Hummus á hrökkbrauði með tómötum og avókadó


IMG_7515Hummus er mauk búið til úr kjúklingabaunum. Kjúklingabaunir, sem einnig eru nefndar kíkertur á íslensku, eru fræ af runnanum Cicer arietinum og hafa því ekkert með kjúkling að gera.  Á ensku nefnist baunin chickpea en þaðan er heitið komið úr frönsku, chiche, sem er dregið af latneska heitinu. Enska orðið chick er meðal annars yfir kjúkling og aðra fuglsunga og þess vegna hefur þýðingin kjúklingabaun orðið til á íslensku.

IMG_7506Tahini er notað í hummus. Það verður til þegar sesamfræ eru notuð til að búa til sesamsmjör, líkt og hnetur eru notaðar til að búa til hnetusmjör. Það eru til tvær gerðir af Tahini, hvítt og dökkt. Hvíta tahinið er búið til með því að mauka sesamfræin, eftir að þau hafa verið lögð í bleyti yfir nótt og þau létt marin til að opna þau, þar til þau eru orðin að þykkni eða smjöri. Dökkt tahini er búið ti á sama hátt nema þá hafa sesamfræin verið ristuð áður, það er því aðeins bragðmeira. Tahini er mjög góður kalkgjafi og næringarríkt. Tahini er hægt að nota ofan á brauð í staðin fyrir smjör eða hnetusmjör. Ef það er sett í blandara með vatni fæst úr því sesammjólk. Það er líka hægt að nota tahini í buffdeig eða bökur sem bindiefni í staðin fyrir egg og hveiti og í pottrétti í stað kókosmjólk til að mýkja og þykkja. Að auki er það notað í hummus.

Þetta hummus er rosalega gott, sérstaklega á hrökkbrauð ásamt avókadó og tómötum og örlitið af grófmuldum svörtum pipar. Eða sem grænmetisídýfa, Jóhönnu Ingu finnst það gott!

IMG_7536

  • 1 dós (240 g án vökvans) soðnar/niðursoðnar kjúklingabaunir/kíkertur
  • 1-2 msk vökvi frá baununum
  • 2 límónur (lime)
  • 1 msk Tahini
  • 2 hvítlauksrif, söxuð
  • 1 msk fersk steinselja, söxuð gróft
  • 4-6 msk ólífuolía
Vökvanum er hellt af kjúklingabaununum og honum haldið til haga. Hýðið rifið af annarri límónunni. Kjúklingabaunirnar settar í matvinnsluvél ásamt hýðinu af límónunni, safanum úr báðum límónunum, hvítlauk, steinselju, tahini og ólífuolíu. Öllu blandað saman þar til orðið að mauki. Þá er vökvanum frá kjúklingabaununum bætt út í þannig að maukið verði passlega þykkt.
IMG_7510