Sætkartöflu- og kúrbítsklattar


img_3389

Mér finnst auðveldlega henda að maður festist í sama meðlætinu með góðu grillkjöti. Mér finnst í raun fátt jafnast á við ofnbakaðar sætar kartöflur og grillað grænmeti og nota það afar oft með grillmat. En það er alltaf skemmtilegt að breyta til. Um daginn fengum við matargesti sem eru á lágkolvetnisfæði. Ég ákvað því að búa til klatta úr kúrbít og sætri kartöflu. Reyndar eru sætar kartöflur takmarkaðar í LKL mataræði en matargestirnir okkar leyfa sér þær. Þessir klattar eru ljúffengir og passa vel með ýmisskonar grillkjöti.

Uppskrift:

  • 1 kúrbítur
  • 1 stór sæt kartafla
  • 1 egg
  • 1/2 msk husk
  • 1 dl rifinn parmesan
  • chiliflögur
  • salt & pipar

img_3383

Ofn hitaður í 225 gráður. Kúrbítur rifinn gróft og settur í sigti ásamt smá salti. Hrært dálítið saman og kreist létt til þess að mestur vökvinn farin úr. Sæta kartaflan er skræld og rifin gróft. Rifinn kúrbítur, rifin sæt kartafla og rifinn parmesan ostur er blandað saman ásamt eggi, huski og kryddi. Mótuð buff (fremur lítil) og þeim raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír. Hitað í ofni við 225 gráður þar til buffin hafa tekið fallegan lit og eru elduð í gegn.

img_3394

Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL


Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL

Fyrr í sumar, á einum af þeim alltof fáu sólardögum sem við fengum, var ég með matarboð úti á palli fyrir vini sem eru á LKL matarræðinu. LKL þýðir lágkolvetnis lífstíl og gengur út á að lágmarka kolvetni verulega mikið í matarræðinu.

Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL

Mér finnst lítið mál að finna matrétti sem henta LKL. Þar sem fæðið á að vera fituríkt þá er hægt að gera svo margt gott sem byggir á fitu og próteini. Hins vegar er aðeins flóknara að búa til eftirrétti fyrir LKL. Sykurinn er útilokaður í þessum lífsstíl en hann er jú að finna í flestum hefðbundnum eftirréttum. Hins vegar má nota rjóma og ákveðnar tegundir af berjum og 70% súkkulaði (í hófi). Ég bjó til LKL eftirrétt um daginn sem var ákaflega góður og einfaldur, súkkulaðifrauð, uppskriftin er hér. Að þessu sinni bjó ég til pannacotta sem er eftirréttur upprunninn frá Ítalíu.

Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL

Pannacotta  er vanillubúðingur en nafnið þýðir ,,soðinn rjómi” á ítölsku. Yfirleitt er pannacotta borið fram með berum eða ávöxtum. Það er líka hægt að bragðbæta búðinginn með til dæmis kaffi, kanel, kakó, súkkulaði eða kardimommu. Kjúklingarétturinn sem ég gerði fyrir matarboðið var samrunni nokkurra kjúklingarétta héðan af síðunni sem heppnaðist býsna vel.

Hindberjapannacotta f. 4-6

  • 5 dl rjómi
  • 1 vanillustöng
  • 2  blöð matarlím
  • ½ dl sukrin sætuefni (fæst í Krónunni m.a)

Hindberjasósa:

  • 200 g hindber (ég notaði frosin)
  • 1 msk vatn
  • 3 tsk sukrin
  • örlítill sítrónusafi (ein sprauta úr gulu sítrónubrúsunum) – má sleppa

Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL

Matarlímsblöðin eru lögð í kalt vatn í 5 mínútur. Vanillustöngin er klofin og fræin sett í pott ásamt stönginni og rjómanum. Blandan er soðin í 1-2 mínútur án þess að rjóminn brenni við. Þá er potturinn tekinn af hellunni. Mesta bleytan er kreist úr matarlíminu og því bætt út í pottinn ásamt sukrini. Hrært þar til hvor tveggja er uppleyst, þá er vanillustönginn veidd upp úr og blöndunni er hellt í 4-6 skálar. Látið kólna í ísskáp í minnst 2 tíma áður en hindberasósan er sett á.

Hindberjasósan: Hindberin (afþýdd) eru sett í pott ásamt sukrin og vatni, blandan látin ná suðu, hrært vel á meðan. Sítrónusafa bætt út í. Það er hægt að gera sósuna sléttari með því að nota töfrasprota. Ef maður vill þá er hægt að sigta sósuna til þess að losna við hindberjafræin. Sósan er látin kólna dálítið og henni er því næst hellt yfir pannacotta búðinginn og sett í ísskáp í dálitla stund áður en rétturinn er borinn fram. Gjarnan skreytt með hindberjum og myntublöðum.

Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL

Beikonvafinn kjúklingur í bergmyntusósu LKL

  • ca. 900 g kjúklingabringur eða úrbeinuð kjúklingalæri
  • ólífuolía og smjör til steikingar
  • 1 bréf beikon
  • 1 lítill rauðlaukur, saxaður smátt
  • 3 hvítlauksrif, söxuð mjög smátt
  • 250 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 1 msk smjör og 1 msk. ólífuolía
  • 4 dl rjómi
  • 2 tsk kjúklingakraftur
  • 30 g fersk bergmynta (oregano), blöðin söxuð smátt
  • 1 msk. balsamic edik
  • salt og pipar
  • Best á allt frá Pottagöldrum
  • oregano krydd

Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL

Ofn hitaður í 200 gráður. Kjúklingurinn er kryddaður með salti, pipar, Best á allt og oregano. Því næst er hann vafinn með beikoni og steiktur á pönnu þar til beikonið hefur náð ágætum lit. Því næst er kjúklingurinn færður í eldfast mót. Ólífuolíu og/eða smjöri er bætt á pönnuna. Þá er sveppum og lauk bætt á pönnuna og steikt í smástund, hvítlauk bætt við. Því næst er rjóma bætt út á pönnuna ásamt kjúklingakrafti, balsamic edik og bergmyntunni. Leyft að malla í 1-2 mínútur og smakkað til með kryddunum. Að lokum er sósunni hellt yfir kjúklinginn í eldfasta mótinu og hitað við 200 gráður í ca. 20-30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL

Ég bar kjúklinginn fram með blómkáls- og brokkolígratíni, uppskriftin er hér.

IMG_9308

Auk þess smjörsteikti ég spínat, sú uppskrift er hér.

Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKLNjótið! 🙂

Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL

Lax með pecanhnetusalsa, blómkálsmús með chili og sojasmjörsósu


Lax með pecanhnetusalsa, blómkálsmús með chili og sojasmjörsósa

Mikið var nú dásamlegt að sjá aftur heiðan himinn og sól! Mér líður eins og að þetta hafi verið fyrsti sólardagurinn hér í Reykjavík í júní – sannarlega kominn tími til! Eftir vinnu í dag komst ég loksins í garðvinnuna en hún hefur setið á hakanum í rigningunni undanfarnar vikur. Á meðan ég rótaði í moldinni var ég að hugsa um kvöldmatinn. Veðrið bíður jú upp á að grilla úti. Ég ákvað því að koma við í fiskbúðinni og skoða úrvalið. Þegar þangað var komið leist mér best á laxinn. Allt í einu mundi ég eftir því að ég ætlaði alltaf að prófa að nota lax í þorskuppskriftinni með pistasíusalsanu, en það er ein af vinsælustu uppskriftunum hér á síðunni. Ég ákvað því að nota þau hráefni sem ég átti til og gera aðra útfærslu af þorskuppskriftinni góðu. Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að grilla laxinn en ákvað að setja hann frekar í ofn til þess að hnetusalsað myndi brúnast. Í stað þess að gera sætkartöflumús gerði ég blómkálsmús með chili og Philadelphiaosti með sweet chili, rosalega var hún góð! Sojasmjörsósan er algjört sælgæti og lyftir öllum fiski á annað plan. Í stað þess að nota pistasíur notaði ég pecanhnetur sem komu afar vel út. Ef þið hafið prófað þorskuppskriftina og líkaði vel þá hvet ég ykkur til þess að prófa þetta hnossgæti!

Blómkálsmús

  • 1 stór blómkálshaus
  • 1/2 rautt chili, fræhreinsað
  • ca. 1 msk smjör
  • 1/2 líter nýmjólk (líka hægt að nota rjóma eða blanda saman mjólk og rjóma)
  •  ca. 100 g Philadelphia ostur með sweet chili
  • salt og pipar
  • chili krydd (ég nota kryddið Chili Explosion frá Santa Maria, það er með chili, papriku og sólþurrkuðum tómötum)

IMG_0505

Blómkálið er skorið niður í passlega stór blóm. Chili er klofið í tvennt og fræhreinsað. Mjólkin er sett í pottt og blómkálið ásamt chilinu er soðið í mjólkinni við vægan hita í ca. 10 mínútur eða þar til blómkálið er orðið nægilega vel soðið til þess að hægt sé að stappa það með kartöflustöppu. Þá er mjólkinni hellt af og blómkálið  stappað fínt með smjöri, philadelphia ostinum og bragðbætt með salti, pipar og vel af chili kryddi (það gefur svo gott bragð af annars bragðmilda blómkálinu).

IMG_0508

Lax með pecanhnetusalsa:
  • ca  800 g lax
  • salt og pipar (ég notaði blóðbergs salt frá Saltverki)
  • 3-4 msk pecanhnetur, saxaðar meðalgróft
  • 2-3 msk sítrónusafi og rifið hýði af 1/2 sítrónu
  • 1 msk olífuolía
  • fersk kóríander eða steinselja, söxuð

Ofninn hitaður í 220 gráður. Laxinn er lagður á ofnplötu klædda bökunarpappír eða í eldfast mót. Kryddað með salti og pipar. Því næst er blandað saman í skál: pecanhnetum, sítrónusafa, sítrónuhýði, steinselju eða kóríander og ólífuolíu. Blöndunni er dreift yfir fiskinn. Bakað í miðjum ofni við 220 gráður í ca 12-15 mínútur eða þar til fiskurinn er fulleldaður. Gætið þess að ofelda hann ekki.

IMG_0489

 Sojasmjörsósa

  • 150 g smjör
  • 2 skarlottulaukur (hægt að nota 1/2 rauðlauk), saxaður fínt
  • 2 hvítlauksrif, söxuð fínt
  • 1 tsk rautt chili, saxað fínt
  • 4-5 msk sojasósa
  • 2 msk steinselja, söxuð smátt

IMG_0500

Svona lítur brúnað smjör út, froðuna þarf að veiða af því

Smjör brætt í potti og látið krauma fremur vægt í ca 15 mínútur þannig að smjörið verði brúnt (þetta kallast brúnað smjör). Froðan veidd af smjörinu. Lauk, hvítlauk, sojasósu, chili og steinselju blandað saman í skál og blandað út í smjörið rétt áður en sósan er borin fram.

IMG_0510

IMG_0517

Njótið helst með köldu hvítvínsglasi! 🙂

IMG_0524

Kartöflusalat án kartaflna


IMG_9727

Ég skrifaði um daginn að ég hefði haldið matarboð sem hentaði fyrir þá sem eru í lágkolvetnis lífsstílnum, LKL. Mig langaði að búa til gott kartöflusalat með grillsteikinni en kartöflur eru ekki leyfilegar í LKL. Ég gerði því kartöflusalat án kartaflna, notaði kúrbít í staðinn. Það kom ákaflega vel út, kúrbíturinn er auðvitað ekki með sömu áferð og kartöflur en getur samt vel komið í stað t.d. kartaflna í kartöflusalat eða í stað lasagnaplatna í lasagnaréttinn. Það er auðvitað hægt að nota hvaða kartöflusalats uppskrift sem er og skipta bara út kartöflum fyrir kúrbít en hér er uppskriftin sem ég notaði.

Uppskrift:

  • 1 stór kúrbítur Unknown
  • 1/2 púrrlaukur
  • 1 dl sýrður rjómi
  • 0,5 dl majónes
  • 0,5 msk dijon sinnep
  • 1 msk capers (kemur frá mismunandi framleiðendum en lítur um það bil svona út eins og á myndinni     →
  • Salt & svartur pipar

Kúrbíturinn er afhýddur og skorinn í teninga. Púrrlaukurinn er saxaður fínt. Hvor tveggja er því næst steikt upp úr smjöri þar til kúrbíturinn hefur mýkst dálítið, látið kólna. Capers er saxað og blandað við sýrðan rjóma, majónes og sinnep. Því næst er kúrbítsblöndunni hrært út í og smakkað til með salti og pipar.
IMG_9725

Súkkulaðifrauð


Súkkulaðimousse

Eins og ég sagði frá í gær þá var ég með matrétti um helgina sem henta LKL mataræðinu. Það hefur nú varla farið fram hjá mörgum að þetta mataræði er orðið afar vinsælt hér á landi. Mataræðið inniheldur mjög lítið magn kolvetna en mikið af próteinum og síðast en alls ekki síst, fitu! Það getur verið dálítið flókið að sneiða hjá kolvetnum en kosturinn við þetta mataræði er að það er margt gott leyfilegt. Eftirrétturinn sem ég hafði um helgina var gómsæt súkkulaðimousse eða súkkulaðifrauð. 70-80% súkkulaði er leyfilegt til hátíðabrigða á LKL matarræðinu. Þetta súkkulaðifrauð er afar einfalt en ákaflega ljúffengt í því er einungis dökkt súkkulaði, eggjarauður og þeyttur rjómi. Dásamlega einfalt og gott! Ég hef áður bloggað um súkkulaðifrauð hér. Þar kemur einmitt fram að súkkulaðifrauðin eru til í allskonar útgáfum. Það er af og frá að þetta LKL – súkkulaðifrauð sé einungis fyrir þá sem eru á lágkolvetnismataræði, það er sannarlega fyrir alla aðra sælkera líka! 🙂

IMG_9756

Uppskrift f. 4-6:

  • 100 g dökkt súkkulaði, helst 80%
  • 2 eggjarauður
  • 3 dl rjómi
  • einhverskonar bragðbætir, td. koníak (ég sleppti slíku)

Súkkulaðið er brytjað niður og brætt yfir vatnsbaði við vægan hita, látið kólna dálítið. Því næst er eggjarauðunum bætt út í súkkulaðið einu í senn og blandað vel saman við súkkulaðið. Rjóminn er þeyttur og dálitlum hluta af honum, ca. 1/2 dl., bætt saman við súkkulaðiblönduna og hrært þar til að allt er vel blandað saman. Þá er restinni af rjómanum bætt út í og hrært þar til blandan er slétt. Blöndunni er skipt í glös og látin stífna í ísskáp í minnst 2 tíma áður en hún er borin fram. Gott er að bera fram þeyttan rjóma með súkkulaðifrauðinu og jafnvel skreyta með jarðaberjum eða hindberjum – þau eru leyfileg í LKL!

Hér eru dásamlegu Lattebollarnir frá Cup Company notaðir undir súkkulaðimúsina! 🙂

IMG_9753

Blómkálssúpa með stökkum beikonbitum


IMG_9363

Ég gat ekki hætt að mynda matinn í kvöld. Það var ekki af því að hann væri svona rosalega girnilegur að sjá heldur var það nýja stellið mitt sem ég fæ ekki nóg af! Green gate matarstellin og fylgihlutir er frá Danmörku. Ég sá þau oft í verslunum þegar ég bjó í Svíþjóð og langaði stöðugt í hluti frá þessu merki. Það varð þó aldrei úr neinu, aðallega vegna þess að ég gat ekki ákveðið mig hvað mig langaði í, allt var svo fallegt! Ég meina, flettið þessum sumarbæklingi! Hversu fallegt er ekki bókstaflega allt í þessum lista! 🙂 Ég uppgötvaði nýlega að það er hægt að fá þessar vörur hjá Cup Company hér á Íslandi. Það varð því loksins úr að ég eignaðist nokkrar vörur úr þessu stelli. En ó hvað það erfitt að velja! Að lokum varð úr að ég valdi bara sitt lítið af hverju. Það er nefnilega svo gaman að blanda þessu stelli saman. Ég er búin að handfjatla og dáðst að bollum, diskum og skálum og sveiflast fram og tilbaka í hvað sé uppáhalds hjá mér! Í dag var það þessi skál sem ég bar blómkálssúpu fram í. Hún er dásamlega rómantískt og diskurinn er líka yndislega fallegur! Ég fattaði þegar ég var búin að mynda allt bak og fyrir að ég hafði varla tekið mynd af sjálfri súpunni, maturinn varð allt í einu aukaatriði! 🙂 En súpan er afskaplega einföld og góð, beikonið setur klárlega punktinn yfir i-ið. Saltið í beikoninu gefur súpunni svo gott bragð, það er ómissandi. Fyrir þá sem eru í lágkolvetnis lífstílnum þá fellur þessi súpa beint í  LKL uppskriftaflokkinn.

IMG_9364

Uppskrift:

  • 1 blómkálshöfuð
  • ólífuolía eða smjör
  • 1 litill gulur laukur
  • 1 hvítlauksrif
  • 1 grænmetisteningur
  • 3 dl vatn
  • 3 dl rjómi
  • 2 dl 18% sýrður rjómi
  • salt & hvítur pipar
  • 1-2 tsk sambal oelek chilimauk
  • beikon, skorið í litla bita og steik þar til það er stökkt

IMG_9361

Blómkálið er skolað og skorið niður í passlega stór blóm. Laukur og hvítlaukur saxað fínt og síðan steikt í potti þar til laukurinn verður mjúkur, hann á ekki að brúnast. Þá er vatni, rjóma, sýrðum rjóma, grænmetistening og blómklálinu bætt út í. Látið malla þar til blómkálið er orðið mjúkt. Þá er blómkálið mixað með töfrasprota eða í matvinnsluvél þar til súpan er slétt. Því næst er súpan smökkuð til með salti, pipar og sambal oelek chilimauki. Súpan er borin fram með stökkum beikonbitum.

IMG_9373Hversu fallegt er svo að komast til botns í súpunni?! 🙂

IMG_9377

Blómkáls- og brokkolígratín


Í dag kom út nýtt Séð og heyrt blað sem var með umfjöllun um áhugaverð íslensk blogg. Það var gaman að sjá að Eldhússögur voru með í þessum hópi og það á sömu blaðsíðu og meistarinn sjálfur, mér finnst ég nú tæplega verðug þess! 🙂

image

Það hefur gripið um sig mikið æði hér á landi sem snýst um lágkolvetna mataræði eða LKL-mataræði. Þetta mataræði hefur lengi verið vinsælt í Svíþjóð og þar í landi eru til eru afar mörg matarblogg sem leggja áherslu á slíkar uppskriftir. Þessi réttur sem ég gef uppskrift af í dag smellpassar inn í LKL. Ég notaði kjöt sem ég keypti hjá Mýranauti. Ég hafði nýtt mér þá þjónustu sem þau bjóða upp á, að fá snitsel úr klumpinum og flatsteikinni. Við grilluðum snitselið og með því hafði ég blómkáls- og brokkolígratín og fetaosta-jógúrtsósu. Rosalega gott! Ég segi eins og Fríða vinkona, ég er farin að nota þessa dásamlegu sósu með öllu! 🙂 Gratínið var ákaflega gott og ég mun klárlega búa það til aftur sem fyrst.

IMG_9299

Ég fór í gegnum uppskriftirnar mínar hérna á blogginu og merkti þær sem henta lágkolvetna mataræðinu. Þær eru nú að finna undir flokknum „LKL uppskriftir“. Flokkana er hægt að finna í rúllulistanum hér hægrameginn á síðunni. Það eru mögulega einhver hráefni í þessum uppskriftum sem er á bannlista fyrir LKL en ef ég hef merkt þær LKL, þá met ég sem svo að auðvelt sé að aðlaga viðkomandi uppskriftir að LKL með því að sleppa einstaka hráefni eða skipta því út fyrir annað. Ég er ekki sjálf á þessu matarræði (surprice! 😉 ) og ekki með fullkomna þekkingu á því, þó hafi lesið mér aðeins til þegar ég fór í gegnum uppskriftirnar, þið látið mig bara vita ef ykkur finnst einhver uppskrift ranglega merkt sem LKL!

En hér kemur uppskriftin af blómkáls- og brokkolígratíninu góða. Það væri líka hægt að setja út í það skinku eða beikon og þá er komin heil máltíð!

IMG_9308

Uppskrift:

  • 1 blómkálshöfuð
  • 1 brokkolíhöfuð
  • 2 egg
  • 3 dl rjómi
  • 2-3 dl rifinn ostur
  • 1 hvítlauksrif, saxað smátt eða pressað
  • 1/2 – 1 rauður chili, fræhreinasaður og saxaður smátt
  • salt & pipar

IMG_9297

Ofn hitaður í 225 gráður, undir- og yfirhita. Blómkálið og brokkolíið eru rifin eða skorin niður í passlega stór blóm. Vatn sett í stóran pott og það léttsaltað, suðan látin koma upp. Blómkálið og brokkolíið er soðið í örfáar mínútur, þá má ekki verða mjúkt. Því næst er vatninu helt frá og grænmetið sett í eldfast mót. Egg, rjómi, 1 dl af rifna ostinum, hvílaukurinn, salt, pipar og chili hrært saman og hellt yfir grænmetið. Restinni af rifna ostinum dreift yfir. Bakað í ofni við 225 gráður í 15-20 mínútur.

IMG_9320

Fetaost- og jógúrtósa:
  • 2 dl grísk jógúrt
  • 100 g fetaostur (fetaostkubbur án olíu)
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  • grófmalaður pipar

Öllu blandað saman með gaffli. Fyrir þá sem vilja sósu án kekkja er hægt að keyra jógúrtina og fetaostinn saman í matvinnsluvél í stutta stund áður en restinni af hráefnunum er bætt út í. Gott er að geyma sósuna í ísskáp í stutta stund áður en hún er borin fram.