Ég gat ekki hætt að mynda matinn í kvöld. Það var ekki af því að hann væri svona rosalega girnilegur að sjá heldur var það nýja stellið mitt sem ég fæ ekki nóg af! Green gate matarstellin og fylgihlutir er frá Danmörku. Ég sá þau oft í verslunum þegar ég bjó í Svíþjóð og langaði stöðugt í hluti frá þessu merki. Það varð þó aldrei úr neinu, aðallega vegna þess að ég gat ekki ákveðið mig hvað mig langaði í, allt var svo fallegt! Ég meina, flettið þessum sumarbæklingi! Hversu fallegt er ekki bókstaflega allt í þessum lista! 🙂 Ég uppgötvaði nýlega að það er hægt að fá þessar vörur hjá Cup Company hér á Íslandi. Það varð því loksins úr að ég eignaðist nokkrar vörur úr þessu stelli. En ó hvað það erfitt að velja! Að lokum varð úr að ég valdi bara sitt lítið af hverju. Það er nefnilega svo gaman að blanda þessu stelli saman. Ég er búin að handfjatla og dáðst að bollum, diskum og skálum og sveiflast fram og tilbaka í hvað sé uppáhalds hjá mér! Í dag var það þessi skál sem ég bar blómkálssúpu fram í. Hún er dásamlega rómantískt og diskurinn er líka yndislega fallegur! Ég fattaði þegar ég var búin að mynda allt bak og fyrir að ég hafði varla tekið mynd af sjálfri súpunni, maturinn varð allt í einu aukaatriði! 🙂 En súpan er afskaplega einföld og góð, beikonið setur klárlega punktinn yfir i-ið. Saltið í beikoninu gefur súpunni svo gott bragð, það er ómissandi. Fyrir þá sem eru í lágkolvetnis lífstílnum þá fellur þessi súpa beint í LKL uppskriftaflokkinn.
Uppskrift:
- 1 blómkálshöfuð
- ólífuolía eða smjör
- 1 litill gulur laukur
- 1 hvítlauksrif
- 1 grænmetisteningur
- 3 dl vatn
- 3 dl rjómi
- 2 dl 18% sýrður rjómi
- salt & hvítur pipar
- 1-2 tsk sambal oelek chilimauk
- beikon, skorið í litla bita og steik þar til það er stökkt
Blómkálið er skolað og skorið niður í passlega stór blóm. Laukur og hvítlaukur saxað fínt og síðan steikt í potti þar til laukurinn verður mjúkur, hann á ekki að brúnast. Þá er vatni, rjóma, sýrðum rjóma, grænmetistening og blómklálinu bætt út í. Látið malla þar til blómkálið er orðið mjúkt. Þá er blómkálið mixað með töfrasprota eða í matvinnsluvél þar til súpan er slétt. Því næst er súpan smökkuð til með salti, pipar og sambal oelek chilimauki. Súpan er borin fram með stökkum beikonbitum.
Greengate er fallegast 🙂 safna því sjálf
það hefur lengi fengist í Pipar og Salt á Klapparstíg og var alla vega seinast þegar ég gáði töluvert ódýrara en í cup company 🙂
Ójá Íris, þetta er svo fallegt! 🙂
Ég reyndar skoðaði líka í Pipar og salt og stellin voru á mjög svipuðu verði, sumt samt ódýrara hjá Cup Company, það kom út á það sama þegar meðaltalið var tekið! Ég er svo mikil netmanneskja að ég vil geta skoðað og „grúskað“ í gegnum vörurnar á heimasíðu. Pipar og salt er ekki með heimasíðu en Cup Company er með góða heimasíðu, það gerði útslagið fyrir mig! 😉
Ég get sagt fyrir víst að Cup Company er nú með lægsta verðið á Green Gate vörum á Íslandi og einnig mesta úrvalið – Pipar og Salt er samt alveg yndisleg búð 🙂
geggjað stell 🙂 en á eftir að prófa súpuna
Súpan fékk fína einkunn hér, ég steikti líka brauðteninga með henni. Það var mega! Takk fyrir okkur 🙂
Frábært að heyra Hildigunnur, brauðteningarnir hljóma vel! 🙂