hunangsgljáð grænmeti:

 • 6-8 gulrætur, flysjaðar og skornar í bita
 • 1/2 ferskur brokkolí-haus, skorin í bita
 • 150 gr sveppir, skornir í bita
 • 1 paprika, skorin í bita
 • smjör eða olía til steikingar
 • grænmeti frá steikarpottinum
 • 1 msk hunang
 • 1/2 tsk nautakraftur
 • salt og pipar
 • sesamfræ

Vatn sett í pott og suðan látin koma upp. Gulrætur og brokkolí sett út í vatnið og látið sjóða í örfáar mínútur þar til það er hálfsoðið. Sveppir steikir á pönnu upp úr smjöri/olíu og nautakrafti, ásamt papriku. Þá er hálfsoðna brokkolíinu og gulrótunum bætt út á pönnuna ásamt lauknum og tómötunum úr steikarpottinum. Hunangi bætt út í og kryddað örlítið með salti og pipar auk þess sem sesamfræum er stráð yfir. Grænmetinu leyft að malla í nokkrar mínútur við meðalhita.

IMG_7542

25 hugrenningar um “Hægeldaður lambahryggur með rauðvínssósu og hunangsgljáðu grænmeti

 1. Þetta var guðdómlega gott! Hunangsgljáða grænmetið skemmtileg tilbreyting í meðlætinu 😃
  Eftirrétturinn er í ofninum, epla og hindberjakan.
  Takk fyrir.
  Kveðja Berglind

 2. Þessi réttur er algert æði sló ó gegn hjá mér takk fyrir frábæra síðu

 3. Algjörlega frábær uppskrift, meira að segja börnin sem vilja nú ekki oft kjöt voru alsæl.

  • En hvað það var gaman að heyra Dísa! 🙂 Sama er að segja á okkar heimili, barnið sem vill aldrei lambakjöt borðaði margar diska af þessu kjöti!

 4. Bakvísun: Tíu tillögur af páskamat | Eldhússögur

 5. Takk kærlega fyrir að deila þessu með okkur. Gestirnir voru mjög ánægðir (og heimafólk ekki síður)!

 6. Yndislegt !!! Ég finn nú bara bragðið við tilhugsunina og við að sjá myndirnar,en þetta er akkúrat eins og ég vil hafa það ……ummmm TAKKþ

 7. Bakvísun: Hátíðarmatur og nýjung á Eldhússögum | Eldhússögur

 8. Ummmmm svooooo gooootttt 😉 maðurinn minn eldaði svona í afmælismat handa mér oh yndisleg máltíð,kjötið ljúfengt,sósan frábær og grænmetið yndislegt Takk fyrir mig 🙂

 9. Lambahryggur eldaður eftir þessari uppskrift er án efa besti lambahryggur sem ég hef smakkað og ég hef nú smakkað þá marga og gestirnir mínir voru yfir sig hrifnir „ég sló rækilega í gegn núna“ þakka þér snilldarkona fyrir að deila með okkur uppskriftinni 🙂

 10. Þetta var ansi fín uppskrift sem rann vel niður hjá allri fjölskyldunni. Takk fyrir

 11. Hæ hæ, ég er að spá í þegar þú segir einn hvítlaukur, er það einn heill eða eitt clove. Elska allt sem ég hef eldað frá þér. Er að spá í þennann, enn ætla að nota læri. Ekki auðvelt að finna hrygg hér í Kalamazoo. Bið að heilsa.

  • Sæl Inga. Ég nota svona heilan hvílauk sem kallast solo hvílaukur. Hann er fremur lítill og er alveg í heilu, ekki laufum. Ef þú notar lauf þá myndi ég nota nokkur lauf og kljúfa þau í tvennt. Bestu páskakveðjur til ykkar.

 12. Í kvöld er veisla hjá mér og fyrir valinu urðu tvær uppskriftir frá þér, hægeldaður hryggur í rauðvínssósu og Sashimi laxarétturinn. Ég nota vefinn þinn mikið og allt sem ég hef prófað, hefur reynst afskaplega gott. Takk fyrir mig

 13. Takk fyrir þessa girnilegu uppskrift. Ég á von á gestum að langar að prófa hana. Hve lengi eldast hryggurinn á 80°C? Er einn hryggur of lítill matur fyrir 6 manns ef ég hef forrétt?

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.