Lax með pecanhnetusalsa, blómkálsmús með chili og sojasmjörsósu


Lax með pecanhnetusalsa, blómkálsmús með chili og sojasmjörsósa

Mikið var nú dásamlegt að sjá aftur heiðan himinn og sól! Mér líður eins og að þetta hafi verið fyrsti sólardagurinn hér í Reykjavík í júní – sannarlega kominn tími til! Eftir vinnu í dag komst ég loksins í garðvinnuna en hún hefur setið á hakanum í rigningunni undanfarnar vikur. Á meðan ég rótaði í moldinni var ég að hugsa um kvöldmatinn. Veðrið bíður jú upp á að grilla úti. Ég ákvað því að koma við í fiskbúðinni og skoða úrvalið. Þegar þangað var komið leist mér best á laxinn. Allt í einu mundi ég eftir því að ég ætlaði alltaf að prófa að nota lax í þorskuppskriftinni með pistasíusalsanu, en það er ein af vinsælustu uppskriftunum hér á síðunni. Ég ákvað því að nota þau hráefni sem ég átti til og gera aðra útfærslu af þorskuppskriftinni góðu. Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að grilla laxinn en ákvað að setja hann frekar í ofn til þess að hnetusalsað myndi brúnast. Í stað þess að gera sætkartöflumús gerði ég blómkálsmús með chili og Philadelphiaosti með sweet chili, rosalega var hún góð! Sojasmjörsósan er algjört sælgæti og lyftir öllum fiski á annað plan. Í stað þess að nota pistasíur notaði ég pecanhnetur sem komu afar vel út. Ef þið hafið prófað þorskuppskriftina og líkaði vel þá hvet ég ykkur til þess að prófa þetta hnossgæti!

Blómkálsmús

  • 1 stór blómkálshaus
  • 1/2 rautt chili, fræhreinsað
  • ca. 1 msk smjör
  • 1/2 líter nýmjólk (líka hægt að nota rjóma eða blanda saman mjólk og rjóma)
  •  ca. 100 g Philadelphia ostur með sweet chili
  • salt og pipar
  • chili krydd (ég nota kryddið Chili Explosion frá Santa Maria, það er með chili, papriku og sólþurrkuðum tómötum)

IMG_0505

Blómkálið er skorið niður í passlega stór blóm. Chili er klofið í tvennt og fræhreinsað. Mjólkin er sett í pottt og blómkálið ásamt chilinu er soðið í mjólkinni við vægan hita í ca. 10 mínútur eða þar til blómkálið er orðið nægilega vel soðið til þess að hægt sé að stappa það með kartöflustöppu. Þá er mjólkinni hellt af og blómkálið  stappað fínt með smjöri, philadelphia ostinum og bragðbætt með salti, pipar og vel af chili kryddi (það gefur svo gott bragð af annars bragðmilda blómkálinu).

IMG_0508

Lax með pecanhnetusalsa:
  • ca  800 g lax
  • salt og pipar (ég notaði blóðbergs salt frá Saltverki)
  • 3-4 msk pecanhnetur, saxaðar meðalgróft
  • 2-3 msk sítrónusafi og rifið hýði af 1/2 sítrónu
  • 1 msk olífuolía
  • fersk kóríander eða steinselja, söxuð

Ofninn hitaður í 220 gráður. Laxinn er lagður á ofnplötu klædda bökunarpappír eða í eldfast mót. Kryddað með salti og pipar. Því næst er blandað saman í skál: pecanhnetum, sítrónusafa, sítrónuhýði, steinselju eða kóríander og ólífuolíu. Blöndunni er dreift yfir fiskinn. Bakað í miðjum ofni við 220 gráður í ca 12-15 mínútur eða þar til fiskurinn er fulleldaður. Gætið þess að ofelda hann ekki.

IMG_0489

 Sojasmjörsósa

  • 150 g smjör
  • 2 skarlottulaukur (hægt að nota 1/2 rauðlauk), saxaður fínt
  • 2 hvítlauksrif, söxuð fínt
  • 1 tsk rautt chili, saxað fínt
  • 4-5 msk sojasósa
  • 2 msk steinselja, söxuð smátt

IMG_0500

Svona lítur brúnað smjör út, froðuna þarf að veiða af því

Smjör brætt í potti og látið krauma fremur vægt í ca 15 mínútur þannig að smjörið verði brúnt (þetta kallast brúnað smjör). Froðan veidd af smjörinu. Lauk, hvítlauk, sojasósu, chili og steinselju blandað saman í skál og blandað út í smjörið rétt áður en sósan er borin fram.

IMG_0510

IMG_0517

Njótið helst með köldu hvítvínsglasi! 🙂

IMG_0524

Límónumarineruð laxaspjót með mangó- og avókadósalsa


Ég eldaði þennan laxarétt í fyrsta sinn í fyrradag. Ég vissi svo sem að hann hlyti að vera góður þar sem að uppistaðan í réttinum eru nokkur af uppáhaldshráefnunum mínum, lax, mangó og avókadó. En vá hvað þetta er bragðgóður, léttur og ljúffengur réttur, þið bara verðið að prófa! Mikilvægt er að vera með vel þroskað mangó og avókadó, ég skrifaði ráð hér hvernig hægt er að hraða fyrir þroska þeirra. Ég átti avókadó sem ég hafði geymt á þennan hátt og var orðið rétt þroskað. Síðan var ég svo heppin að finna fullkomlega þroskað mangó í Nettó. Ég keypti síðan ljúffengan lax hjá Fiskbúð Hólmgeirs í Mjóddinni en ég kaupi allan fisk af þeim. Þetta er ekki erfiður réttur að útbúa og hann er fljótlegur, það þarf bara að gefa sér tíma fyrir mareneringuna. Þessi uppskrift dugir fyrir þrjá sem aðalréttur en fyrir sex sem forréttur. Ég var með hann í aðalrétt og bar fram með honum naanbrauð með smjöri og salti, uppskriftina er að finna hér.

Límónumarineruð laxaspjót

  • 900 gr. ferskur lax, skorinn í teninga (ca 2,5 x 2,5 cm)
  • 1/2 dl ólífuolía
  • 2 hvítlauksrif, saxað smátt
  • 1/2 límóna (lime), safi og börkur
  • 1/4 tsk sykur
  • salt og pipar
  • kóríander, saxað smátt (hægt að nota flatblaða steinselju í stað kóríanders)

Blandið saman hráefnunum fyrir mareneringuna. Laxinn skorinn í eins jafna teninga (ca. 2.5 cm x 2.5 cm) og hægt er og hann settur í plastpoka. Mareneringunni helt yfir og laxinum velt varlega upp úr henni, geymið í ísskáp í minnst einn tíma, lengur ef hægt er.

Þrír til fimm laxateningar þræddir upp á grillspjót. Ef þið notið tréspjót, leggið þá spjótið í bleyti í ca. hálftíma fyrir notkun til þess að þau brenni ekki. Grillið spjótinn á meðalhita þar til þau eru tilbúin. Reynið að snúa þeim sjaldan til að koma í veg fyrir að laxinn losni af spjótunum. Það þarf að leyfa spjótunum að grillast vel í byrjun áður en þeim er snúið fyrst, þá er lítið mál að snúa þeim eftir það.

Mangó- og avókadósalsa

Á meðan laxinn er að marinerast er salsað útbúið:

  • 1 stórt mangó, skorið í teninga
  • 2 avókadó, skornir í teninga
  • 1/2-1 rauðlaukur, fínsaxaður
  • 1/2-1 rautt chili, kjarnhreinsað og fínsaxað
  • 1/2 límóna (lime)
  • 2 msk góð ólífuolía
  • 1 msk hvítvínsedik
  • salt og pipar
  • ferskt kóríander, saxað (hægt að nota flatblaða steinselju í stað kóríanders)

Mangó, avókadó og lauk blandað varlega saman. Chili bætt við ásamt safanum úr límónunni, ólífuolíu og hvítvínsediki. Kryddið með salt, pipar og kóríander og blandið öllu varlega saman. Geymið í ísskáp.

Berið fram grilluðu laxaspjótin á mangó- og avókadósalsanu, kreystið smá límónusafa yfir og njótið gjarnan með vínsglasi!