Þennan pastarétt geri ég þegar ég vil afla mér vinsælda hjá yngstu krökkunum og ef ég vil vita fyrirfram að þau munu háma í sig kvöldmatinn af bestu lyst! 🙂 Yngstu börnin eru ekki alltaf ánægð með skólamatinn, enda eru skólakokkarnir ekki öfundsverðir af því fjármagni sem þeir hafa úr að spila til þess að búa til mat fyrir mörg hundruð mismatvandna krakka. Þau eru ákaflega hrifin af einum rétti sem skólakokkurinn gerir, það er pasta í ostasósu og Jóhanna hefur kvartað yfir því að ég geri ekki jafngóða ostasósu. Ég tók nú ekki þeirri kvörtun léttvægt og hef verið að þróa ostasósuna þar til að ég sló skólaréttinum við! 😉 Þessi pastaréttur er mjög einfaldur, enda finnst krökkunum best að sleppa öllum óþarfa eins og til dæmis grænmeti! Toppurinn yfir i-ið er að bera fram þennan pastarétt með hvítlauksbrauði.
Uppskrift
- 1 heilsteiktur tilbúinn kjúklingur
- smjör til steikingar
- 100 gr rjómaostur
- 1 piparostur
- 2 dl rifinn ostur
- 3 dl matreiðslurjómi
- 1-2 dl mjólk
- 1 tsk kjúklingakraftur
- salt og pipar
- 500 gr pasta
Pasta soðið eftir leiðbeiningum. Kjötið hreinsað af kjúklingnum og það skorið í litla bita. Því næst er smjörið og kjúklingurinn sett á pönnu, kjúklingurinn saltaður og pipraður og hann síðan steiktur í örskamma stund. Þá er matreiðslurjóma og mjólk hellt út á, piparostur skorinn í litla bita og honum bætt út í ásamt rjómaosti og rifnum osti. Þá er kjúklingakrafti bætt út í. Látið malla á vægum hita og hrært í sósunni öðru hvoru þar til osturinn er bráðnaður. Þá er sósan smökkuð til með kryddi og henni svo blandað saman við pastað. Borið fram með hvítlauksbrauði.
Flott og góð uppskrift takk
Takk fyrir kveðjuna, gaman að heyra! 🙂
Massagott, alveg hreint.
Takk fyrir frábæra uppskrift. Sonurinn sem ekki vill borða ost elskar þennan rétt 🙂
Æðislegt að heyra það Þóra! 🙂
Bakvísun: Pepperóníbrauð | Eldhússögur
Bakvísun: Uppskriftir – Running Dinner Iceland
Bakvísun: KjA?klingapasta meA� ostasA?su | Hun.is