Grænmetisbollur í kókoskarrísósu með mangó


IMG_6005

*í samstarfi við Hälsans kök“

Ég mun líklega seint gerast grænmetisæta en mér finnst hins vegar rosalega gott að fá mér grænmetisrétti reglulega. Þegar ég var beðin um að búa til uppskrift fyrir grænmetisrétti frá Hälsans kök varð ég mjög spennt fyrir því verkefni því ég þekki vörurnar frá Svíþjóð, þar eru þær mjög vinsælar. Ég bjó til þessa uppskrift úr grænmetisbollunum og var afar hrifin af þeim, virkilega góðar bollur, enda eru þær einna vinsælastar af öllum grænmetisréttunum þeirra. Ég var svo frökk að segja yngstu börnunum fyrst að þetta væru kjötbollur og í kjölfarið borðuðu þau matinn með bestu lyst (sem hefði pottþétt ekki gerst ef þau hefðu vitað að þetta væru grænmetisbollur! 😉 ). Þessi sósa fannst mér líka svo geggjað góð! Mér finnst kókos/karrí alltaf svo gott en þarna prófaði ég í fyrsta sinn að mauka mangó út í. Það gefur einstaklega góða fyllingu í sósuna og góðan sætan keim sem kemur vel heim og saman við kókosmjólk og karrí. Bollurnar smellpassa við þessa sósu.

IMG_5983IMG_5982

Uppskrift (f. 4-5)

 • 600 g grænmetisbollur (bullar) frá Hälsans kök
 • 3 msk ólífuolía
 • 2 msk ferskur engifer, rifinn
 • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
 • 1 rauður chili, fræhreinsaður og saxaður smátt
 • 1 meðalstór rauðlaukur, skorinn í sneiðar
 • 400 g brokkolí, skorið í bita
 • 1 dós kókosmjólk (400 ml)
 • 200 ml grænmetissoð
 • 1-4 msk rautt karrímauk (fer eftir styrkleika mauksins og smekk)
 • 300 g frosið mangó, afþýtt (eða ferskt)
 • 1 tsk túmerik krydd
 • ca. 1 msk fiskisósa (fish sauce) – má sleppa og nota dálítið salt í staðinn
 • 1 límóna (lime), safinn notaður
 • ferskt kóríander

Grænmetisbollurnar eru hitaðar í ofni eftir leiðbeiningum. Ólífuolían er hituð á pönnu. Engifer, hvítlaukur og chili er steikt upp úr olíunni í 2 mínútur. Þá er karrímaukinu bætt út á pönnuna og hrært vel við fremur háan hita í um það bil 2 mínútur. Því næst er brokkolí og rauðlauk bætt út á pönnuna (ólífuolíu bætt við eftir þörfum) og steikt í smástund. Síðan er kókosmjólk og grænmetissoði bætt við. Látið malla við meðalhita á meðan mangóið er maukað vel í matvinnsluvél. Þá er mangómaukinu bætt út á pönnuna ásamt túmerik kryddi. Látið malla við meðalhita í 10-15 mínútur og smakkað til með fiskisósu og safa úr límónu. Í lokin er grænmetisbollunum bætt út í sósuna. Borið fram með fersku kóríander og hrísgrjónum.

IMG_6002IMG_6020