Blómkálssúpa með heimagerðum brauðteningum


Blómkálssúpa með heimagerðum brauðteningumÉg ætlaði að byrja þessa færslu með sömu rullunni og svo oft áður þegar ég blogga um súpur, að í raun sé ég ekkert sérstaklega hrifin af súpum en þessi súpa sé ein af undantekningunum. Þá rann upp fyrir mér ljós að það gæti eiginlega ekki verið rétt. Ég hef sett hingað á Eldhússögur margar súpuuppskriftir sem mér finnst allar ægilega góðar, sérstaklega fiski- og kjúklingasúpurnar. Mér finnst eiginlega bara tvennt dálítið pirrandi við súpur. Það er þegar þær eru sjóðheitar og brenna mann á tungunni og þegar þær skvettast út um allt! Hvort tveggja er auðvelt að laga. Láta bara súpuna standa í smástund og leyfa henni að kólna dálítið áður en hún er borðuð og ekki borða með brussugangi og látum! Niðurstaðan er sem sagt sú að með bættum borðsiðum þá geta súpur vel verið í uppáhaldi hjá mér! 🙂 Í kvöld bjó ég til ákaflega góða súpu úr hráefnum sem ég fann í ísskápnum hjá mér. Það er alltaf jafn gefandi að búa til góðan mat og nýta hráefnin í ísskápnum út í ystu æsar í leiðinni. Til dæmis gerði ég þennan brauðrétt í fyrradag og skar af brauðinu alla skorpu. Ég notaði skorpuna til að búa til gómsæta brauðteninga sem pössuðu eins og hönd í hanska við blómkálssúpuna í kvöld. Í súpuna notaði ég Philadelphia ost með chili og okkur fannst hann gefa súpunni afar gott og mikið bragð. Fyrir þá sem vilja mildari súpu er hægt að nota natural Philadelphia ost.

Uppskrift:

  • 1 stór blómkálshaus
  • 1 meðalstór gulur laukur
  • 2-3 tsk olía
  • 1.2 l kjúklingasoð (4 tsk kjúklingakraftur leystur upp í 1.2 líter af sjóðandi vatni)
  • 1 msk hveiti
  • 1 dós Philadelphia ostur með chili (eða natural fyrir mildari súpu)
  • salt og pipar

Blómkálið er skorið í hæfilega stóra bita og laukurinn saxaður smátt. Laukurinn er steiktur  upp úr olíu í stórum potti þar til hann verður mjúkur. Þá er blómkálinu bætt út og það steikt í smá stund þar til það hefur tekið dálítinn lit og mýkst, hveitinu er þá bætt út í pottinn. Því næst er kjúklingasoðinu hellt út í og súpunni leyft að malla undir loki í ca. 20 mínútur eða þar til blómkálið er orðið vel mjúkt. Þá er Philadelphia ostinum bætt út í og súpan krydduð eftir smekk. Það er hægt að mauka súpuna með töfrasprota eða bera hana fram með blómkálsbitunum í. Borin fram með brauðteningum. Ég setti líka nýjar og ferskar baunspírur út í súpuna sem komu til mín í áskrift í dag sem gáfu súpunni extra gott bragð.

IMG_1937

Brauðteningar:

  • Brauð eða skorpa af brauði
  • ólífuolía
  • heitt pizzakrydd (eða mildara ítalskt krydd fyrir þá sem vilja bragðminni brauðteninga)
  • salt & pipar

Ofn hitaður í 200 gráður. Brauðið er skorið í hæfilega stóra bita og settir í skál. Ólífuolíu hellt yfir brauðteningana og þeim velt vel upp úr olíunni ásamt kryddinu. Passa þarf að nota vel af olíu. Brauðteningunum er því næst raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír og bakað í ofni í ca. 10 mínútur eða þar til brauðteningarnir hafa náð góðum lit.IMG_1929IMG_1938

Lax með pecanhnetusalsa, blómkálsmús með chili og sojasmjörsósu


Lax með pecanhnetusalsa, blómkálsmús með chili og sojasmjörsósa

Mikið var nú dásamlegt að sjá aftur heiðan himinn og sól! Mér líður eins og að þetta hafi verið fyrsti sólardagurinn hér í Reykjavík í júní – sannarlega kominn tími til! Eftir vinnu í dag komst ég loksins í garðvinnuna en hún hefur setið á hakanum í rigningunni undanfarnar vikur. Á meðan ég rótaði í moldinni var ég að hugsa um kvöldmatinn. Veðrið bíður jú upp á að grilla úti. Ég ákvað því að koma við í fiskbúðinni og skoða úrvalið. Þegar þangað var komið leist mér best á laxinn. Allt í einu mundi ég eftir því að ég ætlaði alltaf að prófa að nota lax í þorskuppskriftinni með pistasíusalsanu, en það er ein af vinsælustu uppskriftunum hér á síðunni. Ég ákvað því að nota þau hráefni sem ég átti til og gera aðra útfærslu af þorskuppskriftinni góðu. Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að grilla laxinn en ákvað að setja hann frekar í ofn til þess að hnetusalsað myndi brúnast. Í stað þess að gera sætkartöflumús gerði ég blómkálsmús með chili og Philadelphiaosti með sweet chili, rosalega var hún góð! Sojasmjörsósan er algjört sælgæti og lyftir öllum fiski á annað plan. Í stað þess að nota pistasíur notaði ég pecanhnetur sem komu afar vel út. Ef þið hafið prófað þorskuppskriftina og líkaði vel þá hvet ég ykkur til þess að prófa þetta hnossgæti!

Blómkálsmús

  • 1 stór blómkálshaus
  • 1/2 rautt chili, fræhreinsað
  • ca. 1 msk smjör
  • 1/2 líter nýmjólk (líka hægt að nota rjóma eða blanda saman mjólk og rjóma)
  •  ca. 100 g Philadelphia ostur með sweet chili
  • salt og pipar
  • chili krydd (ég nota kryddið Chili Explosion frá Santa Maria, það er með chili, papriku og sólþurrkuðum tómötum)

IMG_0505

Blómkálið er skorið niður í passlega stór blóm. Chili er klofið í tvennt og fræhreinsað. Mjólkin er sett í pottt og blómkálið ásamt chilinu er soðið í mjólkinni við vægan hita í ca. 10 mínútur eða þar til blómkálið er orðið nægilega vel soðið til þess að hægt sé að stappa það með kartöflustöppu. Þá er mjólkinni hellt af og blómkálið  stappað fínt með smjöri, philadelphia ostinum og bragðbætt með salti, pipar og vel af chili kryddi (það gefur svo gott bragð af annars bragðmilda blómkálinu).

IMG_0508

Lax með pecanhnetusalsa:
  • ca  800 g lax
  • salt og pipar (ég notaði blóðbergs salt frá Saltverki)
  • 3-4 msk pecanhnetur, saxaðar meðalgróft
  • 2-3 msk sítrónusafi og rifið hýði af 1/2 sítrónu
  • 1 msk olífuolía
  • fersk kóríander eða steinselja, söxuð

Ofninn hitaður í 220 gráður. Laxinn er lagður á ofnplötu klædda bökunarpappír eða í eldfast mót. Kryddað með salti og pipar. Því næst er blandað saman í skál: pecanhnetum, sítrónusafa, sítrónuhýði, steinselju eða kóríander og ólífuolíu. Blöndunni er dreift yfir fiskinn. Bakað í miðjum ofni við 220 gráður í ca 12-15 mínútur eða þar til fiskurinn er fulleldaður. Gætið þess að ofelda hann ekki.

IMG_0489

 Sojasmjörsósa

  • 150 g smjör
  • 2 skarlottulaukur (hægt að nota 1/2 rauðlauk), saxaður fínt
  • 2 hvítlauksrif, söxuð fínt
  • 1 tsk rautt chili, saxað fínt
  • 4-5 msk sojasósa
  • 2 msk steinselja, söxuð smátt

IMG_0500

Svona lítur brúnað smjör út, froðuna þarf að veiða af því

Smjör brætt í potti og látið krauma fremur vægt í ca 15 mínútur þannig að smjörið verði brúnt (þetta kallast brúnað smjör). Froðan veidd af smjörinu. Lauk, hvítlauk, sojasósu, chili og steinselju blandað saman í skál og blandað út í smjörið rétt áður en sósan er borin fram.

IMG_0510

IMG_0517

Njótið helst með köldu hvítvínsglasi! 🙂

IMG_0524

Blómkálssúpa með stökkum beikonbitum


IMG_9363

Ég gat ekki hætt að mynda matinn í kvöld. Það var ekki af því að hann væri svona rosalega girnilegur að sjá heldur var það nýja stellið mitt sem ég fæ ekki nóg af! Green gate matarstellin og fylgihlutir er frá Danmörku. Ég sá þau oft í verslunum þegar ég bjó í Svíþjóð og langaði stöðugt í hluti frá þessu merki. Það varð þó aldrei úr neinu, aðallega vegna þess að ég gat ekki ákveðið mig hvað mig langaði í, allt var svo fallegt! Ég meina, flettið þessum sumarbæklingi! Hversu fallegt er ekki bókstaflega allt í þessum lista! 🙂 Ég uppgötvaði nýlega að það er hægt að fá þessar vörur hjá Cup Company hér á Íslandi. Það varð því loksins úr að ég eignaðist nokkrar vörur úr þessu stelli. En ó hvað það erfitt að velja! Að lokum varð úr að ég valdi bara sitt lítið af hverju. Það er nefnilega svo gaman að blanda þessu stelli saman. Ég er búin að handfjatla og dáðst að bollum, diskum og skálum og sveiflast fram og tilbaka í hvað sé uppáhalds hjá mér! Í dag var það þessi skál sem ég bar blómkálssúpu fram í. Hún er dásamlega rómantískt og diskurinn er líka yndislega fallegur! Ég fattaði þegar ég var búin að mynda allt bak og fyrir að ég hafði varla tekið mynd af sjálfri súpunni, maturinn varð allt í einu aukaatriði! 🙂 En súpan er afskaplega einföld og góð, beikonið setur klárlega punktinn yfir i-ið. Saltið í beikoninu gefur súpunni svo gott bragð, það er ómissandi. Fyrir þá sem eru í lágkolvetnis lífstílnum þá fellur þessi súpa beint í  LKL uppskriftaflokkinn.

IMG_9364

Uppskrift:

  • 1 blómkálshöfuð
  • ólífuolía eða smjör
  • 1 litill gulur laukur
  • 1 hvítlauksrif
  • 1 grænmetisteningur
  • 3 dl vatn
  • 3 dl rjómi
  • 2 dl 18% sýrður rjómi
  • salt & hvítur pipar
  • 1-2 tsk sambal oelek chilimauk
  • beikon, skorið í litla bita og steik þar til það er stökkt

IMG_9361

Blómkálið er skolað og skorið niður í passlega stór blóm. Laukur og hvítlaukur saxað fínt og síðan steikt í potti þar til laukurinn verður mjúkur, hann á ekki að brúnast. Þá er vatni, rjóma, sýrðum rjóma, grænmetistening og blómklálinu bætt út í. Látið malla þar til blómkálið er orðið mjúkt. Þá er blómkálið mixað með töfrasprota eða í matvinnsluvél þar til súpan er slétt. Því næst er súpan smökkuð til með salti, pipar og sambal oelek chilimauki. Súpan er borin fram með stökkum beikonbitum.

IMG_9373Hversu fallegt er svo að komast til botns í súpunni?! 🙂

IMG_9377

Blómkáls- og brokkolígratín


Í dag kom út nýtt Séð og heyrt blað sem var með umfjöllun um áhugaverð íslensk blogg. Það var gaman að sjá að Eldhússögur voru með í þessum hópi og það á sömu blaðsíðu og meistarinn sjálfur, mér finnst ég nú tæplega verðug þess! 🙂

image

Það hefur gripið um sig mikið æði hér á landi sem snýst um lágkolvetna mataræði eða LKL-mataræði. Þetta mataræði hefur lengi verið vinsælt í Svíþjóð og þar í landi eru til eru afar mörg matarblogg sem leggja áherslu á slíkar uppskriftir. Þessi réttur sem ég gef uppskrift af í dag smellpassar inn í LKL. Ég notaði kjöt sem ég keypti hjá Mýranauti. Ég hafði nýtt mér þá þjónustu sem þau bjóða upp á, að fá snitsel úr klumpinum og flatsteikinni. Við grilluðum snitselið og með því hafði ég blómkáls- og brokkolígratín og fetaosta-jógúrtsósu. Rosalega gott! Ég segi eins og Fríða vinkona, ég er farin að nota þessa dásamlegu sósu með öllu! 🙂 Gratínið var ákaflega gott og ég mun klárlega búa það til aftur sem fyrst.

IMG_9299

Ég fór í gegnum uppskriftirnar mínar hérna á blogginu og merkti þær sem henta lágkolvetna mataræðinu. Þær eru nú að finna undir flokknum „LKL uppskriftir“. Flokkana er hægt að finna í rúllulistanum hér hægrameginn á síðunni. Það eru mögulega einhver hráefni í þessum uppskriftum sem er á bannlista fyrir LKL en ef ég hef merkt þær LKL, þá met ég sem svo að auðvelt sé að aðlaga viðkomandi uppskriftir að LKL með því að sleppa einstaka hráefni eða skipta því út fyrir annað. Ég er ekki sjálf á þessu matarræði (surprice! 😉 ) og ekki með fullkomna þekkingu á því, þó hafi lesið mér aðeins til þegar ég fór í gegnum uppskriftirnar, þið látið mig bara vita ef ykkur finnst einhver uppskrift ranglega merkt sem LKL!

En hér kemur uppskriftin af blómkáls- og brokkolígratíninu góða. Það væri líka hægt að setja út í það skinku eða beikon og þá er komin heil máltíð!

IMG_9308

Uppskrift:

  • 1 blómkálshöfuð
  • 1 brokkolíhöfuð
  • 2 egg
  • 3 dl rjómi
  • 2-3 dl rifinn ostur
  • 1 hvítlauksrif, saxað smátt eða pressað
  • 1/2 – 1 rauður chili, fræhreinasaður og saxaður smátt
  • salt & pipar

IMG_9297

Ofn hitaður í 225 gráður, undir- og yfirhita. Blómkálið og brokkolíið eru rifin eða skorin niður í passlega stór blóm. Vatn sett í stóran pott og það léttsaltað, suðan látin koma upp. Blómkálið og brokkolíið er soðið í örfáar mínútur, þá má ekki verða mjúkt. Því næst er vatninu helt frá og grænmetið sett í eldfast mót. Egg, rjómi, 1 dl af rifna ostinum, hvílaukurinn, salt, pipar og chili hrært saman og hellt yfir grænmetið. Restinni af rifna ostinum dreift yfir. Bakað í ofni við 225 gráður í 15-20 mínútur.

IMG_9320

Fetaost- og jógúrtósa:
  • 2 dl grísk jógúrt
  • 100 g fetaostur (fetaostkubbur án olíu)
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  • grófmalaður pipar

Öllu blandað saman með gaffli. Fyrir þá sem vilja sósu án kekkja er hægt að keyra jógúrtina og fetaostinn saman í matvinnsluvél í stutta stund áður en restinni af hráefnunum er bætt út í. Gott er að geyma sósuna í ísskáp í stutta stund áður en hún er borin fram.