Blómkálssúpa með stökkum beikonbitum


IMG_9363

Ég gat ekki hætt að mynda matinn í kvöld. Það var ekki af því að hann væri svona rosalega girnilegur að sjá heldur var það nýja stellið mitt sem ég fæ ekki nóg af! Green gate matarstellin og fylgihlutir er frá Danmörku. Ég sá þau oft í verslunum þegar ég bjó í Svíþjóð og langaði stöðugt í hluti frá þessu merki. Það varð þó aldrei úr neinu, aðallega vegna þess að ég gat ekki ákveðið mig hvað mig langaði í, allt var svo fallegt! Ég meina, flettið þessum sumarbæklingi! Hversu fallegt er ekki bókstaflega allt í þessum lista! 🙂 Ég uppgötvaði nýlega að það er hægt að fá þessar vörur hjá Cup Company hér á Íslandi. Það varð því loksins úr að ég eignaðist nokkrar vörur úr þessu stelli. En ó hvað það erfitt að velja! Að lokum varð úr að ég valdi bara sitt lítið af hverju. Það er nefnilega svo gaman að blanda þessu stelli saman. Ég er búin að handfjatla og dáðst að bollum, diskum og skálum og sveiflast fram og tilbaka í hvað sé uppáhalds hjá mér! Í dag var það þessi skál sem ég bar blómkálssúpu fram í. Hún er dásamlega rómantískt og diskurinn er líka yndislega fallegur! Ég fattaði þegar ég var búin að mynda allt bak og fyrir að ég hafði varla tekið mynd af sjálfri súpunni, maturinn varð allt í einu aukaatriði! 🙂 En súpan er afskaplega einföld og góð, beikonið setur klárlega punktinn yfir i-ið. Saltið í beikoninu gefur súpunni svo gott bragð, það er ómissandi. Fyrir þá sem eru í lágkolvetnis lífstílnum þá fellur þessi súpa beint í  LKL uppskriftaflokkinn.

IMG_9364

Uppskrift:

  • 1 blómkálshöfuð
  • ólífuolía eða smjör
  • 1 litill gulur laukur
  • 1 hvítlauksrif
  • 1 grænmetisteningur
  • 3 dl vatn
  • 3 dl rjómi
  • 2 dl 18% sýrður rjómi
  • salt & hvítur pipar
  • 1-2 tsk sambal oelek chilimauk
  • beikon, skorið í litla bita og steik þar til það er stökkt

IMG_9361

Blómkálið er skolað og skorið niður í passlega stór blóm. Laukur og hvítlaukur saxað fínt og síðan steikt í potti þar til laukurinn verður mjúkur, hann á ekki að brúnast. Þá er vatni, rjóma, sýrðum rjóma, grænmetistening og blómklálinu bætt út í. Látið malla þar til blómkálið er orðið mjúkt. Þá er blómkálið mixað með töfrasprota eða í matvinnsluvél þar til súpan er slétt. Því næst er súpan smökkuð til með salti, pipar og sambal oelek chilimauki. Súpan er borin fram með stökkum beikonbitum.

IMG_9373Hversu fallegt er svo að komast til botns í súpunni?! 🙂

IMG_9377

Blómkáls- og brokkolígratín


Í dag kom út nýtt Séð og heyrt blað sem var með umfjöllun um áhugaverð íslensk blogg. Það var gaman að sjá að Eldhússögur voru með í þessum hópi og það á sömu blaðsíðu og meistarinn sjálfur, mér finnst ég nú tæplega verðug þess! 🙂

image

Það hefur gripið um sig mikið æði hér á landi sem snýst um lágkolvetna mataræði eða LKL-mataræði. Þetta mataræði hefur lengi verið vinsælt í Svíþjóð og þar í landi eru til eru afar mörg matarblogg sem leggja áherslu á slíkar uppskriftir. Þessi réttur sem ég gef uppskrift af í dag smellpassar inn í LKL. Ég notaði kjöt sem ég keypti hjá Mýranauti. Ég hafði nýtt mér þá þjónustu sem þau bjóða upp á, að fá snitsel úr klumpinum og flatsteikinni. Við grilluðum snitselið og með því hafði ég blómkáls- og brokkolígratín og fetaosta-jógúrtsósu. Rosalega gott! Ég segi eins og Fríða vinkona, ég er farin að nota þessa dásamlegu sósu með öllu! 🙂 Gratínið var ákaflega gott og ég mun klárlega búa það til aftur sem fyrst.

IMG_9299

Ég fór í gegnum uppskriftirnar mínar hérna á blogginu og merkti þær sem henta lágkolvetna mataræðinu. Þær eru nú að finna undir flokknum „LKL uppskriftir“. Flokkana er hægt að finna í rúllulistanum hér hægrameginn á síðunni. Það eru mögulega einhver hráefni í þessum uppskriftum sem er á bannlista fyrir LKL en ef ég hef merkt þær LKL, þá met ég sem svo að auðvelt sé að aðlaga viðkomandi uppskriftir að LKL með því að sleppa einstaka hráefni eða skipta því út fyrir annað. Ég er ekki sjálf á þessu matarræði (surprice! 😉 ) og ekki með fullkomna þekkingu á því, þó hafi lesið mér aðeins til þegar ég fór í gegnum uppskriftirnar, þið látið mig bara vita ef ykkur finnst einhver uppskrift ranglega merkt sem LKL!

En hér kemur uppskriftin af blómkáls- og brokkolígratíninu góða. Það væri líka hægt að setja út í það skinku eða beikon og þá er komin heil máltíð!

IMG_9308

Uppskrift:

  • 1 blómkálshöfuð
  • 1 brokkolíhöfuð
  • 2 egg
  • 3 dl rjómi
  • 2-3 dl rifinn ostur
  • 1 hvítlauksrif, saxað smátt eða pressað
  • 1/2 – 1 rauður chili, fræhreinasaður og saxaður smátt
  • salt & pipar

IMG_9297

Ofn hitaður í 225 gráður, undir- og yfirhita. Blómkálið og brokkolíið eru rifin eða skorin niður í passlega stór blóm. Vatn sett í stóran pott og það léttsaltað, suðan látin koma upp. Blómkálið og brokkolíið er soðið í örfáar mínútur, þá má ekki verða mjúkt. Því næst er vatninu helt frá og grænmetið sett í eldfast mót. Egg, rjómi, 1 dl af rifna ostinum, hvílaukurinn, salt, pipar og chili hrært saman og hellt yfir grænmetið. Restinni af rifna ostinum dreift yfir. Bakað í ofni við 225 gráður í 15-20 mínútur.

IMG_9320

Fetaost- og jógúrtósa:
  • 2 dl grísk jógúrt
  • 100 g fetaostur (fetaostkubbur án olíu)
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  • grófmalaður pipar

Öllu blandað saman með gaffli. Fyrir þá sem vilja sósu án kekkja er hægt að keyra jógúrtina og fetaostinn saman í matvinnsluvél í stutta stund áður en restinni af hráefnunum er bætt út í. Gott er að geyma sósuna í ísskáp í stutta stund áður en hún er borin fram.