Hummus er mauk búið til úr kjúklingabaunum. Kjúklingabaunir, sem einnig eru nefndar kíkertur á íslensku, eru fræ af runnanum Cicer arietinum og hafa því ekkert með kjúkling að gera. Á ensku nefnist baunin chickpea en þaðan er heitið komið úr frönsku, chiche, sem er dregið af latneska heitinu. Enska orðið chick er meðal annars yfir kjúkling og aðra fuglsunga og þess vegna hefur þýðingin kjúklingabaun orðið til á íslensku.
Tahini er notað í hummus. Það verður til þegar sesamfræ eru notuð til að búa til sesamsmjör, líkt og hnetur eru notaðar til að búa til hnetusmjör. Það eru til tvær gerðir af Tahini, hvítt og dökkt. Hvíta tahinið er búið til með því að mauka sesamfræin, eftir að þau hafa verið lögð í bleyti yfir nótt og þau létt marin til að opna þau, þar til þau eru orðin að þykkni eða smjöri. Dökkt tahini er búið ti á sama hátt nema þá hafa sesamfræin verið ristuð áður, það er því aðeins bragðmeira. Tahini er mjög góður kalkgjafi og næringarríkt. Tahini er hægt að nota ofan á brauð í staðin fyrir smjör eða hnetusmjör. Ef það er sett í blandara með vatni fæst úr því sesammjólk. Það er líka hægt að nota tahini í buffdeig eða bökur sem bindiefni í staðin fyrir egg og hveiti og í pottrétti í stað kókosmjólk til að mýkja og þykkja. Að auki er það notað í hummus.
Þetta hummus er rosalega gott, sérstaklega á hrökkbrauð ásamt avókadó og tómötum og örlitið af grófmuldum svörtum pipar. Eða sem grænmetisídýfa, Jóhönnu Ingu finnst það gott!
- 1 dós (240 g án vökvans) soðnar/niðursoðnar kjúklingabaunir/kíkertur
- 1-2 msk vökvi frá baununum
- 2 límónur (lime)
- 1 msk Tahini
- 2 hvítlauksrif, söxuð
- 1 msk fersk steinselja, söxuð gróft
- 4-6 msk ólífuolía
mmm.. þetta lítur vel út. .og gaman að fá fræðsluna um kjúklingabaunirnar og tahiníið og hvernig maður getur notað það á fleiri máta… ég geri allt of sjaldan hummus og hef því ekki tímt að kaupa tahini af hræðslu við að það skemmist bara upp í skáp hjá mér.. hafði í raun ekki hugmynd um hvað ég gæti notað það í annað… 🙂
Takk fyrir kveðjuna Anna Sigga! Ég hef einmitt ekki heldur verið dugleg við að búa til hummus en ætla að taka mig á! 🙂 Það er til dæmis æðislegur hummus í boði á veitingastaðnum Kryddlegnum hjörtum með t.d. sólþurrkuðum tómötum. Ég þarf að reyna við það næst! 🙂
Sæl og blessuð og takk fyrir frábærar uppskriftir, nota þær mjög mikið. Lumar þú á góðum brauðréttum fyrir fermingaveislu?
Kveðja,
Ásta
Gaman að heyra það Ásta, takk! 🙂
Ég er með nokkra uppáhaldsbrauðrétti hér á síðunni:
https://eldhussogur.com/2012/08/04/braudrettur-og-rullutertubraud/
https://eldhussogur.com/2012/09/08/kjuklingabaka/
https://eldhussogur.com/2013/01/13/braudsnittur/
Gangi þér vel með veisluna! 🙂
Já ég hef einmitt smakkað þennan á kryddlegnum hjörtum… hann er guðdómlegur.. ef þú ert með uppskriftina að honum mundi ég þokkalega vera spennt fyrir því!!!