Beikonvafinn kjöthleifur


IMG_7483Ég fann þessa uppskrift á sænskum vef en endaði á því að breyta henni mjög mikið. Það er einmitt einn kosturinn við uppskriftir á netinu. Þar myndast oft spjall og athugasemdir við uppskriftirnar sem gera það að verkum að maður getur nýtt sér hvernig hinir og þessir hafa betrumbætt uppskriftirnar. Þetta hafa netuppskriftir fram yfir uppskriftabækur finnst mér. Ég les allavega alltaf athugasemdir við netuppskriftir af miklum áhuga. Í þessari uppskrift voru nokkrir sem sögðust hafa bætt við hvítlauk og steinselju við kjöthleifinn en slíkt var ekki í upprunalegu uppskriftinni. Ég gerði það líka auk þess að bæta við fleiri kryddum, nautakrafti og beikoni. Ég átti ekki brauðmylsnu og ristaði því brauð sem ég muldi niður, sem er líka eiginlega betra en að nota brauðmylsnu úr pakka. Kjöthleifurinn var ákaflega safaríkur (eins og sést á myndinni hér fyrir neðan), bragðmikill og góður einnig var sósan ljúffeng. Allir í fjölskyldunni voru stórhrifnir! 🙂

IMG_7485

Uppskrift f. 6:

  • 1 kíló nautahakk
  • 1 gulur laukur, saxaður fínt
  • 3 hvítlauksrif, söxuð fínt
  • 2 egg
  • 1 dl brauðmylsna (ég ristaði brauð þar til það varð dökkt og muldi það niður)
  • 1.5 dl mjólk
  • 1 dl rjómi (hægt að skipta út fyrir mjólk)
  • 2 tsk salt
  • 1 tsk pipar
  • 1 tsk nautakraftur
  • 2 tsk heitt pizzakrydd frá Pottagöldrum (ég notaði það krydd sem mér fannst henta best, þetta er með chili, hvítlauk og fleiru sem mér fannst passa vel en það er hægt að nota það krydd sem manni hugnast best)
  • ferskar kryddjurtir, saxaðar, t.d. steinselja, basilika og/eða kóríander. Ég átti dálítið af öllum fyrrnefndum kryddjurtum sem voru að verða slappar, tilvalið til að nota í svona rétti. Líka hægt að nota þurrkuð krydd.
  • 50 g smjör
  • 1 msk sojasósa
  • 1 pakki beikon
  • 2.5 dl vatn

IMG_7470

Sósa

  • ca. 30 g smjör
  • soðið frá kjöthleifnum
  • 0,5 – 1 dl hveiti
  • 2-3 dl mjólk eða matreiðslurjómi
  • salt og pipar
  • 1 msk sojasósa
  • 1 tsk nautakraftur
  • 2 tsk rifsberjahlaup
  • matarlitur

IMG_7472
Bakarofn hitaður í 200 gráður. Öllu hráefninu í kjöthleifnum, fyrir utan smjör, sojasósu, beikon og vatn, er blandað vel saman (ég gerði það í höndunum). Stórt eldfast mót smurt að innan og mótaður kjöthleifur ofan í forminu. Smjörið er brætt og sojasósunni bætt út í. Kjöthleifurinn er smurður með soja-smjörblöndunni (allt í lagi þó það leki niður í formið). Því næst er beikoni vafið utan um kjöthleifinn. Vatninu hellt ofan í formið og kjöthleifurinn bakaður við 200 gráður í 50 mínútur. Ef vökvinn minnkar mikið á meðan eldun stendur er gott að bæta dálitlu vatni út í formið.

Þegar ca 10 mínútur eru eftir af eldunartímanum er steikarvökvanum hellt af kjöthleifnum  og hann settur aftur inn í ofn. Fitan er veidd ofan af steikarvökvanum og dálítið af honum settur í pott ásamt smjörinu og það bakað upp með hveitinu. Þá er restinni af steikarvökvanum hellt út í smátt og smátt og hrært í pottinum á meðan. Því næst er mjólkinni/rjómanum bætt út í og sósan krydduð með sojasósu, nautakrafti og rifsberjahlaupi og látin malla um stund. Ef sósan er of þykk er meiri mjólk bætt út í, ef hún er of þunn er hægt að þykkja hana með sósujafnara. Fallegra er að dekkja sósuna með sósulit. Sósan smökuð til með kryddum, sojasósu og rifsberjahlaupi.

IMG_7489
.

9 hugrenningar um “Beikonvafinn kjöthleifur

  1. Takk fyrir þessa uppskrift. Gerðum hana í kvöld og hún sló í gegn hjá smáum jafnt sem stórum. Eldri sonurinn pantaði þetta strax aftur en hann er mjög íhaldssamur á mat, þannig að það er ug góð meðmæli

    • Mikið er ég glöð að heyra þetta Lilja! 🙂 Það er alltaf ánægjulegt fyrir foreldra að finna matrétti sem börnin eru sátt við! 🙂

  2. Æðisleg laugardagsmáltíð, frábær matur eins og minn elsti sagði og fékk sér tvo diska 🙂

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.