Geggjuð mexíkósk ídýfa


IMG_5392

Já, ég ætla hreinlega að kalla þessa uppskift ”geggjuð mexíkósk ídýfa” því það lýsir henni langbest! Þegar ég var að undirbúa útskriftarveisluna hennar Óskar þá bauðst Anna Sif vinkona til að gera mexíkóska ídýfu sem hún hafði fengið uppskrift að hjá vinkonu sinni. Ég þáði boðið og skemmst er að segja frá því að þetta var eiginlega sá réttur sem hlaut mestu athyglina á hlaðborðinu. Þessi ídýfa er nefnilega svo geggjað góð að það hálfa væri nóg!! Það báðu eiginlega allir um uppskriftina og ég hef verið á leiðinni að setja hana hingað inn í allt sumar. Í gærkvöldi fór Anna vinkona með þessa ídýfu í boð og hún sendi mér skilaboð í dag um að ég yrði að drífa þessa uppskrift inn á alnetið því það voru allir að missa sig yfir ídýfunni og vantaði aðgang að uppskriftinni. Ég bar ídýfuna fram í Tostitos skálum (fást yfirleitt í Hagkaup) en það er líka rosalega gott að bera hana fram með Kirkland Tortilla chips sem fást í Costco.

Hérna kemur uppskriftin og ég segi það og skrifa, þið verðið elskuð af öllum þeim sem fá að smakka þessa sjúklega góðu ídýfu hjá ykkur! 🙂

IMG_5378

 Uppskrift:

Fyrir meðalstórt eldfast mót

  • 200 g rjómaostur
  • 1-2 dósir (fer eftir stærð mótsins) maukaðar pintóbaunir (refried beans) frá t.d. Old el paso eða Santa Maria
  • 1 krukka jalapeno (ca. 100 g án vökva), minna fyrir mildari ídýfu, saxað smátt
  • 1 dós 18% sýrður rjómi
  • 1/2 bréf af taco kryddblöndu
  • 1 meðalstór rauðlaukur, skorinn smátt
  • ca 300 g rifinn ostur
  • 2 krukkur (fer eftir stærð mótsins) taco sósa
  • ca 200 g (án vökva) svartar olífur , skornar í sneiðar
  • ca. 30 g ferskt kóríander, blöðin söxuð

Rjómaosti er smurt á botn eldfasta mótsins. Þá er niðursoðnu bauninum dreift jafnt yfir rjómaostinn. Jalapeno er saxað smátt og dreift yfir baunirnar. Þá er sýrðum rjóma blandað saman við hálft bréf af taco kryddi og blöndunni dreift yfir jalapenos. Því næst er smátt söxuðum rauðlauk dreift yfir sýrða rjómablönduna. Síðan er rifna ostinum dreift yfir rauðlaukinn. Þá er rifni osturinn þakinn með taco sósu. Því næst er söxuðum svörtum ólífum dreift yfir taco sósuna og loks er söxuðum kóríander blöðum dreift yfir ólífurnar.

Borið fram í t.d. Tostitos skálum (fást yfirleitt í Hagkaup) eða með Kirkland Tortilla chips sem fást í Costco.

IMG_5393IMG_5391