Þessar vikur sem við höfum dvalist í Michigan hefur ekki farið framhjá okkur að mikið er ræktað af maískorni hér í sveitunum. Gott framboð er af ferskum maísstönglum sem þarf bara að taka úr hýðinu og sjóða í örfáar mínútur og þá er komið á borð ljúffengt meðlæti. Það er með ólíkindum hversu góður maísinn er svona nýr og ferskur, hann er ákaflega sætur og bragðgóður, mjög frábrugðinn frosna maísnum sem við fáum aðallega heima á Íslandi svo ekki sé talað um úr dós.
Það er þó stundum hægt að fá ferskan maís heima á Íslandi og þá mæli ég eindregið með að þið prófið þetta maís- og avókadósalsa sem er afar gott meðlæti með til dæmis öllum grillmat. Í þessari uppskrift er ferski maísinn notaður óeldaður og þá eru maískornin skemmtilega stökk og sæt. Ég held að það væri líka óskaplega gott að nota þetta salsa með góðum flögum líkt og Tostitos Scoops.
Uppskrift:
- 1 stór, þroskaður avókadó, skorinn í bita
- 2-3 msk safi af límónum (lime)
- 2 stórir tómatar (blautasta innvolsið fjarlægt), skornir í bita
- 2 ferskir maísstönglar
- ca. 3 vorlaukar, hvíti og græni hlutinn saxað fremur smátt (hægt að skipta út fyrir ca. 1/4 rauðlauk, smátt söxuðum)
- ca. 1/4 – 1/2 rauður chili, fræhreinsaður og saxaður mjög smátt
- handfylli ferskt kóríander, saxað smátt
- salt og grófmalaður svartur pipar
Avókadóbitarnir settir í skál og límónusafanum hellt yfir. Þá er tómötunum bætt út í. Hýðið er fjarlægt af maísstönglunum og kornið skorið af stönglunum. Best er að leggja stöngulinn á skurðarbretti og renna beittum hníf meðfram öllum hliðum stöngulsins. Maísinum er því næst bætt út í skálina. Að síðustu er chili bætt út í ásamt kóríander. Smakkað til með salti, pipar og meiri límónusafa ef með þarf.